Óhætt er að segja að metafkoma álvera á Íslandi séu mikil innspýting fyrir íslenskt efnahagslíf. Ekki síst núna, þegar kreppir að í löndunum í kringum okkur og við erum að stíga upp úr heimsfaraldri.

Fram kom á ársfundi Samáls í gær að útflutningsverðmæti vegna álframleiðslu náðu nýjum hæðum í fyrra og námu hátt í 300 milljörðum eða um fjórðungi gjaldeyristekna þjóðarbúsins. Þá hefur innlendur kostnaður álvera aldrei verið hærri eða um 123 milljarðar. Ástæðan fyrir því er fyrst og fremst hærra álverð, sem er til komið vegna umframeftirspurnar áls á heimsvísu. Spilar þar inn í óvissa á mörkuðum, en mestu munar um að álið er hluti af lausninni í loftslagsmálum – léttur og sterkur málmur sem léttir bílaflotann og dregur þannig úr losun, auk þess að vera mikilvægt í uppbyggingu nýrra endurnýjanlegra orkukosta og lykilefniviður í hringrásarhagkerfinu.

Met í afkomu áls og orku

„Þegar horft er yfir síðasta ár, þá er einn lærdómurinn sá, að þegar vel gengur í áliðnaði, þá gengur vel í orkugeiranum,“ sagði Einar Þorsteinsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls og stjórnarformaður Samáls, í erindi sínu á ársfundinum. Enda má áætla að álverin hafi keypt raforku af íslenskum orkufyrirtækjum ásamt flutningi fyrir um 62 milljarða. Orkufyrirtækin skiluðu miklum hagnaði í fyrra, arðgreiðslur Landsvirkjunar hafa aldrei verið hærri og öll met voru svo slegin á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Einar dró fram í máli sínu að þar vegur álverðstengingin þungt, en í henni kristallast að hagsmunir liggja saman, ekki bara þegar vel gengur, heldur einnig þegar gefur á bátinn.

Þrátt fyrir hátt álverð hefur álframleiðsla í Evrópu átt undir högg að sækja á liðnu ári. Ástæðan er sú að orkuskortur hefur valdið miklum sveiflum í orkuverði og hafa sum álver í Evrópu ekki verið varin fyrir því með langtímasamningum um raforku. Lætur nærri að dregið hafi úr framleiðslu á meginlandinu, sem nemur framleiðslu hér á landi. Hér á landi hefur stöðugleiki haldist bæði hjá orkufyrirtækjum og stórnotendum með því að horfa til langs tíma – fyrir vikið hefur aldrei fallið niður gjalddagi hjá álveri í yfir hálfrar aldar sögu álframleiðslu á Íslandi og áliðnaðurinn hefur jafnan komið sterkur inn þegar þrengir að í þjóðarbúinu.

Ekki bara útflutningur

Stundum er talað um að álframleiðsla sé eins og útflutningur á raforku. En sú er aldeilis ekki raunin. Þó að raforkukaup álvera hafi aldrei verið meiri en í fyrra, þá námu þau einungis um helmingi innlends kostnaðar. Annað eins fór í að eiga viðskipti við gróskumikinn klasa fyrirtækja í kringum álverin og að skapa verðmæt störf. Á hverju ári kaupa íslensk álver vörur og þjónustu af hundruðum innlendra fyrirtækja. Í fyrra námu þau viðskipti um 35 milljörðum og er þá raforka undanskilin. Laun og launatengd gjöld námu rúmum 22 milljörðum, opinber gjöld um þremur milljörðum og styrkir til samfélagsmála um hundrað milljónum.

Árið í fyrra var gott fyrir áliðnaðinn og mikilvægt er að tryggja áframhaldandi samkeppnishæfni til framtíðar – á þeim grunni byggjast spennandi og vel launuð störf í orkuiðnaði. Á síðasta ári unnu yfir 1.500 manns í álverum á Íslandi og rúmlega 400 starfsmenn á vegum verktakafyrirtækja mættu þar daglega til vinnu. Samtals eru það því um 2 þúsund starfsmenn sem hafa atvinnu af álframleiðslu og tæp 5 þúsund ef einnig er horft til klasans í kringum álverin, samkvæmt greiningu Hagfræðistofnunar.

Græn vegferð áliðnaðar

„Græn vegferð í áliðnaði“ var yfirskrift ársfundar og endurspeglar það áhersluna á að finna leiðir til að draga úr losun, en öll álverin hafa sett sér að verða kolefnishlutlaus árið 2040. Til þess að ná því marki hafa álverin val um ólíkar leiðir, en það breytir ekki þeirri staðreynd að tæknin er ekki fullmótuð. Þess vegna þarf nýsköpun, rannsóknir og þróun, og breitt samstarf atvinnulífs, rannsóknarsamfélags og stjórnvalda um lausnir – og hvað knýr vegferðina þangað.

Það var jákvætt að heyra Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, taka undir það á fundinum. Hún sagði það samtal rétt að hefjast og mikilvægt að allir legðust á eitt. Og vísaði hún til samstarfsins um Elysis í Kanada, þar sem kanadísk stjórnvöld vinna með Rio Tinto, Alcoa og Apple að þróun kolefnislausra skauta, sem myndu útrýma losun frá álerum. Hún klykkti út með orðunum: „Óvenjulegir tímar krefjast óvenjulegra lausna og íslensk stjórnvöld þurfa að vera reiðubúin að hugsa út fyrir kassann.“

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 2. júní 2022.