Borgin er langfjölmennasta sveitarfélagið og á mikið land. Engu að síður er skortur á húsnæði. Samkvæmt könnun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, HMS , bjuggu 11,5% í foreldrahúsum á seinni hluta síðasta árs. Þetta er gríðarlega hátt hlutfall, en til samanburðar voru 12,9% á leigumarkaði á sama tíma í sömu könnun. Ungt fólk á Íslandi býr lengur í foreldrahúsum en gengur og gerist á Norðurlöndunum. Það er verkefni okkar að tryggja tækifæri fyrir ungt fólk að eignast þak yfir höfuðið.

Íbúðum til sölu hefur fækkað hratt vegna þess að það hefur skort fyrirhyggju. Hér þarf að horfa til þess að brjóta nýtt land undir húsnæði en það hefur ekki verið gert í Reykjavík í langan tíma. Það er því mikið tækifæri fólgið í því að skipuleggja og úthluta byggingarlandi á hagkvæmum stöðum. Seðlabankinn, verkalýðshreyfingin og Samtök iðnaðarins eru á einu máli um að þetta þurfi að gera.

Við lögðum til í borgarstjórn að flýta skipulagi fyrir 3.000 íbúðir á hagkvæmum stöðum fyrir almenna markaðinn. Mikill stuðningur er við þessa tillögu í samfélaginu, enda einboðið að bætt framboð bæti húsnæðismarkaðinn. Til viðbótar við þessa tilteknu tillögu þarf að skipuleggja borgina til langs tíma þannig að ekki verði aftur heimagerður skortur á lóðum í borginni, en á þessari stundu er ekki til ein einasta lóð hjá Reykjavíkurborg. Um það vitnar reykjavik . is . Þessu þarf að breyta þannig að framboð nálgist eftirspurn. Ekkert er sterkara en hugmynd hvers tími er kominn sagði Victor Hugo. Það er kominn tími á hagstæðara húsnæði.

Skóli fyrir framtíðina

Nemendur sem hefja nám í grunnskóla á þessu ári, mega búast við að ljúka sínu háskólanámi í kringum árið 2040. Á því ári verður heimurinn talsvert breyttur, ekki síst vegna tækniframfara. Með aukinni gervigreind, eykst þörfin fyrir mannlega hæfni. Utanbókarlærdómur og dönskukennsla vigta minna í framtíðinni, en sköpun, vísindi og það að geta tjáð hugsun sína mun skipta miklu meira máli. Við þurfum að bæta læsi á öllum sviðum. Gæta að því að allir geti lesið texta sér til gagns. Og jafnvel gamans. En við þurfum líka að bæta læsi á aðra hluti. Skilningur á verkefnum og viðfangsefnum skiptir meira máli þegar við tökumst á við framtíðina. Að geta tekist á við verkefni sem við höfum ekki tekist áður við. Aðlögun að nýjum tímum.

Áhersla á sköpun í kennslu og uppeldi skilar sér marktækt í námsárangri. Rannsóknir hafa sýnt fram á að tveggja ára tónlistarnám styrkir árangur nemenda í öðrum námsgreinum. Þar að auki er sköpun víðar en í listum. Tesla er sköpunarverk sem sameinar hönnun og tækni. iPhone er það líka. Forrit er hönnun. Það er sköpunarverk forritara og hönnuða. Framtíðinni verður ekki sjónvarpað. Það er liðin tíð. Hún verður hönnuð og sköpuð. Það er í okkar höndum sem komum nálægt skólamálum að tryggja umgjörð fyrir börnin sem nær til framtíðar. Hvetja börn til að skapa. Leysa ný verkefni og taka þátt í að móta framtíðina. Hér er mikið verk að vinna í skólakerfinu. Og hér á Reykjavík að vera leiðandi.

Komum fólki milli staða

Samgönguvandann er hægt að leysa með því að snjallvæða umferðarljós, fækka hættulegum ljósastýrðum gatnamótum og bæta almenningssamgöngur. Skortur á lausnum veldur því að það lengist í ferðatíma fólks. Ekki síst á annatímum. Vilji er allt sem þarf. Sundabraut þarf að fara inn í aðalskipulagið, en hún mun létta 25-30.000 bílum af Ártúnsbrekkunni þegar hún er komin í gagnið.

Við eigum að auka ferðatíðni Strætó á helstu leiðum eins og lofað hefur verið og nota snjallar ljósastýringar til að tryggja forgang fyrir Strætó þegar hann er ekki á áætlun. Við eigum ekki að nota skort og þrengingar til að neyslustýra ferðum fólks. Við eigum að bæta valkosti í samgöngum ekki gera þá lakari. Nota tæknina sem er að gjörbreyta samgöngum um allan heim. Það er ekki nóg með að nú standi yfir orkuskipti í samgöngum. Sjálfkeyrandi lausnir eru innan seilingar sem munu auka öryggi, bæta flæði og spara gríðarlega fjármuni fyrir fólk. Reykjavíkurborg á að slást í hóp þeirra borga sem eru að undirbúa þessa framtíð. Vera með nútímalegar merkingar og frágang þannig að við getum verið í fararbroddi í að innleiða tækni 21. aldarinnar. Við sjáum glöggt hvernig rafskútur hafa orðið vinsælar á stuttum tíma. Deilihagkerfið býður upp á ótrúlega möguleika sem við eigum að opna fyrir. Framtíðin er að verða til með samgöngubyltingu og snjallvæðingu. Þar eigum við að vera á fullri ferð.

Höfundur er oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur.