Í dag stýra vélar bílum, semja ljóð, reikna líkur á endurteknum afbrotum fanga og greina vafasama hegðun undirritaðs á inernetinu niður í öreindir. Áfram mætti lengi telja. Hér eru þó engar fréttir sagðar, enda líður varla sú vika sem „fjórða iðnbyltingin“ er ekki tekin fyrir í pallborðsumræðum einhverra sniðugra samtaka.

Fletirnir eru margir og flestir tíðræddir. Hvað verður um þá sem missa störf sín í hendur véla, upp að hvaða marki er siðferðislega réttlætanlegt að láta algóriþma taka ákvarðanir um líf, heilsu eða öryggi fólks og munu vélmenni einn daginn snúast gegn sköpurum sínum með ófyrirséðum afleiðingum? Hér eru aðeins nefnd örfá dæmi, sem eru sannarlega raunhæf nú sem aldrei fyrr.

Annað og sannarlega samfélagslega mikilvægt svið, sem er þó óneitanlega minna í kastljósinu, snýr aftur á móti að áhrifum yfirstandandi þróunar á höfundavernd. Réttarsvið sem stendur vörð um fjárhagslega hagsmuni og atvinnuöryggi fjölda fólks og er að nokkru leyti hornsteinn þess að sjálfstæð sköpun einstaklinga þrífist í samfélaginu. Í höfundarétti felst nefnilega ekki aðeins viðurkenning samfélagsins á listsköpun höfundar, heldur felast jafnframt í réttinum mikil fjárhagsleg verðmæti. Þannig veitir hann höfundi einkarétt til hagnýtingar, birtingar og eintakagerðar verks síns og getur höfundur enn fremur á grundvelli hans gert kröfu á hendur þeim sem brjóta gegn einkaréttinum.

Verk eftir vélar

Eðli málsins samkvæmt mynda höfundar og verk tvö kjarnahugtök höfundaréttarins. Höfundarhugtakið kann að hljóma einfalt í eyru flestra og eðlileg ályktun að sjaldan leiki vafi á um hver höfundur verks er hverju sinni. Dæmin sýna þó að sú er ekki alltaf raunin. Í október 2018 var t.d. málverk fyrirtækisins Obvious Art selt fyrir hátt í hálfa milljón Bandaríkjadala í uppboðshúsinu Christies. Verkið er harla sérstakt, en við sköpun þess var tölva mötuð með um fimmtán þúsund portrettmálverkum sem máluð voru allt frá 14. öld til 20. aldar, algóriþmi greindi svo gögnin og skilaði upp á eigin spýtur nýju og frumlegu verki sem hlaut nafnið Portrett af Edmond Belamy (e. Portrait of Edmond Belamy).

Þá semur forritið Poem Portraits ljóð í anda skáldskapar frá 19. öld upp á eigin spýtur og vitvél á vegum Google kallar fram rómantískan kveðskap á grundvelli upplýsinga úr þúsundum ástarsagna sem hún er mötuð með. Hér eru aðeins nefnd örfá dæmi, en einnig er nærtækt að nefna tölvuleikjatónlist, sívaxandi iðnað þar sem tónsmíðarnar eru í sífellt auknum mæli í höndum véla.

Framangreind verk eiga það öll sameiginlegt að tæplega verður bent á einn nafngreindan einstakling sem höfund þeirra, heldur virðist þvert á móti rökrétt að benda einfaldlega á sjálfa vélina eða algóriþmann.

Sjálfstæð andleg sköpun

Þegar svo háttar til er full ástæða til að spyrja sig hver raunverulega eigi afsprengi listsköpunar véla. Dæmist höfundaréttur til vélarinnar sjálfrar, notanda hennar, eiganda, hönnuðar, forritara eða verkkaupa? Með hliðsjón af nú-gildandi höfundalöggjöf er niðurstaðan nokkuð skýr bæði hér á landi og víðar í Evrópu. Svarið er nefnilega, að öllu óbreyttu, enginn.

Höfundavernd er þess eðlis að ekki þarf að sækja sérstaklega um hana, líkt og gildir t.d. um einkaleyfi. Þegar höfundur hefur skapað verk sitt nýtur hann einfaldlega höfundaréttar. Aftur á móti er verndin ekki skilyrðislaus. Í 1. grein hinna íslensku höfundalaga segir að höfundur að bókmenntaverki eða listaverki eigi eignarrétt á því, með nánar tilgreindum takmörkunum. Eins einföld og sú regla kann að hljóma er þar með ekki öll sagan sögð. Sé litið til athugasemda í frumvarpi til laganna segir nefnilega að til þess að teljast til framangreindra flokka verði verkið að bera með sér nýja og sjálfstæða andlega sköpun.

Hugtaksskilyrðið um sjálfstæða andlega sköpun er ekki nánar skýrt í lögunum eða frumvarpinu. Til þess er þó að líta að íslensk höfundalöggjöf er á fimmtugsaldri og verk sköpuð fyrir tilstilli gervigreindar hafa tæplega verið löggjafanum ofarlega í huga við lagasetninguna. Sams konar skilyrði má aftur á móti finna víða í Evrópulöggjöf, sem víðast hvar setur mark sitt á íslensk lög.

Persónulegur stimpill

Undanfarin ár hefur Evrópudómstóllinn skýrt nánar inntak kröfunnar um sjálfstæða andlega sköpun. Hefur í dómum hans m.v. verið á því byggt að höfundur þurfi að hafa „nýtt sköpunargáfu sína á frumlegan hátt“, „sett sinn persónulega stimpil á verkið“ og að verkið sjálft „endurspegli persónuleika hans“. Afdráttarlausasta orðalagið er svo að finna í niðurstöðu frá 2011, þar sem dómstóllinn sló því föstu að „einungis sköpunarverk mannfólks gætu notið verndar“ í skilningi viðeigandi tilskipunar, en í málinu var deilt um höfundavernd ljósmynda.

Dómstólar í Bandaríkjunum, Ástralíu og víðar hafa komist að sambærilegri niðurstöðu um þanþol höfundaverndar. Í breskum höfundalögum er aftur á móti að finna sérreglu um „tölvusköpuð verk“, þar sem tryggt er að verk geti notið höfundaverndar þrátt fyrir að hin eiginlega sköpun sé ekki í höndum manneskju af holdi og blóði. Sams konar reglur er m.a. að finna löggjöf Hong Kong, NýjaSjálands, Suður-Afríku og Indlands. Slíkt ákvæði er hins vegar hvergi að finna í íslenskum lögum, sem taka í mun meiri mæli mið af meginlandslöggjöf og regluverki ESB. Virðist því ekki ástæða til annars en að líta svo á að verk þar sem engum mannlegum höfundi er til að dreifa njóti að óbreyttu ekki höfundaverndar hér á landi.

Tekjulaus í einskismannslandi

Þegar enginn höfundaréttur er til staðar lenda verk að jafnaði í því einskismannslandi sem á ensku er kallað Public Domain. Í því felst einfaldlega að verkið er almenningseign, öllum frjálst til afnota án þess að neinn tiltekinn aðili hirði af því tekjur eða gjöld. Vart þarf að hafa um það mörg orð að fjárfesting í sköpun og framleiðslu slíkra verka getur reynst dýrkeypt, skili hún litlum ávinningi eða tryggingu fyrir einkarétti til hagnýtingar. Jafnvel kann hvatinn til að þróa vélar og tækni sem skapar slík verk upp á eigin spýtur að vera lítill sem enginn þegar svo háttar til.

Bresku lögin, sem tryggja höfundavernd tölvuskapaðra verka án mannlegs höfundar, láta ýmsum spurningum ósvarað – þ.á m. hver skuli teljast höfundur í tilfelli hinna vélrænu verka hverju sinni. Aftur á móti tryggja þau a.m.k. að höfundavernd geti verið til staðar og eru fjárhagslegir hagsmunir þeirra sem gera út slíkar vélar því tryggðir upp að einhverju marki. Full ástæða er til að skoða svipaða lausn í íslenskri löggjöf og tryggja þannig að nýsköpun, á borð við fyrrnefnd dæmi, leiði ekki einungis af sér tekju- og umkomulaus hugverk án höfundar.

Höfundur er lögfræðingur. Greinin er að hluta unnin upp úr meistararitgerð höfundar við Háskóla Íslands, sem skrifuð var undir handleiðslu Erlu Skúladóttur.