Einkar athyglisverða frétt um Ríkisútvarpið mátti lesa hér í Viðskiptablaðinu í liðinni viku, frétt sem lengi hafði verið vænst og Ríkisútvarpið ohf. gert allt sem í þess valdi stóð til þess að koma í veg fyrir að yrði sögð. Fréttin, sem skrifuð var af Jóhanni Óla Eiðssyni, var unnin upp úr fundargerðum stjórnar hins opinbera fyrirtækis og þar kenndi ýmissa grasa.

Fleiri þó en blaðamaðurinn mátti sjá, því langir kaflar í þeim voru útstrikaðir í nafni persónuverndar. Sem vitaskuld vekur ákveðnar spurningar um það hvernig stjórnarfundum er háttað þar á bænum. Þar virðist löngum tíma eytt í að ræða um starfsmenn stofnunarinnar á persónulegu nótunum.

***

Sem fyrr segir þurfti Viðskiptablaðið að bíða lengi eftir þessum gögnum. Stjórnin vildi ekki veita aðgang að þeim, svo sækja þurfti um aðganginn í krafti upplýsingalaga. Beiðni Viðskiptablaðsins var upphaflega send í ágúst í fyrra, en þegar henni hafði í engu verið sinnt um þriggja mánaða skeið kvartaði blaðið til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Henni var svarað með sama viðmóti, það er að segja alls ekki, því stjórn RÚV ohf. hunsaði úrskurðarnefndina líka í þrjá mánuði. Sem aftur varð til þess að málið var tekið til efnislegrar meðferðar hjá úrskurðarnefndinni án þess að stjórnin hefði tekið afstöðu til erindis Viðskiptablaðsins eða veitt nokkur svör.

Þetta má heita einstakt, enda fann nefndin sérstaklega að þessu tómlæti og sinnuleysi stjórnarinnar við opinberum erindum. Sem vekur vitaskuld sjálfstæðar efasemdir um að stjórnarmennirnir sinni lögboðnum skyldum sínum. Í þessum dálkum hefur áður verið fundið að störfum stjórnarinnar, raunar svo að hún var hvött til þess að segja af sér. Það skal endurtekið hér.

Þar sitja í aðalstjórn þau Kári Jónasson formaður, Björn Gunnar Ólafsson, Brynjólfur Stefánsson, Elísabet Indra Ragnarsdóttir, Guðlaugur G. Sverrisson, Jóhanna Hreiðarsdóttir, Jón Ólafsson, Lára Hanna Einarsdóttir, Mörður Árnason, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Valgeir Vilhjálmsson, en í varastjórn þau Bragi Guðmundsson, Jón Jónsson, Jónas Skúlason, Kolfinna Tómasdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Marta Guðrún Jóhannesdóttir, Mörður Áslaugarson, Sigríður Valdís Bergvinsdóttir og Sjöfn Þórðardóttir.

***

Ekki er nóg með að slíta hefði þurft út með töngum þessar fundargerðir hins opinbera hlutafélags í eigu almennings, heldur var sem fyrr segir strikað yfir langa kafla í fundargerðunum. Látum liggja milli hluta hvað þar stóð, en meira að segja sjálf útstrikunin átti sér sína einkennilegu sögu, einkennilega vondu sögu.

Stjórnarmennirnir, sem er ágætlega umbunað fyrir störf sín, töldu það eftir sér að strika út en fannst þó að það yrði að gerast. Svo úr varð að lögmannsstofa úti í bæ var fengin til að fara yfir fundargerðirnar og senda inn andmæli fyrir nefndinni. Kostnaður félagsins vegna þessa var rúmlega 560 þúsund krónur. Þegar spurst var fyrir um kostnaðinn var svarið hins vegar það að stjórnin hefði nú bara gert þetta sjálf.

Þegar það var nefnt að blaðið vissi hvaða lögmannsstofa hefði annast verkið var hins vegar dregið í land og játað hvernig staðið hefði verið að verki. Með öðrum orðum þá var það hin sjálfgefna afstaða stjórnar RÚV ohf. að segja ósatt. Sú afstaða stjórnarmanna opinbers hlutafélags í eigu og þágu almennings til sannleikans er ömurleg og hvorki samboðin þeim, stofnuninni né eigendunum. Svo enn skal ítrekuð áskorun til þessa fólks að segja af sér vilji það endurheimta einhverja sæmd.

***

Hið merkilegasta í þessari frétt er þó sjálfsagt framganga Lilju Alfreðsdóttur menningarmálaráðherra, æðsta yfirmanns stofnunarinnar og handhafa hlutabréfsins fyrir hönd almennings í landinu. Eins og löngu áður hefur verið fjallað um á þessum stað, nokkrum sinnum raunar, þá trassaði Ríkisútvarpið um árabil þá lagaskyldu sína að stofna dótturfélög um alla samkeppnistarfsemi, það er að segja aðra starfsemi en þá sem fellur undir almannaþjónustuhlutverk RÚV.

Nokkur umræða spannst um það í kjölfar kvörtunar Samtaka iðnaðarins haustið 2018, en í kjölfarið birtust fréttir og viðtöl við Lilju, þar sem hún lýsti því afdráttarlaust yfir að brýnt væri að „hrinda því í framkvæmd og stjórn RÚV og stjórnendur hafa verið að vinna að því. Það er stjórnar RÚV að fylgja þessu."

Þetta kom flatt upp á stjórn og stjórnendur RÚV samkvæmt fundargerðunum, en stjórnin taldi að það væri „alger kúvending frá fyrri samskiptum", enda hefðu RÚV og ráðuneyti unnið að því að afnema lagaskylduna. Magnús Geir Þórðarson, þv. útvarpsstjóri, og ýmsir stjórnarmenn lýstu furðu sinni á þessum orðum Lilju, þau gengju þvert á það sem ráðherrann hefði sagt í samtölum við þá.

***

Þetta er allt með ólíkindum, því ekki verður annað séð en að ráðherra hafi þarna leikið tveimur skjöldum hið minnsta. Sagt eitt við stofnunina og stjórnendur þess, en annað í fjölmiðlum. Stóra spurningin er þá kannski hvort hún sagði gagnvart Alþingi eða hvort hún sagði hið þriðja þar. Það hlýtur að vera rannsóknarefni fyrir bæði forsætisráðherra og stjórnarandstöðuna, því hafi ráðherra afvegaleitt þingið er það afsagnarástæða.

***

Það var því nóg að frétta í Viðskiptablaðinu í liðinni viku, laumuspil og ósannindi hjá stjórn opinbers hlutafélags og ráðherra í uppnámi, svo nokkuð sé nefnt (það var miklu fleira furðulegt og fréttnæmt þar). En hvar var framhaldsfréttin í Fréttablaðinu og fréttaskýringin í Morgunblaðinu, uppsteitið á Stöð 2 og vælið í Vísi, gólið í Stundinni og kveinstafir Kjarnans?

Að öðru jöfnu hefðu allir þessir miðlar tekið málið upp af miklum þunga. Fjölmiðlarýnir óttast að það hafi nú þegar ræst, sem hann hefur áður varað við vegna fyrirætlana um fjárstyrki hins opinbera til fjölmiðla. Styrkirnir eiga víst að koma í haust og eins og sakir standa kann það að vera á valdi Lilju hverjir fái og hverjir ekki.

***

Allt í einu hættu varðhundarnir að gelta.