*

fimmtudagur, 4. mars 2021
Týr
29. október 2014 19:03

„Hús RÚV í Efstaleitinu er tákn um hugmyndaleysi og gelda hugsun“

Einn af þáttastjórnendum Ríkisútvarpsins lagði til fyrir nokkrum árum að stofnunin yrði lögð niður.

Einn af þáttastjórnendum Ríkisútvarpsins fjallaði á bloggi sínu um stofnunina fyrir fáeinum árum. Þar segir hann:

„Ríkisútvarpið ekki jafn merkilegt eins og stjórnarandstaðan lætur vera. Það er ekki fjöregg íslenskrar menningarinnar. Ef ekki væri til ríkisútvarp dytti engum í hug að stofna það. Það dettur líka afar fáum í hug að leggja það niður. Það er einhvern veginn bara staðreynd“.

Týr er sammála því að ósennilegt sé að einhverjum myndi láta sér detta í hug að stofna fjölmiðil í eigu ríkisins í dag. Stofnun sem fengi 3,5 milljarða í framlög frá ríkissjóði. Nema kannski Ungum vinstri grænum - af öfund.

Þáttastjórnandinn segir að hlutverk Ríkisútvarpsins sé aðeins eitt, íslenskt menningarefni.

„Aðalmálið hlýtur að vera að efla íslenska dagkrá í staðinn fyrir allan óhroðann, sápujukkið, glæparuslið og raunveruleikaþáttaógeðið sem veltur yfir okkur. Hlutverk Rúv hlýtur að vera að flytja okkur íslenskt menningarlegt efni - helst eitthvað sem aðrir framleiða ekki. Þetta eru einu rökin fyrir tilvist stofnunarinnar.“

Í blogginu er nefnd ágæt leið til að styðja íslenska dagskrágerð án þess að reka heila stofnun með nokkra fjölmiðla innanborðs.

„Pétur Blöndal hefur raunar átt langbestu hugmyndina um ríkissjónvarp, að til væri sjóður sem veitti peningum í íslenska dagskrárgerð. Ríkisútvarpið þyrfti þá ekki að vera nema skúff[a] einhvers staðar úti í bæ. Hrafn Gunnlaugsson vildi fara með sjónvarpið í þessa átt í dagskrárstjóratíð sinni, láta einkaaðila framleiða efnið og á meðan döfnuðu lítil kvikmyndafyrirtæki – en ráðamenn voru sjálfum sér líkir og vildu helst fjárfesta í steinsteypu og minnisvörðum.“

Þessi leið sem hér er nefnd er skynsamlegri en núverandi rekstrarform Ríkisútvarpsins. Með henni myndi sparast mikill kostnaður og fjárfesting í innviðum sem þegar er til hjá öðrum sjónvarps- og útvarpsstöðvum. Því gæti ríkisframlagið verið mun lægra en það er í ár en innlend dagskrágerð verið jafn öflug, jafnvel öflugri.

Þegar Egill Helgason þáttastjórnandi á Ríkisútvarpinu skrifaði blogg sitt, sem vitnað hefur verið í hér að ofan, árið 2007 var staða ríkissjóðs mun betri en í dag. Því er mun meira tilefni til að íhuga þá leið sem hann nefnir og kennd er við Pétur H. Blöndal.

Egill segir í blogginu sínu að „Hús RÚV í Eftstaleitinu er tákn um hugmyndaleysi og gelda hugsun.“ Týr getur ekki tekið undir þessi orð Egils og telur að þarna hafi hann vegið ómaklega að samstarfsmönnum á Ríkisútvarpinu. Enda hefur hann rangt fyrir sér. Ríkisútvarpið oft framleitt vandað og gott íslenskt efni í gegnum tíðina. Má þar nefna Stiklur Ómars Ragnarsson og Orðbragð Brynju Þorgeirsdóttur og Braga Valdimars Skúlasonar. Þættir Egils sjálfs um Vesturfarana er einnig ágætt dæmi. Vandaðir þættir fengju að sjálfsögðu styrk úr slíkum sjóði ef sú leið sem Egill nefnir yrði fyrir valinu.

Það er ekki oft sem Týr er sammála Agli Helgasyni, en Týr er það svo sannarlega í þetta skiptið.

Stikkorð: Týr
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.