Af einhverjum ástæðum virðist það greypt í þjóðarsálina að allir þurfi að eiga eigin íbúð. Þjóðsagan er sú að með því að greiða leigusala fyrir afnot af íbúð hans séu viðkomandi einstaklingar að „henda peningum út um gluggann“.

Tökum örstutt dæmi. Ungt barnlaust par á aldrinum 20-25 ára „kaupir“ sér íbúð. Parið hefur verið duglegt að safna eða á efnaða foreldra sem geta hjálpað til við að útvega 20% eigið fé í íbúðinni og restin er fjármögnuð með 80% verðtryggðu láni til 40 ára.

Fimm árum síðar eru þau bæði komin í sæmilegt starf og með barn á leiðinni. Þau huga að fleiri barneignum og því er borðleggjandi að parið þarf að stækka við sig. Síðustu fimm ár hafa þau lítið annað greitt en vexti til bankans á meðan upprunalegur höfuðstóll hefur lítið breyst fyrir utan það að búið er að leggja ofan á hann verðbætur. Fyrir utan þetta hafa þau greitt fyrir allt viðhald af íbúðinni, fasteignagjöld, sorphirðugjald o.s.frv.

Í stuttu máli; þau eiga ekki krónu í íbúðinni. Hver var að henda peningum út um gluggann?

Íbúðaverð gæti hafa hækkað á tímabilinu þannig að hugsanlega „græða“ þau á því að selja þó það sé ólíklegt Að frádregnum rekstrarkostnaði af íbúðinni auk verðbótanna er nettó hagnaðurinn að öllum líkindum lítill eða enginn.

Þetta er auðvitað heldur mikil einföldun á flóknu ástandi en þetta er í grunninn það sem blasir við ungu fólki. Nú getur það að vísu fjármagnað sig að hluta til óverðtryggt en það er óhugsandi að núverandi vextir af óverðtryggðum lánum haldi sér til næstu 40 ára.

Á þessu er engin patentlausn en það mætti hyggja að tvennu. Annars vegar að skipta um gjaldmiðil (sem er nauðsynlegt) og fá gjaldmiðil sem heldur verðgildi sínu þó það væri ekki nema í fimm ár. Hins vegar þarf ríkið að hætta afskiptum sínum af þessum markaði. Það er pólitískt markmið margra að allir eigi „rétt“ á því að kaupa sér fasteign með niðurgreiddum lánum frá gjaldþrota lánasjóði ríkisins sem kallast Íbúðalánasjóður. Ríkið hefur skekkt markaðinn svo mikið að það mun taka mörg ár að rétta hann af, búa til heilbrigðan leigumarkað og færa fasteignaverð á eitthvert raunvirði.

Ætli sé til sá stjórnmálamaður sem er tilbúinn að segja að ríkið eigi ekki að fjármagna þína fyrstu eign?