*

laugardagur, 6. júní 2020
Leiðari
26. mars 2020 14:25

Hvað ætla sveitarfélögin að gera?

Í frumvarpi ríkisstjórnarinnar hefur skuldareglunni verið kippt úr sambandi — sveitarfélög geta farið yfir 150% skuldaþakið.

Borgarráð fundar í dag og þar mun borgarstjóri leggja fram sínar tillögur að aðgerðum.
Haraldur Guðjónsson

Ríkisstjórnin, Seðlabankinn, fjármálafyrirtæki og lífeyrissjóðir hafa kynnt ýmsar aðgerðir vegna heimsfaraldursins en enn er beðið eftir útspili sveitarfélaganna. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu tilkynntu reyndar í vikunni að þjónustugjöld vegna leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila yrðu felld niður þurfi barn að vera heima vegna verkfalls, samkomubanns, veikinda eða sóttkvíar starfsmanna. Það er varla hægt að telja þetta með, svo sjálfsagt er þetta.

Ákvarðanataka á sveitarstjórnarstiginu er vissulega flóknari en hjá ríkinu, þar sem 72 sveitarfélög eru í landinu og hvert þeirra með sjálfsákvörðunarrétt. Þetta þýðir að hvert sveitarfélag fyrir sig ákveður til hvaða aðgerða verður gripið.

Hvað Reykjavíkurborg snertir þá hafa engar aðgerðir verið samþykktar og kynntar nema sú sem greint var frá hér í byrjun. Á aukafundi borgarstjórnar í fyrradag var samþykkt tillaga um tímabundið frávik frá skilyrðum ákvæða sveitarstjórnarlaga. Næsta mánuðinn fer borgarráð með sömu heimildir og borgarstjórn. Er þetta gert til að auðvelda fundarhald og ákvarðanatöku, m.a. í málefnum er varða aðgerðir vegna kórónuveirunnar. Borgarráð fundar í dag og þar mun borgarstjóri leggja fram sínar tillögur að aðgerðum. Fróðlegt verður að sjá hvað felst í þessum tillögum. Stærsta sveitarfélag landsins verður núna að stíga afdráttarlaust fram.

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur komið með áhugaverðar hugmyndir og ábendingar til sveitarfélaganna. Eru tillögurnar í fimm flokkum og 26 liðum.

Ein af tillögum Sambands íslenskra sveitarfélaga er að sveitarfélög kanni möguleika á lækkun gjaldskrár og tímabundinnar lækkunar eða niðurfellingar tiltekinna gjalda. Það væri stórt skref ef sveitarfélögin myndu ákveða að lækka skatta eða fella þá niður.

Daglega berast fréttir af fyrirtækjum sem eru að loka tímabundið vegna ástandsins. Mörg þessara fyrirtækja eru með sína starfsemi í dýru húsnæði. Þá komum við að einni ósanngjörnustu skattheimtunni, fasteignagjöldum. Fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði hafa hækkað óheyrilega undanfarin ár vegna hækkunar fasteignamats en oftast er engin sérstök samsvörun á milli afkomu og greiðslugetu fyrirtækja og þróunar fasteignamats. Í þessu samhengi er óforsvaranlegt að mörg sveitarfélaganna skuli vera með álagningarprósentuna í botni.

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur kallað eftir því að við álagningarhlutfall fasteignaskatts íbúðar- og atvinnuhúsnæðis fyrir árið 2021 verði horft til þess að skattar hækki í takt við áætlaðar verðlagsbreytingar milli ára en ekki hækkun fasteignamats. Þetta er góðra gjalda vert. Þá er því beint til sveitarfélaganna að þau kanni möguleikann á því að fresta að minnsta kosti tveimur gjalddögum fasteignagjalda, með samskonar hætti og ríkið er að fresta gjalddögum staðgreiðslu og tryggingagjalds. Þetta ætti vera algjör lágmarks aðgerð.

Tillögurnar sambandsins eru samt ekki allar góðar. Ein þeirra lýtur að því að fjármálareglur sveitarfélaga verði rýmkaðar og skuldareglu tímabundið vikið til hliðar. Þessu hafa sveitarfélögin reyndar þegar náð fram því í frumvarpi ríkisstjórnarinnar vegna heimsfaraldursins hefur verið bætt við ákvæði í sveitarstjórnarlögin sem heimilar aukna skuldsetningu. Það þarf að gjalda mjög varhug við þessari ákvörðun.

Í sveitarstjórnarlögum, sem tóku gildi árið 2012, var lögð sú lína að hlutfall heildarskulda af tekjum sveitarfélaga mætti ekki fara yfir 150 prósent. Þetta er það sem kallað er skuldaviðmið. Ákveðinn aðlögunartími var gefinn og höfðu sveitarfélög allt að 10 ár til að laga reksturinn að þessu markmiði. Það segir sína sögu um stöðu sveitarfélaganna að línan hafi verið sett við 150% markið.

Það var mjög góð ástæða fyrir því setja þessar skuldareglur í lögin því sveitarfélögin voru mörg orðin gríðarlega skuldsett eftir bankahrunið. Nú stendur sem sagt til að kippa þessari 64. gr. sveitarstjórnarlaga svo gott sem úr sambandi næstu þrjú árin, sem þýðir að sveitarfélögin geta aukið útgjöld án þess að hafa áhyggjur af því að fá tekjur á móti og fara yfir 150% skuldaþakið.

Þau sveitarfélög sem þurfa á þessu að halda eiga að einbeita sér að öðrum verkefnum en að steypa sér í skuldir. Þau mega ekki nýta sér ástandið til þess að blása út að óþörfu. Til þess eru vítin að varast þau.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.