Það er verið að gera ráð fyrir því að á vinnumarkaði verði samið um breytingar á kjörum, sem leiða til þess að laun hækki svona rétt rúmlega það sem verðbólgan verður." Þetta sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í viðtali í fréttum Stöðvar 2 á þriðjudagskvöldið. Tilefnið var kynning á fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar en í henni er gert ráð fyrir áframhaldandi kaupmáttaraukningu.

Með ummælunum með má segja að tónninn hafi verið sleginn fyrir komandi kjaraviðræður en lífskjarasamningarnir renna út næsta haust. Verðbólga mælist nú 6,7% og gert er ráð fyrir því að hún verði 5,9% á árinu 2022. Ef lesið er bókstaflega í ummæli ráðherra þá gerir hann ráð fyrir því að laun hækki um ríflega 6%. Til samanburðar þá var heilt yfir samið um 4% launahækkun á ári, þegar lífskjarasamningarnir voru undirritaðir í apríl 2019. Vissulega voru hækkanir misjafnar á milli launahópa og voru samningsaðilar sammála um að leggja megináherslu á að bæta kjör þeirra lægst launuðu.

Verðbólgan nú er langt yfir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands. Hvers vegna er þetta nefnt, jú vegna þess að almennt er talað um að skynsamleg lending í kjaraviðræðum sé að miða launahækkanir við verðbólgumarkmið plús framleiðniaukningu, sem yfirleitt er um 1 til 1,5% á ári. Þótt verðbólgan nú sé mikil þá er óvarlegt að miða launahækkanir við hana eins og hún sé einhver fasti.

Staðan í efnahagsmálum nú er allt önnur en hún var vorið 2019 þegar lífskjarasamningar voru undirritaðir - hún er miklu brothættari. Í raun leyfir staðan ekki einu sinni sambærilegar launahækkanir og samið var um í samningunum 2019. Nú þarf að horfa á annað en launaliðinn. Við verðum að forðast að fara hina týpísku íslensku leið sem felst í ósjálfbærum launahækkunum. Ef litið er yfir hagsöguna þá hefur það haft í för með sér aukinn kaupmátt í skamman tíma en síðan hefur orðið kollsteypa. Viðskiptahallinn hefur fljótlega aukist, krónan veikst og verðbólgan étið upp kaupmáttaraukninguna. Þetta er saga sem flestir þekkja því miður en takmarkið hlýtur að vera að þeim fari fækkandi ár frá ári.

Nauðsyn þess að taka upp nýtt vinnulag í kjarasamningum hefur legið fyrir í langan tíma. Brýnt er að aðilar vinnumarkaðarins hafi sameiginlegan skilning á því hver þolmörk mismunandi atvinnugreina eru þegar kemur að launahækkunum. Verkalýðsforystan í dag talar um að vegna hækkandi vaxta verði að gera auknar kröfur um launahækkanir. Í þessari umræðu gleymist að hækkun vaxta bitnar einnig á fyrirtækjum landsins.

Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festi og stjórnarmaður í Samtökum atvinnulífsins, hitti naglann á höfuðið í viðtali í Frjálsri verslun fyrir áramót. „Það þarf að liggja fyrir raunhæf spá, sem gerir ráð fyrir mismunandi sviðsmyndum," sagði Eggert Þór. „Ef hægt væri að ná sáttum um að nota slíka spá sem grunn í kjaraviðræðum þá væri það til mikilla bóta. Ef það er fimm stiga hiti úti þá er fimm stiga hiti. Það þarf engan fund um það. Fólk þarf að átta sig á því hvað er til skiptanna.

Sömuleiðis væri það mikið framfaraskref ef samstaða næðist um að horfa á þolmörk fyrirtækja eftir atvinnugreinum. Fyrirtæki eru nefnilega ólík. Í veitingageiranum fara 70% af tekjum í laun en hjá Festi 50%. Sem dæmi þá kostar það Festi mörg hundruð milljónir ef laun eru hækkuð um 5% og þeir peningar eru ekki sóttir í money heaven . Við þurfum annaðhvort að hækka vöruverð eða fækka fólki. Það eru bara þessar tvær leiðir. Þessi skilningur verður að vera til staðar ef ná á skynsamlegri lendingu í kjarasamningum."

Það er ekkert launungarmál að þenslan á íbúðamarkaði hefur haft hvað mest áhrif á þróun verðbólgunnar undanfarin misseri. Nú standa spjótin því að mörgu leyti frekar á sveitarfélögum en ríkinu og þá sérstaklega Reykjavíkurborg því staðan á húsnæðismarkaði kallar á aðgerðir. Auka þarf lóðaframboð, sér í lagi fyrir byggingu hagkvæmra íbúða. Einnig þarf að einfalda skipulags- og leyfisveitingaferli við húsbyggingar.

Fyrst talið berst að uppbyggingu íbúða er sjálfsagt að geta þess að í sérblaði Viðskiptablaðsins um fasteignamarkaðinn er rætt við Gísla H. Halldórsson, bæjarstjóra Árborgar. Í Árborg búa um 11 þúsund manns og á þessu ári er gert ráð fyrir að á bilinu 500 til 600 nýjar íbúðir verði tilbúnar á árinu. Kannski meirihlutinn í borginni geri sér ferð austur og kynni sér málin. Hann gæti vafalaust dregið einhvern lærdóm af því.