*

miðvikudagur, 28. október 2020
Leiðari
20. september 2020 11:02

Hvað eiga sjóðirnir að gera?

Ekki skortir skoðanir á því í hverju lífeyrissjóðirnir eigi ekki að fjárfesta, en minna er um vænlega fjárfestingakosti.

Haraldur Guðjónsson

Í aðdraganda hlutafjárútboðs Icelandair hafa heyrst háværar raddir um hverju lífeyrissjóðirnir eiga og eiga ekki að fjárfesta í. Deila má um ágæti Icelandair sem fjárfestingakosts, enda ljóst að óvissan er mikil.

Hins vegar vekur málið upp spurningar um lífeyrissjóðakerfið í heild. Þrýst hefur verið á stjórnarmenn í lífeyrissjóðum innan úr verkalýðshreyfingunni að sniðganga útboðið og þá er úr öðrum áttum þrýst á sjóðina um þátttöku í útboðinu. Skuggastjórnun kann sjaldan góðri lukku að stýra og vonandi standast stjórnir sjóðanna prófið og taka ákvörðun á faglegum forsendum.

Að því sögðu væri líklega heppilegra að einstaklingar hefðu sjálfir eitthvað um það að segja í hvaða lífeyrissjóð þeir greiði, og geti þannig sagt skoðun sína á ákvörðun sjóðanna með fótunum, í stað þess að verkalýðsforingjar geri það í krafti óljóss umboðs. Útboð Icelandair vekur einnig upp spurningar um þróun lífeyriskerfisins næstu árin.

Rætist langtímamannfjöldaspár gæti staða ríkissjóðs margra vestrænna ríkja orðið afar erfið. Svokallað gegnumstreymiskerfi í lífeyrismálum reiðir sig á það að hinir ungu sjái hinum eldri farboða í ellinni. Fólk á vinnumarkaði borgar í ríkissjóð eða sérstakan gegnumstreymissjóð, og sá peningur er jafnóðum greiddur út til ellilífeyrisþega.

Á Íslandi er hins vegar við lýði svokallað sjóðsöfnunarkerfi, sem felur í sér að hver launþegi greiðir iðgjald, sem síðan er lagt í sjóð og ávaxtað þar til hann fer á eftirlaun. Þetta þýðir að hver kynslóð fjármagnar sín eigin eftirlaun, óháð stærð þeirra kynslóða sem á eftir koma.

Eignir íslensku lífeyrissjóðanna eru á sjötta þúsund milljarðar króna í dag, sem er eitthvað það mesta í heimi sem hlutfall landsframleiðslu. Sú upphæð kann að veita öryggistilfinningu, en svo stóru sjóðsöfnunarkerfi fylgja einnig vandamál.

Sjóðirnir hafa þanist út jafnt og þétt síðustu áratugi og með þeim fjárfestingaþörfin. Í dag fá þeir hundruð milljarða á ári, sem koma þarf í vinnu fyrir sjóðfélaga. Þeir eiga þegar annað hvert hlutabréf í Kauphöllinni og bróðurpart skuldabréfamarkaðarins, auk fjölda annarra stórra eigna hér á landi.

Þótt stefnan hafi lengi verið sú að auka hlutdeild erlendra eigna í eignasafni sjóðanna, hefur sú vegferð gengið hægt. Viðkvæmni íslensku krónunnar fyrir stórum gjaldeyrishreyfingum og þrálátar takmarkanir á fjármagnsútflæði hafa ekki gefið mikið svigrúm, þótt tekist hafi að auka hlutdeild erlendra eigna í þriðjung síðustu ár, eftir afnám hrunhaftanna.

Svo kom heimsfaraldur og Seðlabankinn bað þá góðfúslega um að hætta gjaldeyriskaupum. Þrátt fyrir það hefur krónan fallið hressilega og þótt samkomulagið við Seðlabankann hafi ekki verið endurnýjað, virðast sjóðirnir ekki stefna á mikil gjaldeyriskaup á næstunni.

Hugsanleg tækifæri kunna að felast í auknum sprotafjárfestingum. Nýsköpun og þekkingariðnaður hefur farið ört vaxandi hér á landi síðustu ár, og auk þess að vera undirstaða hagvaxtar til framtíðar, væri það ótvírætt til bóta að fjölga stoðum atvinnulífsins og útflutningsgreinum.

Þó verður að hafa í huga að sprotafjárfestingar eru mun áhættusamari í eðli sínu en þau verkefni sem lífeyrissjóðir hafa fjármagnað hingað til. Verði vonir Seðlabankastjóra um lægri vexti til frambúðar að veruleika munu lífeyrissjóðir að vísu líkast til þurfa að taka meiri áhættu en áður til að ná 3,5% raunvaxtaviðmiðinu sem að baki lífeyrisréttindum býr í dag. Sprotafjárfestingar kunna því að vera hluti af lausninni, en þrátt fyrir öran vöxt stæði íslenska sprotaumhverfið aldrei undir nema litlu broti af fjárfestingaþörf lífeyrissjóðanna í nánustu framtíð.

Fasteignalán til sjóðfélaga er eignaflokkur sem stækkað hefur hratt hjá sjóðunum síðustu ár, en eftir að bankaskatturinn var lækkaður nú í vor og bankarnir urðu samkeppnishæfir í fasteignalánum á ný, hefur sú þróun stöðvast, enda sjóðirnir líkast til búnir að lána sig fullsadda af þeim í bili. Spurningin hlýtur að vera, ef ekki Icelandair, hvað þá?

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.