Þegar maður skoðar kennitölur úr netheimum stinga notkunartölur Android svolítið í stúf við sölutölurnar. Vitað er að á hverjum degi eru skrilljónir Androidsíma virkjaðir og þó að vöxturinn sé ekki alveg jafntryllingslegur og hann var á tímabili er hann samt mjög frambærilegur og það er engin önnur gerð síma að fara að skáka Android alveg á næstunni.

Hins vegar er með ólíkindum, þegar menn fara yfir tölur um netnotkun farsíma og skyldra tækja, að þessi óvígi her Android notenda skuli ekki nota netið meira en raun ber vitni. Það er alveg sama hvaða tölur eru skoðaðar, hvaðan eða af hverjum þær eru teknar saman, alls staðar kemur á daginn að netnotkun Android-snjallsíma er í alls engu samræmi við fjölda þeirra.

Nú er þekkt að sumir framleiðendur (ókei, Samsung) nota teygjanlega tölfræði og gera ekki alltaf greinarmun á framleiddum símum og seldum, en slíkar ýkjur hafa engin áhrif þegar litið er til talna um virkjaða Android-síma, þar eru alvöru notendur af holdi og blóði, en þeir virðast af einhverjum ástæðum ekki nota snjallsímana sem skyldi. Engar almennilegar kenningar hafa heyrst um hvað valdi. Android-símar eru ekki með dýrari gagnasamninga en aðrir snjallsímar. Mögulegt er að símfyrirtæki séu að „yfirselja“ Androidsíma, að þeir séu í miklum mæli keyptir af fólki, sem ætlaði sér bara að fá hefðbundinn farsíma, fékk snjallsíma en notar hann aðeins sem síma. Það er svo sem ekki ómögulegt, miklar markaðsherferðir hafa verið í kringum nýja Android-síma, en hefðbundnir símar sjást varla auglýstir lengur.

Annað merki um að eitthvað sé að Android er að snjallsíma-forritarar skrifa um 70% nýrra verkefna fyrir iOS (iPhone) en um 30% fyrir Android. Vera má að þetta sýni öðru fremur styrk App Store hjá Apple, að Android verði haltrandi þar til það Akkilesarhælsæri lagist. En kannski er skýringin einfaldari. Að kapp Google við vöxt Android hafi grafið undan þeim. Varla þarf að minnast á þær óteljandi gerðir Android-síma, sem komið hafa á markað á undanförnum árum, en þeir eru hreint ekki vel samhæfðir. Notandinn hefur þannig enga tryggingu fyrir því að vinsælustu forritin virki endilega á símann hans.

Til þess að gera illt verra er Androidheimurinn margbrotinn þegar kemur að stýrikerfisútgáfum. Á sama tíma og 2/3 iPhone notenda nota nýjasta stýrikerfi, sem völ er á, er þorri Android-notenda að nota gamlar — að ekki sé sagt úreltar — útgáfur af Android. Margir þeirra geta uppfært en gera það ekki, aðrir eru fastir í gamalli útgáfu. Aðeins rúm 7% eru með nýjustu útgáfu. Það þýðir að Android sé bilað.

Pistillinn birtist í tækniblaðinu Tölvur og hugbúnaður sem fylgdi síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins, 21. júní 2012. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.