*

fimmtudagur, 22. ágúst 2019
Ásdís Kristjánsdóttir
5. febrúar 2019 11:41

Hvað er til ráðstöfunar?

Ráðstöfunartekjur allra tekjuhópa hafa aukist umtalsvert að raunvirði frá 1991.

Haraldur Guðjónsson

Þó að umræða um kjaramál sé áhugaverð þá er hún oft á tíðum villandi, sér í lagi þegar rætt er um hvernig mismunandi tekjuhópum hefur reitt af á undanförnum árum og áratugum. Ýmsu er haldið fram og stangast eitt á við annað.

Nýverið gerðu stjórnvöld aðgengilegan gagnagrunn sem ber heitið tekjusagan.is. Grunnurinn er öllum aðgengilegur og hefur meðal annars að geyma upplýsingar um þróun ráðstöfunartekna, það er tekjur eftir greiðslu skatta og bóta, nær þrjá áratugi aftur í tímann. Kennir þar margra grasa en gagnagrunnurinn nær aftur til ársins 1991 og sýnir að frá þeim tíma hafa ráðstöfunartekjur allra tekjuhópa aukist umtalsvert að raunvirði.

Gagnagrunnurinn dregur einnig fram hversu mikið stuðningskerfin auka ráðstöfunartekjur lægri tekjuhópa en þó það sé í raun grunnurinn að velferðarkerfi okkar vill gleymast hversu miklu máli sá stuðningur skiptir. Einstæðar mæður í leiguhúsnæði í þriðju tekjutíund voru að meðaltali með 216.519 krónur í mánaðartekjur árið 2017 en eftir greiðslu skatta og bóta með 357.018 krónur í ráðstöfunartekjur. Ráðstöfunartekjur þeirra voru því um 140.499 krónum hærri en mánaðartekjurnar og jukust um 24% á föstu verðlagi frá árinu 2012. Ráðstöfunartekjur þeirra voru því svipaðar og hjá einstaklingi sem var með 502.351 krónur í mánaðarlaun og fékk engar bótagreiðslur.

Skattkerfið okkar er þannig uppbyggt að þeir sem hafa lægri tekjur greiða minna til samfélagsins og fá aukinn stuðning. Þannig greiða efstu tvær tekjutíundir 72% af hreinum heildartekjum tekjuskatts til ríkissjóðs en fimm lægstu tekjutíundir, eða helmingur framteljanda, aðeins 1%.

Réttilega hefur verið bent á að skattbyrði lægstu launa hafi aukist á undanförnum árum en þá má ekki undanskilja bótagreiðslur og gríðarlega miklar launahækkanir sem á sama tíma juku ráðstöfunartekjurnar talsvert. Aukið upplýsingaflæði og gagnsæi er lykillinn að upplýstri umræðu. Tekjusagan er mikilvægt framlag stjórnvalda til áframhaldandi umræðu um kjaramál.

Höfundur er forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.