*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Leiðari
12. nóvember 2021 13:31

Hvað fáum við fyrir peningana?

Mikilvægt er að eini mælikvarðinn á opinbera þjónustu sé ekki hversu miklu fé sé varið til hennar — útgjöld eru ekki mælikvarði á árangur.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Haraldur Guðjónsson

Þó að ný ríkisstjórn hafi enn ekki verið formlega mynduð gera allir ráð fyrir að núverandi ríkisstjórn muni sitja áfram. Því ber að fagna sérstaklega þegar horft er á hvaða aðrir kostir voru í stöðunni. Eins var niðurstaða kosninganna augljóslega sú að meirihluti þjóðarinnar vildi að Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkur og Vinstri græn myndu halda sínu samstarfi áfram. Því er ekki hægt að mótmæla.

Stjórnarmyndunin hefur tekið óhóflegan tíma og er skýringin augsýnilega klúðrið í talningunni í Norðvesturkjördæmi. Enn er beðið eftir niðurstöðu undirbúningskjörbréfanefndar í því máli og ný ríkisstjórn verður ekki kynnt fyrr en sú niðurstaðan liggur fyrir. Leiðir þetta klúður hugann að íslenska kosningakerfinu og þá sérstaklega misvægi atkvæða eftir kjördæmum í landinu. Jöfnun atkvæðisréttar er grundvallaratriði þegar kemur að borgaralegum réttindum og lýðræði. Ný ríkisstjórn ætti auðvitað að hefja strax vinnu við að jafna atkvæðavægið.

Verkefnin sem blasa við nýrri ríkisstjórn í dag snúa fyrst og síðast að heimsfaraldrinum og kreppunni sem hann hefur valdið. Kreppan hefur verið ríkinu kostnaðarsöm og vinda þarf ofan af þeirri þróun sem fyrst. Ástæðan fyrir því að kreppan hefur ekki sett ríkissjóð á hliðina er að staða hans var góð eftir mörg uppgangsár. Faraldurinn hefur einnig varpað ljósi á það hversu brotthætt staðan er á Landspítalanum. Eitt af verkefnum ríkisstjórnarinnar er að takast á við þann vanda og í því sambandi er gríðarlega mikilvægt að eini mælikvarðinn á opinbera þjónustu sé ekki hversu miklu fé sé varið til hennar heldur hvað sé í raun og veru gert við það fé. Hvað erum við að fá fyrir peningana? Útgjöld eru ekki mælikvarði á árangur.

Staðan í íslensku atvinnulífi er viðkvæm þó að hún sé sem betur fer smám saman að batna. Kreppan hefur verið misskipt þegar kemur að atvinnugreinum. Innlend verslun hefur sem dæmi blómstrað en ferðaþjónustan lamast. Skuldastaða margra fyrirtækja í ferðaþjónustu er ósjálfbær er það er meðal annars vegna þess að hér hafa reglur á landamærunum verið strangari en víðast hvar annars staðar. Fyrir faraldurinn var ferðaþjónustan sú atvinnugrein sem skapaði þjóðarbúinu mestu gjaldeyristekjurnar og því má ný ríkisstjórn ekki gleyma. Hér þarf að þrífast öflug ferðaþjónusta. Það er til hagsbóta fyrir alla. Ríkisstjórnin getur gert margt til þess að styðja við atvinnulífið og má sem dæmi nefna einföldun regluverks og skattkerfis og lækkun tryggingagjalds.

Þegar ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók við í október 2017 voru kjaramálin eitt brýnasta verkefnið framundan. Óhætt er að segja að í dag standi ríkisstjórnin í sömu sporum því eftir eitt ár renna lífskjarasamningarnir út. Staðan efnahagsmálum leyfir ekki sambærilegar launahækkanir og samið var um vorið 2019. Nú þarf að horfa á annað en launaliðinn. Við verðum að forðast að fara hina týpísku íslensku leið sem felst í ósjálfbærum launahækkunum. Ef litið er yfir hagsöguna þá hefur það haft í för með sér aukinn kaupmátt í skamman tíma en síðan hefur orðið kollsteypa. Viðskiptahallinn hefur fljótlega aukist, krónan veikst og verðbólgan étið upp kaupmáttaraukninguna.

Sagan sýnir að ríkisstjórnir eru oftar en ekki dregnar að samningaborði almenna vinnumarkaðarins. Oftast er það gert á lokasprettinum.  Nú standa spjótin að mörgu leyti frekar að sveitarfélögum en ríkinu og þá sérstaklega Reykjavíkurborg því staðan á húsnæðismarkaði kallar á aðgerðir. Auka þarf lóðaframboð, sér í lagi fyrir byggingu hagkvæmra íbúða. Einnig þarf að einfalda skipulags- og leyfisveitingaferli við húsbyggingar.

Hið opinbera verður síðan að standa í fæturna þegar kemur að samningum á opinbera markaðnum. Það hljóta allir að sjá að það gengur ekki að hann leiði launahækkanir í landinu eins og raunin hefur verið alltof oft.

Umhverfismálin hljóta síðan að verða ofarlega á blaði nýrrar ríkisstjórnar. Þar er staðan flókin. Ísland stendur gríðarlega framarlega þegar kemur að nýtingu endurnýjanlegrar orku en samt er andstaða við byggingu nýrra virkjana. Þarna er hugsanaskekkja sem brýnt er að leiðrétta. Svo innheimtir ríkið milljarða í svokallaða umhverfisskatta en íbúar þessa lands fá aldrei að vita í hvað þetta fé fer. Úr því þarf að bæta. Við þurfum skýra mælikvarða á árangur í umhverfismálum alveg eins og í heilbrigðismálum og menntamálum og svo mætti lengi telja.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.