Ein einkennilegasta ritdeila síðari ára er á milli Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar og ritstjórnar Fréttablaðsins.

Hannes ritaði pistil á Facebook þar sem hann gerði því skóna að Helgi Magnússon, eigandi Fréttablaðsins, hefði haft aðkomu að uppsögn Kolbrúnar Bergþórsdóttur á blaðinu.

Þessu kaus Ólafur Arnarson, blaðamaður á Fréttablaðinu, að svara í helgarblaði blaðsins með því að rifja upp dóm sem féll yfir Hannesi í tengslum við höfundarrétt á verkum Halldórs Laxness og sagði engan á Fréttablaðinu hafa gerst sig sekan um slíkt.

Þannig hitti á að sama dag birti Morgunblaðið umfjöllun í sínu helgarblaði þar sem Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri Fréttablaðsins, var bendlaður við ritstuld fyrir um fjórum áratugum, sem Sigmundur hefur síðan svarið af sér.

Hannes svaraði fyrir sig í grein í Fréttablaðinu í gær og benti á hvernig grein Ólafs hefði hitt á sama dag og umfjöllun Morgunblaðsins. Því var svarað neðar á sömu síðu með athugasemd frá ritstjóra þar sem hann sór af sér ávirðingarnar og sagði að komið hefði fram í hinni fjögurra áratuga gömlu útgáfu að um samantekt væri að ræða.

Hvað Helga Magnússyni finnst um málið liggur þó ekki fyrir á þessari stundu.

Huginn & Muninn er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins sem kom út 28. júlí 2022.