Heimurinn er enn að reyna að átta sig á því að Donald Trump sé nýr forseti Bandaríkjanna. Bandarískir fjölmiðlar eru í öngum sínum, enda ákváðu þeir margir að sýna Hillary Clinton stuðning og allt virtist benda til þess að hún myndi bera sigur úr býtum. Þó að erfitt sé að átta sig nákvæmlega á því hvað fengi manneskju til að vilja fá Trump í valdamesta embætti heims er staðreyndin sú að þar mun hann sitja næstu fjögur árin hið minnsta eftir að embættistíð Baracks Obama lýkur snemma á næsta ári.

Í raun virtist þetta allt vera einn stór brandari frá byrjun. Þegar orðrómur fór á kreik um að Trump myndi bjóða sig fram til forseta héldu fáir að hann myndi láta verða af því. Þegar hann síðan tilkynnti framboð sitt og kallaði mexíkóska innflytjendur í leiðinni nauðgara og glæpamenn bjuggust fæstir við því að hann ætti nokkurn möguleika á að tryggja sér útnefningu Repúblíkanaflokksins. Skyndilega var hann hins vegar orðinn forsetaefni flokksins og þá þótti nú nokkuð ljóst að Clinton ætti sigurinn vísan, þetta gæti ekki haldið svona áfram Nú er brandarinn hins vegar orðinn að fúlustu alvöru, einhvern veginn tókst manni sem hlutgerir kvenfólk, hraunar yfir heilu trúbrögðin, hótar að koma fram við innflytjendur eins og Hitler gerði við gyðinga og vill afnema frjáls viðskipti, að verða valdamesti aðili heims.

Það er verðugt verkefni fyrir stjórnmálafræðinga að kryfja málin til mergjar og átta sig á því hvað gerðist. Í grunninn er líklegt að við höfum öll vanmetið þá gríðarlegu ólgu og óánægju sem ríkir innan stórra svæða í Bandaríkjunum þar sem fólk telur sig hafa verið skilið eftir.

Það hlýtur að vera gríðarlegt áhyggjuefni að maður sem hefur kosið að ala á ótta, hatri og lægstu hvötum mannsins hafi unnið forsetakosningarnar. Þetta þýðir einfaldlega að meirihluti Bandaríkjamanna hefur enga trú á stjórnmálamönnum í Washington og vill sjá breytingar, sama hvaðan þær koma. Þó svo að Trump virðist ítrekað hafa framið pólitískt sjálfsmorð í kosningabaráttunni vildi fólk samt frekar fá hann í embættið heldur en Hillary Clinton, sem Trump tókst að mála sem táknmynd alls þess slæma sem stjórnmálin hafa upp á að bjóða.

Við skulum átta okkur á því að það er ekki bara grafalvarlegt að Donald Trump mun nú gegna embætti forseta Bandaríkjanna – það er ekki síður alvarlegt að það sé lýðræðislegur vilji Bandaríkjamanna að hann hafi fengið þetta embætti.