*

fimmtudagur, 27. janúar 2022
Huginn og muninn
18. desember 2021 08:55

Hvað gerir Dagur?

Nýtt fólk mun setjast í bæjarstjórastóla hjá nokkrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu eftir kosningar.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri liggur undir feld.
Haraldur Guðjónsson

Nú er ljóst að töluverðar breytingar verða í sveitarstjórnarmálunum á höfuðborgarsvæðinu eftir kosningarnar næsta vor því þrír bæjarstjórar hafa ákveðið að kveðja stjórnmálin. Allt er þetta sjálfstæðisfólk og telur samanlögð setja þeirra í bæjarstól hvorki fleiri né færri en 44 ár.

Í byrjun vikunnar greindi Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ, frá því að hann hygðist ekki gefa kost á sér næsta vor. Þá verður Gunnar orðinn 67 ára og búinn að sitja í bæjarstjórastólnum í 17 ár. Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri í Mosfellsbæ, tilkynnti í nóvember að hann hygðist hætta. Í vor verður hann búinn að verma stólinn í 15 ár, sem hrafnarnir telja nokkuð vel af sér vikið þegar haft er í huga að öll þessi ár hefur meirihlutinn verið skipaður andstæðu pólunum í pólitíkinni — Sjálfstæðisflokki og Vinstri grænum. Fyrir að verða ári síðan, eða í janúar síðastliðnum, tilkynnti Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, að hún ætlaði ekki að gefa kost á sér áfram í næstu kosningum en hún hefur nú gegnt bæjarstjórastöðunni í 12 ár.

Þremenningarnir úr Garðabænum, Mosó og af Nesinu hafa allir setið lengi en komast þó ekki í hálfkvisti við Sigurgeir heitinn Sigurðsson, sem hafði verið sveitar- og bæjarstjóri Seltjarnarness samfellt í 37 ár þegar hann hætti árið 2002.

Af bæjarstjórum á höfuðborgarsvæðinu standa eftir þau Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi, og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. Sjálfstæðisfólkið Ármann Kr. og Rósa hafa gefið það út að þau ætli að gefa kost á sér í vor en Samfylkingarmaðurinn Dagur liggur undir feldi. Innst inni vona hrafnarnir að Dagur fari að fordæmi þremenninganna sem ætla að hætta í pólitík enda þurfa læknavísindin á öllu sínu besta fólki að halda á þessum síðustu og verstu tímum.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.