

Í kjaramálunum vakti það óneitanlega athygli að órólega deildin í ASÍ leggur nú til að tekið verði upp fjögurra þrepa skattkerfi í stað tveggja. Miðað er við að skatttekjur ríkisins verði eftir sem áður þær sömu, svo ákalls á hagræðingu í ríkisrekstri er vart að vænta úr þeirri átt.
Athyglisverðast er þó að þar er horfið er frá kröfunni um að lægstu laun verði skattfrjáls, aðeins nokkrum dögum eftir að málsvari öreigastéttarinnar, Gunnar Smári Egilsson, tók hana upp í Sósíalistaflokki sínum.
Sem kunnugt er var kröfugerð SGS felld í heilu lagi inn í stefnu Sósíalistaflokksins á dögunum, sem vafalaust einfaldaði málefnastarfið í flokknum mjög og kann að hafa aukið framleiðni hugmyndafræðideildar hans um mörg þúsund prósent á einu bretti.
Af því tilefni var reiknað og reiknað hvernig það væru í raun kröfur tugþúsunda launafólks, sem Sósíalistaflokkurinn einhvernveginn gerði að sínum. En svo gerir ASÍ annað. Hvað gerir öreigaelítan þá?