*

föstudagur, 28. janúar 2022
Óðinn
15. september 2021 07:04

Hvað kýs Óðinn?

Óðinn fræðir lesendur um það hvaða flokk hann íhugar að kjósa í komandi alþingiskosningum.

Kosningar fara fram þann 25. september eins og flestir hafa líklega tekið eftir. Kosningabaráttan verður snörp, hófst seint og þessara kosninga verður líklega ekki minnst sem sögulegra. En sjáum til.

Óðinn hefur nú um langt skeið, í um áratug, gagnrýnt stórvaxandi ríkisumsvif, slakan ríkisrekstur og almennt aukin afskipti löggjafans af borgurunum.

* * *

Það er mat Óðins að um 20% ríkisútgjaldanna sé illa varið - jafnvel enn meira - sé í raun sóað. Þeim er sturtað ofan í holræsakerfin og út í sjó. Einu áhrif þeirra eru að skattgreiðendur eru verr staddir.

Þessi útgjöld eru ekki aðeins fólgin í verkefnum sem ekki nokkur rök eru fyrir að ríkið stundi. Má þar nefna niðurgreiðslur til landbúnaðar, stóran hluta utanríkisþjónustunnar, styrki ríkisins til nýsköpunar sem miklu frekar á heima hjá einkaaðilum og mörg önnur verkefni. Svo ekki sé minnst á galin framlög ríkisins til fjölmiðla, sem eru um fimm milljarðar á ári og renna að langmestu til Ríkisútvarpsins - þar sem starfsmennirnir eiga sér engan draum heitari en hreina vinstristjórn.

Heldur ekki síður í óhagkvæmum rekstri ríkisins þar sem árangur er á engan hátt í samræmi við útgjöld ef horft er til samanburðarlandanna. Þar eru auðvitað heilbrigðiskerfið og menntakerfið mikilvægust. En hvað geta þeir kosið sem telja að ríkisumsvifin séu of mikil og illa sé farið með peninga almennings - skattgreiðendanna?

* * *

Ef Óðinn væri þekkingarlaus um íslensk stjórnmál, væri geimvera og lenti á Íslandi fyrir misskilning - líkt og víkingarnir forðum - væru í fljótu bragði þrír flokkar sem kæmu til greina. Svokallaðir hægriflokkar - eða hvað.

* * *

Miðflokkur

Miðflokkurinn hefur á köflum verið hægrisinnaður. Hann hefur lýst sig andvígan bákninu, ríkisútgjöldin séu orðin of mikil, illa sé farið með skattfé og skattar of háir. Hann lagði fram stefnuskrá í 10 liðum þar sem margt ágætt er að finna undir heitinu 10 ný réttindi fyrir íslensku þjóðina.

En gallinn við þessi réttindi er að framsetningin er of flókin fyrir allt venjulegt fólk. Það er ósennilegt að réttindin muni hreyfa við kjósendum þó að mörg þeirra séu góð. Sérstaklega hugmyndir um að heilbrigðisskimun sem sýnir best hversu heilbrigðiskerfið okkar er skammt á veg komið í forvörnum. Vondu hugmyndir Miðflokksins eru að mismuna fyrirtækjum skattalega eftir stærð þeirra.

* * *

Viðreisn

Viðreisn var stofnuð af fólki sem hélt því fram að flokkurinn væri hægriflokkur. Í einstaka málum hefur Viðreisn staðið sig ágætlega. Þingmenn flokksins stóðu sig til að mynda vel í umræðum um krabbameinsleit, þegar heilbrigðisráðherrann, heilbrigðisráðuneytið og Landspítalinn brugðust algjörlega. Einnig hefur flokkurinn barist fyrir því að landbúnaðarkerfið verði endurskoðað frá grunni.

En hvernig eiga hægrimenn að geta stutt flokk sem vill ganga í miðstýrt bandalag - tollabandalag - sem nefnist Evrópusambandið? Og myntbandalag þar sem efnahagur margra aðildarríkjanna stendur á brauðfótum? Krónan er ekki gallalaus. En hvað er evran? Hún er pólitískur harmleikur fyrir mörg aðildarríki myntbandalagsins.

Á það var bent í ræðu á dögunum að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefði haft fjögur meginstefnumál. Evrópusambandið, evruna, að kollvarpa fiskveiðistjórnunarkerfinu og stjórnarskrána. Og öll þessi mál hafi Viðreisn tekið upp - án þess einu sinni að biðja Jóhönnu um leyfi.

* * *

Sjálfstæðisflokkurinn

Sjálfstæðisflokkurinn er í grunninn eini hægriflokkurinn á Íslandi. Óðinn hefur gagnrýnt flokkinn, ráðherra hans og þingmenn töluvert á undanförnum árum. Ávallt frá hægri. Þessi gagnrýni hefur verið umbúðalaus - rétt eins og allt hrós og öll gagnrýni Óðins. En hún hefur verið málefnaleg.

Sú ríkisstjórn sem nú hefur setið er ein stærsta málamiðlun íslenskra stjórnmála á síðari tímum. Það er ekki nema von. Þar mætast gamla vinstrið, miðjan og hægrið. Í þessu ríkisstjórnarsamstarfi hafa þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins verið of ragir við að segja sína skoðun og tala fyrir stefnu Sjálfstæðisflokksins. Óháð samningaviðræðunum við ríkisstjórnarborðið.

Hins vegar höfum við séð breytingu á því undanfarnar vikur. Þá hafa þingmenn og frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins lifnað við og talað fyrir stefnu flokksins. Loksins, segir Óðinn, því eftir því hefur verið beðið að talað sé fyrir hægristefnunni. Sjálfstæðisstefnunni. Talað fyrir skattalækkunum. Hagkvæmari ríkisrekstri. Minni ríkisrekstri. Minni afskiptum ríkisins.

Það er líka gömul saga og ný að formaður flokksins, Bjarni Benediktsson, hefur stóreflst í aðdraganda kosninganna líkt og svo oft áður þegar hefur verið á brattann að sækja. Hann hefur sýnt mikla yfirburði í kappræðum og umræðuþáttum. Reyndar ásamt Katrínu Jakobsdóttur, sem hefur verið einkar vel upplögð í kosningabaráttunni og sérstaklega vel undirbúin. Á sama tíma virðist formaður Samfylkingarinnar gera aðra tilraun til að koma flokknum á ruslahaug stjórnmálasögunnar. Hin tilraunin var Oddnýjar Harðardóttur, sem mistókst með naumindum þegar hún kom þingflokknum í þrjá þingmenn.

En það er á brattann að sækja. Skoðanakannanir benda til vinstristjórnar, hreinnar vinstristjórnar. Það væru skelfileg örlög fyrir hvert mannsbarn á Íslandi.

Það er hins vegar nauðsynlegt að vera bjartsýnn. Það eru líkur á því að fylgi Sjálfstæðisflokksins - sem í eina tíð var gjarnan ofmetið í skoðanakönnunum - sé nú vanmetið.

* * *

Ef martröðin um hreina vinstristjórn verður að veruleika, þá verðum við fyrst með storminn í fangið. Við skulum ekki takast á við það verkefni með því að biðja Guð að blessa okkur, heldur með því að takast á við hann með hugarfari Hannesar Hafsteins.

Þú þenur út seglin og byrðinginn ber og birtandi, andhreinn um jörðina fer; þú loftilla, dáðlausa lognmollu hrekur og lífsanda starfandi hvarvetna vekur.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.