*

þriðjudagur, 29. september 2020
Bjarni Þór og Guðbjörg Þ
5. júlí 2020 13:43

Hvað má greiða í arð til hluthafa?

Einn af hornsteinum hlutafélaga er möguleiki þeirra til þess að greiða út arð til hluthafa.

Haraldur Guðjónsson

Einn af hornsteinum hlutafélaga er möguleiki þeirra til þess að greiða út arð til hluthafa. Þeirri heimild er hins vegar þröngur stakkur sniðinn í lögum um hlutafélög enda er það meginregla hlutafélagaréttar að eignir hlutafélags eru bundnar í félaginu og að vissu leyti óháðar ráðstöfunarrétti hluthafa. Almennt er litið svo á að hagnaður af rekstri geti verið grundvöllur til að greiða hluthöfum arð. Með nýlegum dómi Hæstaréttar í máli nr. 2/2020 (Íslenska ríkið gegn International Seafood Holdings) er komið nýtt fordæmi sem stangast á við fyrri framkvæmd og lagatúlkun og vekur upp ýmsar grundvallarspurningar í tengslum við arðsúthlutunarheimildir hlutafélaga.

Samkvæmt 99. gr. hlutafélagalaga (74. gr. laga um einkahlutafélög) er einungis heimilt að úthluta sem arði (a) hagnaði samkvæmt síðasta samþykkta ársreikningi, (b) yfirfærðum hagnaði frá fyrri árum og (c) frjálsum sjóðum eftir að dregið hefur verið frá tap sem ekki hefur verið jafnað og það fé sem skal lagt í varasjóð eða til annarra þarfa.

Almennt liggur nokkuð skýrt fyrir hver sé hagnaður samkvæmt síðasta samþykkta ársreikningi, en í því sambandi nægir að horfa til niðurstöðu rekstrarreiknings félagsins. Yfirfærður hagnaður fyrri ára er ekki jafnaugljós í ársreikningnum en slíkur hagnaður hefur verið færður í efnahagsreikning og myndar, ásamt öðrum liðum, óráðstafað eigið fé félagsins. Hvað varðar frjálsa sjóði hefur það hugtak ekki verið skilgreint sérstaklega í lögum, en í fyrri dómaframkvæmd hafði Hæstiréttur litið svo á að við afmörkun á því hvað væru frjálsir sjóðir bæri að horfa til óráðstafaðs eigin fjár í ársreikningi, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar nr. 786/2013.

Í dómi Hæstaréttar nr. 786/2013 reyndi á kröfu skiptastjóra þrotabús Fons um riftun á arðgreiðslu til fyrrum hluthafa sökum þess að hann taldi að bæði form- og efnisreglum hefði ekki verið fylgt við ákvörðunina. Hæstiréttur hafnaði riftunarkröfunni og taldi ekki skipta máli að nær allar tekjur Fons hafi verið hlutdeildartekjur og nægt óráðstafað eigið fé til grundvallar arðsúthlutun.

Samkvæmt áðurgreindu virðist liðurinn „frjálsir sjóðir“ ekki hafa haft mikla sjálfstæða þýðingu við mat á arðsúthlutunarheimildum hlutafélags, enda má segja að óráðstafað eigið fé myndist einkum af (a) hagnaði ársins og (b) hagnaði/ tapi fyrri ára. Hins vegar teljast ýmsir sjóðir félags bundnir sjóðir, en til þeirra teljast t.d. hlutafé, ýmsar gangvirðisbreytingar, lögbundnir sjóðir og sjóðir sem kunna að vera bundnir samkvæmt samþykktum.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli International Seafood Holdings var talið að hagnaður sem byggði á hlutdeildarhagnaði í dótturfélögum samkvæmt ársreikningi 2011 (fyrir lagabreytingu) hafi ekki talist frjáls sjóður. Landsréttur taldi á hinn bóginn að líta bæri til stöðu óráðstafaðs eigin fjár samkvæmt ársreikningi sem frjálsan sjóð í skilningi hlutafélagalaga sem myndaði grundvöll fyrir arðsúthlutun. Með dómi Hæstaréttar var dómur héraðsdóms staðfestur með niðurstöðu sem er í ósamræmi við fyrri framkvæmd og önnur dómafordæmi Hæstaréttar þar sem fallist hefur verið á að hagnaður sem byggir á hlutdeildartekjum (fram til ársins 2016) geti verið grundvöllur arðsúthlutunar.

Dómurinn virðist líta framhjá því að arðsúthlutunarheimildir ráðast, samkvæmt orðalagi hlutafélagalaganna, einkum af hagnaði samkvæmt samþykktum ársreikningum sem gerðir eru á grundvelli þeirra laga sem um slíka reikninga gilda. Orðalag dómsins um að meðferð hlutdeildarhagnaðar á grundvelli ársreikningalaga sé „bókhaldsleg færsla“ sem hafi enga þýðingu við mat á arðsúthlutunarheimildum hlutafélags, vekur því vægast sagt upp grundvallarspurningar um það hvað megi þá greiða til hluthafa í arð.

Í þessu sambandi er rétt að minnast þess að á árinu 2016 tóku í gildi breytingar á ársreikningalögunum sem fólu í sér takmarkanir á færslum á óráðstafað eigið fé. Meðal annars var gerð sú breyting að ekki er lengur heimilt að færa hlutdeildartekjur á óráðstafað eigið fé ef þær nema hærri fjárhæð en mótteknum eða ákvörðuðum arði, heldur skal setja mismuninn á bundinn hlutdeildarreikning meðal eigin fjár. Þessi lagabreyting hefði í raun verið óþörf ef marka má dóm Hæstaréttar í máli 2/2020.

Fram til þessa hefur verið talið að óráðstafað eigið fé samkvæmt síðasta ársreikningi sé grundvöllur arðsúthlutunar og að réttaráhrif vegna bindingar hlutdeildartekna hafi ekki tekið gildi fyrr en við lagabreytingu árið 2016. Lesa má út úr dómi Hæstaréttar í máli nr. 2/2020 að óráðstafað eigið fé sé ekki endilega frjáls sjóður til grundvallar arðsúthlutun. Slík breyting á túlkun og fyrri framkvæmd er slæm. Hún skapar mikla óvissu um arðsúthlutunarheimildir hlutafélaga almennt og gefur í skyn að ekki sé lengur hægt að byggja á lögum um ársreikninga eða reikningsskilareglum í því sambandi. Hætta er á því að mörg innlend félög verði talin hafa úthlutað arði umfram heimildir, með tilheyrandi skattalegum álitaefnum gagnvart hluthöfum sem hafa móttekið slíkar arðgreiðslur. Auk þess gæti fjöldi félaga þurft að skoða hvort óráðstafað eigið fé innihaldi hlutdeildarhagnað, eða eftir atvikum hlutdeildartap, frá fyrri tíð sem gæti þá haft áhrif á arðsúthlutunarheimildir. 

Höfundar eru: Bjarni Þór Bjarnason, sviðsstjóri, og Guðbjörg Þorsteinsdóttir, meðeigandi, hjá Skatta- og lögfræðiráðgjöf Deloitte ehf

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.