Malasíska fjárfestingafélagið Berjaya, sem malasíski kaupsýslumaðurinn Vincent Tal leiðir, þarf að finna nýtt nafn á Icelandair Hotel. Í uppgjöri Icelandair sem birt var í október á síðasta ári kom fram að Berjaya hefði tólf mánuði til að hætta notkun nafns Icelandair á hótelkeðjunni eftir að hafa eignast hana að fulli í ágústmánuði.

Vincent Tan hefur áður vakið heimsathygli fyrir að breyta vörumerki á félagi í hans eigu, velska knattspyrnuliðinu Cardiff City, sem Aron Einar Gunnarsson lék með á þeim tíma. Fyrir tæpum áratug lét Tan breyta einkennisdýrinu á merki félagsins í dreka og breytti aðallit búninga liðsins úr bláu í rautt. Það vakti litla hrifningu stuðningsmanna félagsins enda gengur liðið undir gælunafninu Bluebirds. Tan var því að lokum gerður afturreka með breytingarnar vegna óánægju áhangenda liðsins.

Huginn & Muninn er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins sem kom út 28. júlí 2022.