*

laugardagur, 8. ágúst 2020
Huginn og muninn
15. nóvember 2017 14:38

Hvað myndi Paul Volcker gera?

Spyrja má hvort aðalhagfræðingur Seðlabankans líti á seðlabankastjóra sem hækkaði stýrivexti upp í 20% sem fyrirmynd.

Haraldur Guðjónsson

Þórarinn G. Pétursson aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, sem kynnti Peningamál Seðlabankans í morgun virðist spyrja sig hvað Paul Volcker fyrrum seðlabankastjóri Bandaríkjanna í forsetatíð Jimmy Carter og Ronald Reagan hefði gert í sporum ráðamanna íslenska Seðlabankans.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um kom fram í ritinu að Seðlabankinn hefur lækkað hagvaxtarspá sína fyrir þetta ár um eitt og hálft prósentustig, eða úr 5,2% niður í 3,7% hagvöxt. Á fundi Seðlabankans um niðurstöður peningastefnunefndar í morgun má spyrja sig hvort val Þórarins á kaffibolla sé ætlaður til að gefa vísbendingar um að bankinn ætti að hans mati að hækka stýrivexti og það jafnvel umtalsvert líkt og Paul Volcker gerði á sínum tíma.

Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um það að Þórarinn vildi hækka stýrivexti meira en aðrir meðlimir peningastefnunefndar Seðlabankans, en Paul Volcker hækkaði stýrivexti upp í 20% þegar mest var í hans tíð sem Seðlabankastjóri. Á kaffibolla Þórarins á fundinum stóð: What would Volcker do?, sem útleggja mætti á íslensku sem Hvað myndi Volcker gera?

Er Volcker almennt þakkað að það tókst að hemja verðbólgu í Bandaríkjunum sem náði hæst 14,8% í mars árið 1980, en hún féll niður fyrir 3% árið 1983. Höfðu stýrivextir verið í kringum 11,2% árið 1979 þegar hann tók við en í júní árið 1981 höfðu þeir verið hækkaðir upp í 20%. Í efnahagskreppunni sem fylgdi í kjölfarið fór atvinnuleysið upp í 10%.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.