Eins og fram hefur komið á þessum vettvangi er margt sem betur hefði mátt fara þegar ríflega fimmtungshlutur ríkisins var boðinn út á dögunum. Það breytir ekki þeirri staðreynd að útboðið heppnaðist í stórum dráttum vel og boðuð markmið með sölunni náðust. Þrátt fyrir það hafa stjórnmálamenn og í sumum tilfellum fjölmiðlar beitt öllum ráðum til þess að tortryggja útboðið og þyrla upp moldviðri umfram efni fram og hefur það sett áframhaldandi einkavæðingu bankans í uppnám um ófyrirséða framtíð. Er það afleit staða sem kann að hafa dýrkeyptar afleiðingar þegar fram í sækir.

Þeir sem fylgdust með opnum nefndarfundi fjárlaganefndar Alþingis með fulltrúum Bankasýslunnar fengu greinargóð svör við spurningum um hvers vegna helstu vankantar á útboðinu voru ekki sniðnir af þegar þingið fjallaði um málið. En eins og bent er á í minnisblaði Bankasýslunnar voru allar líkur á að fjármálaráðherra hefði tekið tillit til ábendinga frá þinginu um lágmarksfjárhæðir og annarra þeirra álitamála sem hafa verið uppi.  Þær spurningar sem nefndarmenn lögðu fyrir fulltrúa Bankasýslunnar báru ekki með sér að þeir þekki málið vel og geti greint aðalatriði frá smáatriðum sem litlu skipta í hinu stóra samhengi hlutanna.

Í minnisblaðinu sem Bankasýslan lagði fyrir nefndina áður en fundurinn fór fram er flestum þeim spurningum sem vöknuðu upp eftir útboðið svarað með fullnægjandi hætti. Enda snerist fundurinn að mestu um hártoganir og útúrsnúninga þingmanna á svörum sýslumanna. Eins og fram hefur komið er einn umdeilanlegasti þáttur útboðsins - þátttaka starfsmanna söluráðgjafa í sjálfu útboðinu - nú til skoðunar hjá Fjármálaeftirlitinu. Engin ástæða er til þess að ætla annað en að það mál verði til lykta leitt með viðeigandi hætti. Í ljósi þessa er full ástæða til að krefja þá sem hvað hæst kalla eftir að Alþingi skipi rannsóknarnefnd á sölunni svara við spurningum hvað nákvæmlega er óupplýst varðandi útboðið. Þrátt fyrir að einstaka þættir útboðsins kunni enn að vera umdeilanlegir verður ekki sagt annað en að búið sé að útskýra hvaða sjónarmið lágu að baki við ákvörðunartökuna. Fáist ekki skýr svör við spurningum um hvað nákvæmlega eigi eftir að rannsaka blasir við að þungavigtarfólk í stjórnmálum virðist vera reiðubúið til þess að beita fyrir sér heimild Alþingis til að skipa rannsóknarnefndir til að ná höggi á pólitíska andstæðinga. Það er afleit þróun og ískyggileg.

Vafalaust munu margir halda áfram að fiska í gruggugu vatni þrátt fyrir að fátt sé á huldu varðandi útboðið. Þeir munu halda áfram að klifa á því að fámennum hópi fjárfesta hafi verið boðið að kaupa hlutabréf í bankanum og afsláttarkjörum gegn betri vitund. Enda hefur það margoft komið fram að verðið í útboðinu réðist af þeim tilboðum sem lögð voru inn og voru stofnanafjárfestar á borð við lífeyrissjóði sem buðu lægst af innlendum aðilum. Allir þeir sem falla undir skilgreiningu laga og reglna um fagfjárfesta sem eiga rætur sínar að rekja til Evrópusambandsins gátu svo tekið þátt í útboðinu. Það er óábyrgt af stjórnmálamönnum sem vilja láta taka sig alvarlega að tortryggja þessar meginstaðreyndir málsins þó svo að mönnum sé fyllilega frjálst að hafa á þeim skoðanir og sannfæringu fyrir að standa hefði átt að verki með öðrum hætti.

Flestum þeim sem hafa fylgst með málinu á undanförnum vikum dylst ekki að meginþungi gagnrýninnar snýr að þeirri staðreynd að sumir þeirra sem tóku þátt í útboðinu njóta ekki almennrar lýðhylli með réttu eða röngu. Þeir sem hafa slegið þennan tón í umræðunni láta eins og að ríkið hafi verið að selja ráðandi hlut í bankanum til einstaka fjárfesta og freista þar með þess að slá ryki í augu landsmanna. Því miður hafa sumir fjölmiðlar tekið þátt í þessari vegferð. Rétt er að hafa í huga að þessi gagnrýni felur í sér ákall um að stjórnvöld hafi átt að handvelja þá til þátttöku í útboðinu sem eru þeim þóknanlegir. Þessi krafa er galin og er í algjörri mótsögn við vilja þeirra sem kjósa að á fjármálamarkaði gildi skýrar reglur sem ná til allra óháð hvort þeir séu stjórnvöldum þóknanlegir eða ekki. Í þessu samhengi er rétt að hafa í huga að þeir sem hafa verið gerðir tortryggilegir í umræðu undanfarinna vikna hafa í fyrsta lagi haft fullan rétt til þess að fjárfesta í bréfum í Íslandsbanka á markaði og í öðru lagi er það skammsýni að sjá ofsjónum yfir því verði sem kaupin fóru fram á í útboðinu.

Það liggur í augum uppi að margvíslegan lærdóm er hægt að draga af útboði á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Um það verður ekki deilt. Það er að sama skapi jákvætt að ekki hefur staðið á Bankasýslunni og stjórnvöldum að upplýsa um þá þætti málsins sem hafa orkað tvímælis í hugum sumra. Er það fagnaðarefni.  Ekkert af því sem fram er komið í þessu máli réttlætir að Alþingi skipi rannsóknarnefnd til þess að fara ofan í saumana á útboðinu. Hins vegar má draga þá ályktun að sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að Alþingi fái veigameira hlutverk þegar kemur að frekari sölu á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka sé misráðin. Sporin hræða í þeim efnum.