*

föstudagur, 25. júní 2021
Leiðari
11. júní 2021 12:54

Hvað sem það kostar

Heillavænlegast væri að stefnumörkun heilbrigðiskerfisins tæki mið af hagsmunum þeirra sem það á að þjónusta, óháð rekstrarformi.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Haraldur Jónasson

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ekki farið leynt með andstöðu sína við aðkomu einkaaðila að heilbrigðiskerfinu. Það hefur verið henni hjartans mál að enginn græði á heilbrigðisþjónustu og miðað við stöðu mála, ekki einu sinni fólkið sem kerfið á að þjónusta.

Umræðan um biðlista eftir liðskiptiaðgerðum ætti að vera lesendum í fersku minni. Þrátt fyrir að biðlistar lengdust sífellt kaus heilbrigðisráðherra heldur að senda fólk til einkaaðila í Svíþjóð í liðskiptiaðgerðir með miklum tilkostnaði en að hleypa innlendum einkaaðilum að skurðborðinu til að stytta bið og draga úr kostnaði.

Afdrifarík mistök áttu sér stað í ferli leghálsskimana hjá Krabbameinsfélagi Íslands en þar var um mannleg mistök eins starfsmanns að ræða. Í stað þess að endurskoða ferla með það að markmiði að koma í veg fyrir að slíkt gæti endurtekið sig, ákvað heilbrigðisráðherra snarlega að færa skimanirnar frá Krabbameinsfélaginu til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og flytja sýnin svo til Danmerkur til greiningar. Með öðrum orðum voru skimanirnar færðar af höndum einkaaðila til hins opinbera, í takt við vegferð heilbrigðisráðherra.

Breytingin var að því er virðist með öllu óundirbúin og hafði þær afleiðingar að nú hafa konur beðið svo mánuðum skiptir eftir niðurstöðum úr sýnatöku, auk þess sem rannsóknarmöguleikar eru takmarkaðri en áður. Nú, rúmlega hálfu ári eftir breytinguna, er verið að þarfagreina breytinguna. Nokkuð sem augljóslega hefði þurft að gerast áður en slík breyting átti sér stað. Fjöldi fagaðila í heilbrigðiskerfinu hefur gagnrýnt ákvörðunina og framkvæmd hennar. Afleiðingarnar eru þær að heilsu kvenna er stefnt í hættu. Það var átakanlegt að fylgjast með Kastljósi á dögunum, þar sem Óskar Reykdalsson var settur í þá óskiljanlegu stöðu að svara fyrir málið. Ljóst má vera að ábyrgðin á stöðu mála er heilbrigðisráðherra, sem hefur verið ósýnileg í umræðunni.

Nýverið bárust svo fregnir af því að ákveðið hefði verið að leggja niður læknastofur, skurðstofur og blóðrannsókn í Domus Medica frá næstu áramótum, en þar eru um 70 sérfræðilæknar með stofur. Þá er búist við því að Apótekið hverfi úr húsinu. Jón Gauti Jónsson, framkvæmdastjóri Domus Medica, sagði þetta afleiðingu þeirrar ríkisvæðingarstefnu sem ríkisstjórnin hefur rekið síðastliðin fjögur ár, í viðtali við Morgunblaðið.

Það skal engan undra að BSRB, stærstu hagsmunasamtök opinberra starfsmanna á Íslandi, séu lítt hrifin af samvinnu hins opinbera og einkaaðila í heilbrigðiskerfinu. Nýlega birtu samtökin niðurstöður könnunar um afstöðu almennings til ólíkra rekstrarforma í heilbrigðiskerfinu og þær kynntar með þeim formerkjum að almenningur hafni frekari einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Þegar betur var að gáð reyndust þau ummæli ekki aðeins villandi, heldur beinlínis röng.

Mikill meirihluti almennings er vissulega hlynntur ríkisrekstri sjúkrahúsa - en ekki heilbrigðiskerfisins í heild sinni. Einkarekstur sjúkrahúsa hefur þar fyrir utan ekkert verið til umræðu, ekki frekar en einkavæðing heilbrigðiskerfisins. Það er samvinna hins opinbera og einkaaðila í heilbrigðiskerfinu, svokallað blandað rekstrarform, sem hefur verið til umræðu. Niðurstöður könnunarinnar sýna, svo ekki verður um villst, að blandað rekstrarform nýtur mikils stuðnings víða í heilbrigðiskerfinu. Thor Aspelund, prófessor í líftölufræði við Háskóla Íslands, hefur sagt niðurstöðuna vera að Íslendingar virðist hálft í hálft fylgjandi opinberum og blönduðum rekstri. Hann hefur bent á að séu sjúkrahúsin undanskilin hallist svörin frekar að blönduðu eða einkareknu kerfi, en það sé þó ekki tölfræðilega marktækt. Það kemur vart á óvart að blandað rekstrarform njóti víðtæks stuðnings; einkareknar heilsugæslustöðvar skipa sér enda í fremstu röð í mælingum á þjónustu heilsugæslustöðvanna.

Svo virðist sem heilbrigðisráðherra ætli að halda áfram vegferð sinni í aukinni ríkisvæðingu heilbrigðiskerfisins sama hvað það kostar. Skiptir þá engu hvort litið er til fjárhagslegs ávinnings blandaðs rekstrarforms, ánægju með þjónustustig, heilsuöryggis kvenna eða vilja almennings.

Það er áhyggjuefni að svo víðtækir hagsmunir almennings séu háðir þeim pólitísku vindum sem blása um heilbrigðisráðuneytið á hverju kjörtímabili. Ríkisvæðingarstefnan sem nú er við lýði hefur valdið miklu tjóni á fáum árum. Heillavænlegra væri að stefnumörkun heilbrigðiskerfisins tæki mið af hagsmunum þeirra sem það á að þjónusta. Það rekstrarform verði fyrir valinu á hverju sviði sem er best til þess fallið að uppfylla kröfur um aðgengi, öryggi, þjónustustig og hagkvæma meðferð á opinberu fé.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.