*

laugardagur, 4. desember 2021
Týr
1. október 2021 07:31

Hvað svo, Bjarni?

Eina breytingin frá núverandi stjórnarsamstarfi kann að vera sú að einstaka aðilar skipta um hlýja ráðherrastóla og ráðherrum mögulega fjölgað.

Haraldur Guðjónsson

Það er vel hægt að halda því fram að ríkisstjórnin hafi, svo langt sem það nær, unnið nýafstaðnar kosningar. Sjálfstæðisflokkurinn fékk í enn eitt skiptið betri kosningu en kannanir höfðu gert ráð fyrir, Vinstri grænir héldu að mestu sínu kjarnafylgi og Framsóknarflokkurinn stendur uppi sem sigurvegari kosninganna.

Augljósir taparar eru þeir flokkar sem hvað mesta áherslu lögðu á ýmsar kerfisbreytingar, svo sem því að umbylta stjórnarskránni, brjóta niður sjávarútveginn og hækka skatta á tiltekna hópa. Samfylkingin, Viðreisn og Píratar koma illa út úr kosningunum, allir með innan við 10% fylgi en aftur á móti er Flokkur fólksins, sem ekki boðaði stórfelldar kerfisbreytingar, annar sigurvegari kosninganna.

* * *

Sjálfstæðisflokkurinn boðaði skattalækkanir fjórðu kosningarnar í röð en að öðru leyti voru pólitísk skilaboð flokksins sambærileg öðrum flokkum, þ.e. lítil sem engin. Að öllu óbreyttu, ef við gefum okkur að núverandi ríkisstjórn nái saman um nýjan stjórnarsáttmála, verður að teljast ólíklegt að skattar séu að fara að lækka í náinni framtíð – hvorki á einstaklinga né fyrirtæki. Þá er það nær sjálfgefið að umsvif hins opinbera eru ekki að fara að minnka, að öllum líkindum verður miðhálendisþjóðgarður settur á laggirnar, áfram verður komið í veg fyrir nauðsynlegar virkjanir, það er nær útilokað að þjónusta við sjúkratryggða verði bætt með samningum við einkaaðila og stefnt er að því að koma í veg fyrir fjárfestingar útlendinga á Íslandi (umfram það sem þegar var gert á nýliðnu kjörtímabili). Eina breytingin frá núverandi samstarfi kann því að vera sú að einstaka aðilar skipti um hlýja ráðherrastóla og ráðherrum mögulega fjölgað.

Ríkisstarfsmenn kunna vel við samstarf þessara flokka. Á meðan einkageiranum blæddi í faraldrinum héldu ríkisstarfsmenn vinnu sinni og hækkuðu í launum, þeir fá að móta lög og reglugerðir án athugasemda stjórnmálamanna og vita að störfum hins opinbera mun halda áfram að fjölga.

* * *

Það er því full ástæða til að spyrja; Hvaða erindi á Sjálfstæðisflokkurinn í þetta samstarf?

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.