*

laugardagur, 25. september 2021
Eva Margrét Ævarsdóttir
12. september 2021 13:34

Hvað telst græn starfsemi og hvernig á að fjármagna hana?

Áhrif loftslagsbreytinga í heiminum eru orðin áþreifanleg og það hefur náð athygli fjárfesta og fjármagnseigenda sem verulegur áhættuþáttur.

epa

Í nýútkominni skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna (IPCC) um loftslagsvána er gefin út blikkandi rauð viðvörun um mikilvægi þess að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta er stór áskorun. Í ofanálag setti Covid-19 faraldurinn efnahagskerfi heimsins, sem eru lykilaðili til að bregðast við loftslagsvandanum, í algjört uppnám.

Leiðin í átt að hagvexti er græn

Til að bregðast við loftslagsbreytingum samþykkti Evrópusambandið „Græna sáttmálann“ (e. The European Green Deal) árið 2019 og nú í sumar voru markmið hans ítrekuð auk þess sem tilkynnt var að Græni sáttmálinn verði jafnframt líflínan út úr faraldrinum í átt að auknum hagvexti. Eitt af markmiðum Græna sáttmálans er að Evrópusambandið verði kolefnishlutlaust árið 2050. Til að ná þessum metnaðarfullu markmiðum hefur ESB fyrir löngu hafið vinnu við margvíslega nýja lagasetningu sem mun að miklu leyti rata hingað til lands í gegnum EES samninginn. Jafnframt hefur ESB heitið því að beina a.m.k. billjón evra í sjálfbærar fjárfestingar á næsta áratug.

Hornsteinar í nýrri löggjöf ESB í sjálfbærum fjármálum

Aðgerðir ESB geta einnig nýst við að styðja við aðgerðir Íslands og skuldbindingar við að ná eigin markmiðum um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Hluti af þessum aðgerðum bandalagsins miðar að því að beina fjárfestingarákvörðunum í fjármálageiranum í þann farveg að þær taki tillit til umhverfis- og samfélagslegra þátta og stjórnarhátta og er markmiðið m.a. að auka langtímafjárfestingar. Löggjöfinni er einnig ætlað að draga úr upplýsingaóreiðu varðandi hvaða fjárfestingar teljist vera sjálfbærar. ESB er nú langt komið með að hrinda í framkvæmd fyrsta hluta þessara aðgerða og hafa þær þegar haft mikil áhrif. Hornsteinarnir eru eftirfarandi:

  1. Flokkunarkerfi ESB (e. EU Taxonomy) skilgreinir hvort verkefni eða atvinnustarfsemi teljast sjálfbær. Flokkunarkerfinu er ætlað að skapa áreiðanlegt kerfi byggt á vísindalegum grunni til sameiginlegra nota fyrir fyrirtæki og fjárfesta. Því er jafnframt ætlað að vinna gegn upplýsingaóreiðu (e. greenwashing) með því að efla traust fjárfesta á því hvaða fjárfestingar teljist umhverfisvænar. Flokkunarkerfið á ekki að vera meitlað í stein heldur verður það í stöðugri endurskoðun þannig að það þróist með tímanum og eftir því sem tækninni fleygir fram.
  2. Sjálfbærniupplýsingagjöf fyrirtækja og fjármálafyrirtækja. Upplýsingagjöfin er tvíþætt, fyrirtækjahlutinn er þekktur hérlendis undir heitinu ófjárhagsleg upplýsingagjöf og hefur verið innleidd hér á landi í ársreikningalögum, nr. 3/2006. Breytingar á henni eru hins vegar í vinnslu og er markmiðið að sjálfbærni upplýsingagjöf verði á pari við fjárhagslega upplýsingagjöf fyrirtækja. Hinn hlutinn, sem snýr að fjármálamarkaðnum gildir um þátttakendur á fjármálamarkaði, t.d. banka, fjárfestingarfélög og fjármálaráðgjafa. Reglugerðin gildir frá mars 2021 innan ESB en ekki liggur fyrir hvenær hún verður innleidd hér á landi. Í báðum tilvikum þurfa aðilar að tengja upplýsingagjöf sína við flokkunarkerfi ESB.
  3. Ýmis viðmið, staðlar og merki sem er ætlað að auðvelda aðilum að laga sig að loftslags- og umhverfismarkmiðum ESB og skapa aukið gagnsæi. Má þar nefna loftslagsviðmið í fjárfestingum sem þegar hafa verið innleidd hjá lykilaðilum eins og MSCI. Einnig er í vinnslu staðall fyrir evrópsk græn skuldabréf. Staðallinn yrði valfrjáls en ekki kæmi á óvart ef hann setti lágmarksviðmið fyrir slíkar útgáfur. Einnig er verið að vinna að útvíkkun á umhverfismerkjum ESB (e. EU Ecolabel) til fjármálaafurða í þeim tilgangi að auka traust á fjármálaþjónustu fyrir almenning.

Veruleg aukning í ESG-fjárfestingum

Gríðarleg aukning er í fjárfestingum sem taka mið af áhrifum á umhverfi og samfélag, svokölluðum ESG (e. environment, social, governance) fjárfestingum. Samkvæmt Bloomberg eru eignir í eignastýringu sem taka mið af umhverfis- og samfélagsþáttum (e. ESG assets under management) í kringum 37 billjónir dollara og því er spáð að þær fari yfir 53 billjónir dollara strax árið 2025, sem yrði meira en þriðjungur af áætluðum heildareignum í stýringu í heiminum á því ári.

Áreiðanleiki upplýsinga mun skipta verulegu máli, enda geta hagsmunirnir verið gríðarlegir. Það er ekki ólíklegt að aðferðafræði ESB með flokkunarkerfinu og upplýsingagjöf markaðsaðila muni skapa áhugavert fordæmi fyrir fleiri markaðssvæði.

Kolefnisspor og aðgangur að fjármagni

Markaðsaðilar innan ESB eru nú þegar farnir að laga sig að nýrri Evrópulöggjöf og er áhrifa þess farið að gæta hér á landi í samskiptum við þá jafnvel þótt enn liggi ekki fyrir hvernig innleiðingu verður háttað hérlendis. Flokkunarkerfið gæti vel haft áhrif á aðgengi fyrirtækja að fjármagni í náinni framtíð. Þannig gæti starfsemi sem fellur undir skilgreiningu flokkunarkerfisins átt mun auðveldara með að afla fjármagns en starfsemi sem ekki fellur innan þess.

Hagsmunaaðilar hafa bent á þetta í samskiptum við ESB í löggjafarvinnunni og mun vera í skoðun hvernig verður unnið með þessi sjónarmið. Hér geta verið miklir hagsmunir í húfi og mikilvægt fyrir fyrirtæki hér á landi að fylgjast vel með þróun flokkunarkerfisins. Jafnvel þyrfti að reyna að tryggja að sjónarmiðum þeirra sé komið á framfæri við ESB, sem kallar reglulega eftir sjónarmiðum hagsmunaaðila í ferlinu til að tryggja eftir bestu getu að flokkunarkerfið þjóni tilgangi sínum.

Áhrif loftslagsbreytinga í heiminum eru orðin áþreifanleg og það hefur náð athygli fjárfesta og fjármagnseigenda sem verulegur áhættuþáttur. Sjálfbærniupplýsingagjöf er komin efst á dagskrá hjá öllum helstu fjárfestum, stærri fyrirtækjum og löggjafarvaldinu á helstu mörkuðum heimsins. Það er því ekki lengur valkvætt að huga að áhrifum starfsemi á umhverfi og samfélag en á móti kemur að ef vandað er til verka geta falist í því margir kostir, m.a. bætt áhættustýring og áhugaverð tækifæri til að bæta arðsemi.

Höfundur leiðir ráðgjöf í sjálfbærni hjá LEX lögmannsstofu.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.