Peters Drucker er einn þekktasti hugsuður nútímastjórnunar og áhrifa hans gætir meðal stjórnenda um allan heim auk áhrifa á hinn akademíska heim. Ein af frægustu setningum hans er: „menningin étur stefnuna í morgunmat“. Með því átti hann við að stjórnendur geta sett fram hvaða sýn og áætlanir sem þeim hentar en ef starfsfólkið er ekki sammála þá mun ekkert af því raungerast. Hann var einn af upphafsmönnum þess að átta sig á þeim gríðarlegu áhrifum sem starfsfólk hefur á framkvæmd stefnu.

Við sjáum það á hverjum degi hversu flókið og erfitt verkefni það er að leiða fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök. Stefna og fyrirætlanir stjórnenda fara of oft ekki saman við menningu og venjur vinnustaðarins. Þannig fara mörg fyrirtæki í mikla vinnu við að skilgreina hvað má gera og hvernig á að aðlagast breyttum aðstæðum. Þessi vinna fer því miður alltof oft fram í lokuðum herbergjum. Stjórnendur loka sig af með vandann og sitja því uppi með hann áfram. Það örlar líka stundum á þeirri skoðun þeirra sem sitja saman í herberginu að þeir sjálfir eigi bestu hugmyndirnar og ef hún hafi ekki komið fram þá muni hún líta dagsins ljós á meðal þeirra. Þegar niðurstaðan liggur fyrir um hvernig eigi að leysa vandann er haldinn geggjaður stemmings fundur með starfsfólki þar sem tilkynnt er að nú séu nýir tímar framundan og allir eigi að vinna að „snjöllum lausnum“.

Nú kann að vera lesandi góður að þú haldir að ég sé að skálda þetta. En þetta er raunverulegt dæmi og ekki svo gamalt. Þetta tiltekna dæmi um snjöllu lausnirnar var allt sett fram á fallegan hátt í glærum og forstjórinn predikaði yfir starfsfólki að nú væri allt breytt. Nú ættu allir að einbeita sér að snjöllum lausnum. Hér var góður vilji að verki því sannleikurinn var að breytinga var þörf og fyrirtækið þurfti sannarlega að nútímavæðast. Starfsfólk mætti á mánudeginum og eðlilega misspennt að takast á við nýjar áskoranir en margir smá spenntir. En þegar komið var fram yfir hádegi og næsta dag gerðist ekkert heldur og vikan liðin þá fóru að renna tvær grímur á mannskapinn– ekkert bólaði á hvað fólst í þessari hugmynd um snjallar lausnir, né hvað það þýddi fyrir þeirra starf eða hvernig átti að ná fram þessum snjöllum lausnum. Það var ekkert í núverandi menningu sem stuðlaði að því að starfsfólk væri að hugsa um og finna uppá snjöllum lausnum og því varð ekkert um þær – að sjálfsögðu. Það má því segja að menningin hafi étið stefnuna.

Þessi sanna dæmisaga á við um mörg loforð til viðskiptavina sem aldrei voru útfærð til allra starfsmanna.

Breytingastjórnun er nær aldrei átakalaus og ákvarðanir sjaldnast teknar með lófataki einu saman. Raunar er það svo að rannsóknir hafa sýnt fram á að um 70-90% breytinga sem ráðist er í ná ekki tilætluðum árangri. Í heimi þar sem breytingar eru í raun dagsdaglegt brauð er alveg ljóst að stjórnendur, fyrirtæki og stofnanir ættu að vera betri í að finna leiðir til að framkvæma með árangursríkari hætti. Á sama tíma sjáum æ fleiri dæmi þess að starfsfólk vill hafa meira um starfsumhverfi og aðstæður að segja. Starfsfólk lætur síður bjóða sér stjórnun sem samræmist ekki nútímalegum vinnubrögðum. Nýlegt dæmi snýr að lýðræðislega kjörnum aðila sem heillaði félagsmenn og boðaði byltingu og nýja tíma. En náði því miður ekki að heilla starfsfólkið, sem varð til þess að þau hröktu lýðræðislegan kjörin leiðtoga úr starfi. Innan stjórnsýslunnar og ríkiskerfisins sjáum við ákall starfsfólks til ráðherra vegna stjórnarhátta í opinberum rekstri nánast daglega. Nýleg dæmi má nefna um misgóðan árangur stjórnenda í innleiðingu vinnustyttingar.

Stóru áskoranir fyrir stjórnendur og leiðtoga er að finna nýjan takt og breyttar áherslur í samræmi við væntingar starfsfólks. Lykillinn að nýjum stjórnarháttum er samtal við starfsfólk en þar er gríðarleg uppspretta auðlinda. Til að fanga þær hröðu breytingar sem við stöndum frammi fyrir þarf að vera miklu markvissara og öflugra samtal á milli aðila innan fyrirtækja og stofnana. Spyrja þarf réttu spurninganna, á réttum tíma og um réttu hlutina. Það er uppspretta auðlinda sem hægt er að virkja á stórkostlegan hátt. Eitt besta dæmi um nýsköpun sem hefur sprottið upp úr þessari leið og aðferðum er að starfsfólk Marriott tók eftir ákveðnu grunsamlegu munstri hjá viðskiptavinum sem síðan leiddi í ljós að stundað var mannsal á þeirra hótelum. Í framhaldinu var farið í mikla vinnu að finna út hvernig hægt væri að sjá það fyrir þegar það ætti sér stað. Unnin var handbók og starfsfólk þjálfað í að sjá munstur sem einkennir slíka hegðun. Í framhaldinu þróuðu þau þessa lausn áfram og er hún nú seld til annarra hótela. Hjá Marriott er það yfirlýst stefna að taka púlsinn á starfsfólki og þetta er eitt af mörgum verkefnum sem hafa verið þróuð í kjölfar þannig samtala. Hvað veit þitt starfsfólk sem þig langar að vita?

Höfundur er leiðtogaþjálfi og ráðgjafi Manifesto ehf.