*

miðvikudagur, 3. mars 2021
Óðinn
17. janúar 2017 14:23

Hvaða gagn og ógagn gera nýir ráðherrar?

Heilt yfir ber Óðinn von í brjósti um að ríkisstjórnin muni geta komið nauðsynlegum lagabreytingum í gegn og stýrt ríkinu vel.

Haraldur Guðjónsson

Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar hefur verið birtur og ráðherrar hafa verið skipaðir. Þegar þetta tvennt liggur fyrir er hægt að spá fyrir um hvað muni hugsanlega breytast á næsta kjörtímabili.

***

Stjórnarsáttmálann einan og sér væri nefnilega hægt að toga og teygja eftir þörfum hvers og eins. Nú þegar vitað er um ráðherra í hverjum málaflokki er auðveldara að spá í næstu misserin.

***

Bjarni Benediktsson hefur sýnt og sannað undanfarið að hann er óskoraður leiðtogi í íslenskum stjórnmálum í dag. Tvær skýringar eru á þessari skoðun Óð­ins. Annars vegar hefur Bjarni stöðugt eflst undanfarin ár. Hins vegar eru aðrir forystumenn í íslenskum stjórnmálum slakir. Svo ekki sé meira sagt.

***

Það kom fáum á óvart að Bjarni Benediktsson yrði forsætisráð­herra. Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekki komið að myndun ríkisstjórnar ef svo hefði ekki orðið. Verkefni Bjarna verður að hafa stjórn á ríkisstjórn með eins manns meirihluta á Alþingi. Það er vel hægt en mikil vinna ef ekki á að hleypa málum í gegn sem eru þvert á hugmyndafræði sjálfstæðismanna.

***

Erfitt er spá um hvernig Benedikt Jóhannessyni muni farnast sem fjármálaráðherra. Hann talaði skynsamlega í umræðum um fjárlög þessa árs, sérstaklega hvað varðar stöðu ríkissjóðs eins og bent var á í síðustu viku. Í þessari ríkisstjórn er án efa að finna helsta útgjaldasinnann í hans eigin flokki. Óðinn vill nota tækifærið og minna Benedikt á að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var andvíg niðurskurði á greiðslum úr fæðingarorlofssjóði haustið 2009 þegar Steingrímur J. Sigfússon greip til þess ráðs vegna 12 milljarða króna aukningar á útgjöldum atvinnuleysistryggingasjóðs. Sumir hefðu notað orðið firringu um afstöðu hins nýja ráð­ herra Viðreisnar.

***

Annars telur Óðinn að Þorgerði muni farnast ágætlega í sínu ráðuneyti. Það er tímabært að endurskoða landbúnaðarkerfið frá grunni. Sjávarútvegur verð­ur lítið til umræðu á næsta kjörtímabili. Hagnaður greinarinnar mun minnka mikið vegna styrkingar krónunnar. Þá munu þeir sem ekki átta sig á einstökum árangri í sjávarútvegi á Íslandi samanborið við önnur lönd, þeir sem eru þeirrar trúar að ríkið geti stjórnað atvinnuvegi, og þeir sem almennt öfunda aðra, snúa sér að öðru. Rétt er að taka það fram að þetta eru þrír hópar, þó vissulega séu til menn sem tilheyra öllum þremur.

***

Erfitt ráðuneyti

Óttarr Proppé velur sér eitt erfiðasta ráðuneyti sem hægt er að velja. Vissulega er það erfiðara á krepputímum en í miðju góðæri. En fyrst Vinstri græn og Samfylkingin, sem eftir á að leggja niður formlega, eru ekki í ríkisstjórn mun Ríkisútvarpið flytja stöð­ugar fréttir af niðurskurðinum á á Landspítalanum og valda áhorfendum óþarfa kvíða, sem eru aðallega eldra fólk. Það mun vissulega bæði kalla á meiri útgjöld til spítalans og Ríkisútvarpsins.

***

Óðinn bindur miklar vonir við að Þorstein Víglundsson muni gera sitt til að snúa við þeirri óheillaþróun sem hefur falist í fjölgun öryrkja í Íslandi. Þorsteinn hefur verið ötull að benda á hversu há útgjöld ríkisins og lífeyrissjóða eru hér á landi, en þau eru um 50 milljarðar króna á ári og um 2,5% af landsframleiðslunni. Að auki hlýtur nýr félagsmálaráðherra að beita sér fyrir því að mun fastar verði tekið á svikum í almannatryggingakerfinu og bótakerfinu. Þessa dagana eru margir við hugann við Panama, en allir hljóta að sjá að það er stærri synd að svíkja greiðslur úr ríkissjóði en að svíkjast undan því að greiða í ríkissjóð.

***

Guðlaugur Þór Þórðarson hefur verið einn öflugasti talsmaður lægri ríkisútgjalda og hagræðingar hjá ríkinu á ný­ liðnu kjörtímabili. Óðinn efast ekki að Guðlaugur muni skera niður í utanríkisþjónustunni, fækka sendiherrum og sendiráðum, leggja niður Þróunarsamvinnustofnun Íslands og taka upp samstarf við eitthvert nágrannaríki okkar um framlag Íslands til þróunaraðstoðar.

***

Jón Gunnarsson mun án efa stíga varlega til jarðar í sínum málaflokki. Vegagerðin skuldar ríkissjóði um 20 milljarða króna og þá skuld þarf að jafna á sama tíma og nauðsynlegt er að ráðast í fjárfestingu í vegakerfinu.

***

Stendur í lappirnar

Sigríður Andersen verður dómsmálaráðherra. Hún hefur mikla þekkingu á málaflokknum, hefur sýnt góða dómgreind í erfiðum málum og sýnt að hún er tilbúin að standa í fæturna þótt það sé ekki líklegt til vinsælda. Sem ráð­ herra dómsmála verður á hennar herðum að klára endurskipulagningu dómskerfisins og upptöku millidómsstigs og hefur Óðinn fulla trú á því að henni muni farast það vel úr hendi.

***

Kristján Þór Júlíusson afrekaði það helst sem heilbrigðisráð­herra að taka skóflustungu að nýjum Landspítala, en varð annars ekki mikið úr verki. Óskandi er að hann láti meira til sín taka í nýju embætti, en Óðinn er ekki nema hóflega vongóður um það.

***

Björt Ólafsdóttir verður ráðherra umhverfis- og auðlinda. Það hefur ekki farið mikið fyrir henni sem þingmanni, en hún komst þó í fréttirnar í aðdraganda kosninga þegar hún sagði Viðreisn hafa stolið baráttumálum Bjartrar framtíðar og að væntanlegir meðráðherrar hennar, Þorsteinn Víglundsson og Þorgerður Katr­ín Gunnarsdóttir, hafi verið á launaskrá við að sinna sérhagsmunum. Framtíðin mun leiða í ljós hvernig samstarf þremenninganna verður í ríkisstjórn.

***

Heilt yfir ber Óðinn von í brjósti um að ríkisstjórnin muni geta komið nauðsynlegum lagabreytingum í gegn og stýrt ríkinu vel. Með svo fjölbreyttan og ólíkan þingmeirihluta og ráðherrahóp er hins vegar hætta á að í kekki kastist fyrr eða síðar.

Óðinn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu þann 12. janúar 2017. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Óðinn Ríkisstjórn ráðherrar skoðun
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.