*

miðvikudagur, 20. október 2021
Leiðari
6. október 2016 13:33

Hvaða ójöfnuður?

Jöfnuðurinn var mestur á Íslandi árið 2013 meðal OECD landanna en síðan þá hefur hann aukist samkvæmt Gini-stuðlinum.

Haraldur Guðjónsson

Í umræðunni um jöfnuð í íslensku samfélagi er líkt og tölur og rök eigi þar hvergi heima. Tilfinningar ráða ferðinni – eins og þær gera reyndar allt of oft í stjórnmálum – og þeir sem hæst kvarta undan tekjuójöfnuði skella skollaeyrum við staðreyndum.

Nýlegar tölur Hagstofunnar um eigna-, skulda- og og eiginfjárstöðu einstaklinga eru gott dæmi um þetta. Tölurnar sýna að frá árinu 2010 hefur hrein eign Íslendinga aukist um 88% og að eiginfjárstaða allra samfélagshópa hefur batnað til mikilla muna.

Þegar rýnt er í tölurnar út frá fjölskyldugerð kemur í ljós að allir samfélagshópar hafa bætt stöðu sína umfram þessa almennu aukningu eigin fjár að barnlausum hjónum undanskildum. Einstæðir foreldrar standa miklu betur en áður, eru með umtalsvert eigið fé nú, en voru með neikvæða eiginfjárstöðu árið 2010.

Þegar staðan er skoðuð út frá svokölluðum tíundahlutum, þ.e. þjóðinni skipt í tíu hluta eftir eiginfjárstöðu þeirra, sést að þeir eignaminnstu hafa ekki haldið í við meðaltalið, en þó hefur eiginfjárstaða þeirra batnað um 47-73%. Þeir eignamestu hafa bætt stöðu sína minnst, hlutfallslega séð, eða um 39%. Miðjuhóparnir hafa hins vegar séð eigið fé sitt margfaldast.

Vissulega hefur krónutala hinna efnamestu hækkað meira en annarra, en hlutfall þeirra af kökunni hefur minnkað verulega og það er vegna þess að kakan hefur stækkað miklu hraðar og meira en þeirra sneið.

Þetta sést einnig þegar Gini-stuðullinn svokallaði er skoðaður, en hann mælir jöfnuð tekna og er því að skoða eilítið annan hlut en eiginfjármælingin. Því lægri sem stuðullinn er því meiri er jöfnuðurinn. Árið 2013 var Gini-stuðullinn á Íslandi 24 stig og var ekkert OECD ríki með lægri Gini-stuðul það árið. Jöfnuður var með öðrum orðum mestur á Íslandi.

Frá þeim tíma hefur Gini-stuðullinn lækkað og í fyrra var hann 23,6 stig hér á landi. Ekki liggja fyrir tölur frá OECD um stöðuna í öðrum ríkjum, en ekki er óvarlegt að gera ráð fyrir því að Ísland hafi varið stöðu sína sem það land innan OECD þar sem jöfnuður er mestur.

Í þessu ljósi er óskiljanlegt að sjá forsvarsmenn stjórnarandstöðuflokkanna og skoðanabræður þeirra í fjölmiðlum reyna að hamra á því að ójöfnuður sé hér of mikill og fari vaxandi. Hér hefur áður verið rifjað upp það sem Jón Daníelsson hagfræðingur sagði á ársfundi Samtaka atvinnulífsins. Þar sagði hann að færa mætti fyrir því rök að tekjujöfnuður væri hér of mikill.

Munurinn á tekjum þeirra sem fara í háskólanám og þeirra sem hætta að loknum grunnskóla sé hreinlega ekki nógu mikill til að réttlæta þá ákvörðun að fara í framhaldsnám. Tekjujöfnuðurinn þurfi að aukast til að búa til hvata fyrir fólk til að mennta sig á sviðum þar sem raunveruleg þörf er fyrir fleira fólk.

Hvort sem þetta er rétt hjá Jóni þá þurfa stjórnarandstæðingar, innan þings og utan, að finna sér aðra trommu til að berja en jafnaðartrommuna. Hún er fyrir löngu búin að ganga sér til húðar.

Stikkorð: Hagstofan jöfnuður Gini-stuðull Tromma
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.