*

þriðjudagur, 2. júní 2020
Huginn og muninn
26. október 2019 11:03

Yfirmáta gamaldags hugsun

Samfylkingin hefur„lent" í því að kynjakvótar lyfti körlum upp framboðslista og því hefur reglum verið breytt.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Haraldur Guðjónsson

Logi Einarsson og félagar hans í Samfylkingunni hafa breytt reglum sínum um val á framboðslista flokksins. Á flokksstjórnarfundi um síðustu helgi var tillaga um kvennakvóta í stað kynjakvóta samþykkt. „Þetta er gert til þess að kynjakvótar hætti að vernda hlutfall karla sérstaklega,“ sagði Þórarinn Snorri Sigurgeirsson, annar flutningsmanna tillögunnar í samtali við Vísi.

„Við höfum lent í því síðustu misseri að kynjakvótarnir voru farnir að lyfta körlum. Það tel ég vera farið að snúast í andstöðu við upphaflegan tilgang kynjakvótanna eða eins og þeir voru væntanlega hugsaðir á sínum tíma.“ Þannig að tilgangurinn með kynjakvótunum var sumsé aldrei að auka jafnrétti?

Hröfnunum þykir þessi samþykkt flokkstjórnarfólks Samfylkingarinnar og hugsunin á bakvið hana yfirmáta gamaldags og bera vitni um svarthvíta veröld þeirra sem hana samþykktu. Sífellt fleiri upplifa sig utan hinnar hefðbundnu karlkyns/kvenkyns skilgreiningar. Má nefna fólk, sem er kynsegin að sé nú talað um þá sem upplifa sig af röngu kyni — transfólk. Hægt væri að taka fleiri dæmi en látum þessi duga.

Hrafnarnir fá ekki betur séð en að Samfylkingin sé með einhverjum hætti að takmarka frelsi einstaklingsins til að skilgreina sig og sitt kyn. Samfylkingarfólkið er að gera tilraun til þess að hólfa margbreytilegan raunveruleika niður í form sem hentar ekki mannverunni sem um ræðir hverju sinni. Tekið var á þessu í frumvarpi til laga um mannanöfn fyrir nokkrum misserum, þar sem fram kom að það væri ekki hlutverk löggjafans að skilgreina hvað eru kvenmannsnöfn eða karlmannsnöfn. Fyrst löggjafinn telur það ekki sitt hlutverk að takmarka frelsi einstaklinga til að skilgreina sig og sitt eigið kyn hvers vegna er þá Samfylkingin á þeirri vegferð?

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.