Sessunautur með munnræpu hefur lengi verið eitt helsta áhyggjuefni flugfarþega. Enda líklega fáir sem eru til í að verja nokkrum klukkutímum í að ræða málefni líðandi stundar við ókunnugt fólk. Kannski hefur dregið aðeins úr símasandi farþegum eftir að athugasemdakerfi netmiðlanna komu til sögunnar því það er ekki ólíklegt að þeir sem leggja oftast orði í belg þar séu þeir sömu og taka samferðafólkið í gíslingu. En nú styttist í að önnur tegund af málóðum einstaklingum reyni á taugar sessunauta sinna um borð. Þráðlaust net í flugvélum verður sífellt algengara og þá gefst fólki tækifæri á að drepa tímann með því að hringja heim með forritum eins og Skype og Facetime.

Það er auðvelt að sjá fyrir sér karlkyns farþega sem hringir í konuna sína og fer í gegnum snyrtivöruhluta sölubæklingsins með henni. Biður jafnvel flugfreyjuna um að segja henni frá úrvalinu. Og hressu vinirnir í morgunfluginu sem panta sér bjór og skála svo við félagana heima. Ekki má heldur gleyma ógninni sem stafar af viðskiptaferðalöngum sem gætu freistast til að nýta ferðalagið í símafundi.

Ég viðurkenni hér með að í fyrsta skipti sem ég settist upp í nettengda flugvél þá hringdi ég myndsímtal til vinar míns. Aldrei áður hef ég upplifað mig eins og persónu í vísindaskáldsögu.

Það var nefnilega mjög óraunverulegt að hringja úr háloftunum. En símtalið var stutt því vinur minn var sannfærður um að þetta hlyti að vera bannað. Sem það er auðvitað ekki – ennþá. Þess er kannski ekki langt að bíða að sígarettuljósunum fyrir ofan sætin verði skipt út fyrir mynd af síma með krossi yfir. Og í upphafi flugferðar munu áhafnir benda farþegum á að netsambandið megi aðeins nota til að horfa, hlusta og skrifa. Háar sektir bíði hins vegar þeirra sem tala. Áður en því kemur gefst sennilega öllum flugfarþegum tækifæri til að hringja í ástvini á jörðu niðri og spyrja: „Hvaðan heldurðu að ég hringi?“

Pistill Kristjáns birtist í Viðskiptablaðinu 17. október 2013. Áskrifendur geta nálgast blaðið í heild hér að ofan undir liðnum tölublöð .