*

sunnudagur, 16. júní 2019
Unnur Gunnarsdóttir
4. janúar 2019 13:15

Hvaðan kemur þessi áhersla á stjórnarhætti og orðspor?

Óhófleg áhættutaka kerfislega mikilvægra fjármálafyrirtækja er almennt talin ein helsta orsök fjármálaáfallsins sem reið yfir hinn vestræna heim fyrir tíu árum síðan.

Haraldur Guðjónsson

Óhófleg áhættutaka kerfislega mikilvægra fjármálafyrirtækja er almennt talin ein helsta orsök fjármálaáfallsins sem reið yfir hinn vestræna heim fyrir tíu árum síðan. Alþjóðastofnanir, svo sem G20 og Evrópusambandið, brugðust hratt við og beittu sér fyrir mun strangari kröfum um magn og gæði eiginfjár, áhættustýringu og stjórnarhætti. Lagaumhverfi fjármálamarkaðarins var tekið til gagngerrar endurskoðunar og eftirlit styrkt. Þótt stundum sé látið að því liggja að íslensk stjórnvöld hafi farið fram úr sér í hertum kröfum til fyrirtækja og stjórnenda á fjármálamarkaði er staðreyndin sú að viðbrögðin um alla Evrópu hafa verið af svipuðum toga og þaðan kemur langstærstur hluti þess regluverks sem er í gildi á Íslandi. Viðfangsefnin er þau sömu hér og annars staðar í Evrópu og framkvæmd eftirlitsins er í samræmi við það sem gert er annars staðar á EES-svæðinu. 

Eitt af því sem hefur gjörbreyst á síðastliðnum 10 árum eru þær kröfur sem gerðar eru til stjórnarmanna og stjórnenda fyrirtækja á fjármálamarkaði. Nú er þess til að mynda krafist að stjórnarmenn og framkvæmdastjórar fjármálafyrirtækja, vátryggingafélaga og lífeyrissjóða standist hæfniskröfur, sem snúa að þekkingu þeirra, reynslu og orðspori. Þá á stjórn fyrirtækis á fjármálamarkaði að leggja mat á samsetningu stjórnarinnar og tryggja að hún búi sameiginlega yfir nægilegri þekkingu, hæfni og reynslu. Enn fremur skulu stjórnarmenn hljóta viðeigandi kynningu og þjálfun og verja fullnægjandi tíma í stjórnarstörf sín. Eru þá ótaldar kröfur um aukið gagnsæi í stjórnskipulagi og áhersla á aukna ábyrgð móðurfélags á stjórnarháttum í samstæðu og hlutverk og ábyrgð stjórnar og stjórnenda í mótun áhættumenningar, innra eftirliti og áhættustýringu. Oft er talað um að „toppurinn gefi tóninn“ og hve þýðingarmikill hann er í mótun menningar fyrirtækis. 

Fjármálaeftirlitinu hefur verið falið að hafa eftirlit með því að þessum kröfum sé mætt. Eftirlitið felst í athugunum á öllum ofangreindum þáttum, svo sem viðvarandi mati á hæfi stjórnarmanna og framkvæmdastjóra, athugunum á skilvirkni og starfsemi stjórnar og hvort hún verji nægjanlegum tíma í að fjalla um helstu áhættuþætti, áhættumenningu, áhættustýringu og innra eftirlit. 

Einhverjum þykir ef til vill að með þessu sé opinberum aðilum falið að hafa of mikil afskipti af mönnun og stjórnun einkafyrirtækja. Reynslan sýnir hins vegar að brýn þörf er á skýrum kröfum og sterku aðhaldi með aðilum á fjármálamarkaði. Það á ekki síst við um þá aðila sem hafa verið skilgreindir sem kerfislega mikilvægir, sem með aðgerðum sínum eða aðgerðaleysi geta haft afgerandi áhrif á lífskjör almennings, líkt og við Íslendingar þekkjum vel. Í nýlegri skýrslu frá G20 er mælt með að ríki setji sér lög um ábyrgð kerfislega mikilvægra fyrirtækja á fjármálamarkaði á því að þau valdi ekki með ákvörðunum sínum félagslegu eða umhverfislegu tjóni. Í ljósi sögunnar gerir almenningur nú ríkar kröfur til þessara aðila um vandaða stjórnarhætti og gott orðspor enda sýnir reynslan að stjórnarhættir, áhættuvilji og áhættumenning fyrirtækja hafa jafnan mikil áhrif á viðskiptahætti og viðskiptamódel þeirra. 

Margar bækur og skýrslur hafa verið skrifaðar þar sem leitast er við að draga lærdóm af því sem gert var í aðdraganda hrunsins. Í nýlegri bók Þórðar Snæs Júlíussonar um Kaupþing, Kaupthinking, má til dæmis lesa um þá áhættumenningu sem ríkti innan bankans á árunum fyrir fall hans. Kostnaðurinn sem af þessari skaðlegu áhættumenningu hlaust var ærinn, bæði fyrir almenning sem tók á sig mikla lífskjaraskerðingu og skuldbindingar í hruninu, og æðstu stjórnendur bankans, sem sumir hverjir hafa hlotið þunga refsidóma. 

Peningaþvættismál Danske Bank, stærsta banka Danmerkur, vakti einnig meiri athygli en flest önnur mál í fjármálakerfinu árið 2018 en rökstuddur grunur leikur á að útibú bankans í Eistlandi hafi verið notað til að þvætta fjármuni að jafnvirði um 29 þúsund milljarða íslenskra króna á árunum 2007-2015. Rannsóknir og eftirgrennslan stjórnvalda í Danmörku hafa sýnt að stjórnarháttum og innra eftirliti bankans var verulega ábótavant. Margir hafa þurft að axla ábyrgð vegna þessa enda hefur hlutabréfaverð í Danske bank fallið um nærri 50% frá því um síðustu áramót. Mál Danske Bank er bæði víti til varnaðar og áminning um að rík ástæða er til að vera vakandi fyrir skaðlegri áhættumenningu og hugsanlegum afleiðingum hennar. 

Stjórn og stjórnendur á fjármálamarkaði bera ábyrgð á stjórnarháttum fyrirtækja sinna og eiga að vera leiðandi afl í mótun heilbrigðrar áhættumenningar. Stjórn og stjórnendur hafa mikil völd og áhrif og því fylgir að uppfylla þarf kröfur um hæfi, reynslu, þekkingu og ekki síst kröfur um að beita sér og bregðast við þegar á reynir. Hertar kröfur um stjórnarhætti hafa þannig skýran tilgang og stuðla að heilbrigðari og traustari fjármálamarkaði.

Höfundur er forstjóri Fjármálaeftirlitsins.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is