Eignarhaldsfélagið Kóngsbakki, sem er í eigu hjónanna Gunnars Örlygssonar og Guðrúnar Hildar Jóhannsdóttur, hefur minnkað við hlut sinn í flugfélaginu Play eftir að hafa aukið við hann í febrúar. Félagið á nú ríflega 1,3% félaginu en átti eftir síðustu kaup um 2%. Gunnar hefur verið umsvifamikill fiskverkandi og útflytjandi undanfarna áratugi en seldi í fyrra hlut starfsemi sinnar.

Eins og flestir vita er Gunnar einn helsti stuðningsmaður körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur enda var hann afreksmaður með liðinu um árabil. Hann hefur haft fulla ástæðu til þess að fagna glæsilegum árangri kvennaliðs Njarðvíkur sem tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn á dögunum. En árangur karlaliðsins olli mörgum vonbrigðum því þrátt fyrir stjörnum prýtt lið féllu Njarðvíkingar úr leik í undanúrslitum körfuboltans á dögunum og því velta sumir meðlimir körfuknattleiksfjölskyldunnar fyrir sér hvort sala þeirra hjóna sé til marks um að karlaliðið verði styrkt enn frekar fyrir næsta haust.

Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .