Það er merkilegt að málshöfðun Embættis landlæknis gegn fyrirtækinu Köru Connect o.fl. hafi ekki vakið meiri athygli. Kara Connect kærði endurtekin viðskipti embættisins við nokkur félög í áratugaraðir til kærunefndar útboðsmála, enda höfðu téð viðskipti, sem hlaupa á fleiri milljörðum króna, ekki verið boðin út lögum samkvæmt.

Fór svo að úrskurðurinn féll Köru Connect að hluta í vil, með afdráttarlausum hætti. Viðskiptahættir embættisins fá í úrskurðinum þvílíka falleinkunn að leitun er að öðru eins. Þar kemur fram að embættið hafi stundað umfangsmikil og síendurtekin viðskipti, án undanfengis kostnaðarmats eða mats á því hvort útboðsskylda ætti við. Voru viðskiptin aukinheldur gerð án skriflegra samninga sem embættinu bar lögum samkvæmt, um þau voru ekki einu sinni gerð minnisblöð.

Bar embættið m.a. fyrir sig að félögin sem það keypti þjónustu af hefðu í gegnum árin aflað sér þekkingar til að vinna með frumkóða kerfanna sem aðrir hefðu ekki, jafnvel þótt embættið ætti sum kerfanna og frumkóða þeirra. Vandamálið við þetta er að engir aðrir fengu tækifæri til að vinna með þá og getur það varla komið i veg fyrir útboðsskyldu að embættið hafi sjálft læst sig inn í viðskiptasamböndum með því að leita alltaf til sömu fyrirtækjanna án þess að hleypa öðrum fyrirtækjum að borðinu.

Týr er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út 1. september 2022.