*

föstudagur, 5. júní 2020
Týr
23. apríl 2020 18:48

Hvar eru brúarlánin?

Innan atvinnulífsins óttast margir að skilyrði fyrir brúarlánunum verði svo stíf að fáir muni geta nýtt sér úrræðið.

Frá kynningu á aðgerðarpakka tvö í Safnahúsinu.
Eyþór Árnason

Í atvinnulífinu gætir nú töluverðar óþreyju vegna þess hversu langan tíma það hefur tekið að útfæra brúarlánin svokölluðu, sem kynnt voru í fyrsta aðgerðarpakka ríkisstjórnarinnar fyrir rúmum mánuði síðan. Furða margir sig á því að aðgerðarpakki tvö hafi verið kynntur áður en búið væri afgreiða það sem kynnt var í fyrsta pakkanum.

                                                                 ***

Heildaráhrif brúarlánanna eru metin á 80 milljarða króna. Fyrst þegar þau voru kynnt átti ríkið að ábyrgjast 50% fjárhæðarinnar og viðskiptabanki viðkomandi fyrirtækis 50%. Var þessu síðan breytt þannig að nú er 70% ríkisábyrgð á lánunum.

                                                                 ***

Á föstudaginn í síðustu viku, eða tæpum mánuði eftir að brúarlánin voru fyrst kynnt, undirrituðu fjármála- og efnahagsráðuneytið og Seðlabanki Íslands samning um skilmála við framkvæmd á veitingu lánanna. Á morgun verður sem sagt liðin vika síðan þessi samningur var undirritaður og enn hefur ekki eitt lán verið veitt enda ekki búið að móta skilyrðin sem fyrirtækin þurfa að standast. Er sú vinna í höndum embættismanna en bankarnir munu þó einnig hafa aðkomu að henni.

                                                                 ***

Samkvæmt því sem Týr hefur heyrt óttast forsvarsmenn fyrirtækja, sem þurfa á fjármagni að halda vegna áhrifa heimsfaraldursins á hagkerfið, að skilyrði fyrir veitingu lánanna verði alltof ströng. Einn viðmælandi Týs segir að miðað við skilaboðin sem hann hafi fengið frá sínum banka væri útlit fyrir að „einungis Landsvirkjun og Landsbankinn myndu standast skilyrðin".

                                                                 ***

Hefur Týr heyrt að innan bankakerfisins ríki líka töluverð óánægja með seinaganginn. Ekki bara það heldur óttast bankamenn að þeir verði á milli steins og sleggju loks þegar útfærsla brúarlánanna verður klár og umsóknir fara að hrúgast inn og ákveða þarf hverjir eiga að fá lán og hverjir ekki.

                                                                 ***

Í aðgerðarpakka tvö, sem kynntur var í vikunni, var annað lánaúrræði kynnt. Ríkið mun veita stuðningslán til smærri fyrirtækja og nemur heildarfjárhæðin 28 milljörðum króna. Hvert fyrirtæki mun að hámarki geta fengið 6 milljónir. Lánstíminn er tvö og hálft ár en fyrirtækin munu þurfa að byrja að greiða af láninu eftir 18 mánuði. Þetta þýðir að haustið 2021 munu fyrirtækin, sem kannski eru rétt farin að sjá til lands, þurfa að borga lánsfjárhæðina tilbaka á 12 mánuðum. Eftir því sem Týr heyrir verða skilyrðin fyrir þessum stuðningslánum eingöngu mótuð af embættismannakerfinu. Full ástæða er til að hafa áhyggjur af því.

                                                                 ***

Týr furðar sig á þessum vinnubrögðum. Hvers vegna eiga fyrirtæki að borga eftir 18 mánuði. Hver dró þá tölu upp úr hattinum? Afhverju ekki að leyfa fyrirtækjum að borga tilbaka þegar þau erum komin almennilega á fætur.

                                                                 ***

Talandi um að draga tölur upp úr hatti. Hvers vegna á einungis að veita 80 milljarða brúarlán? Hver eru rökin fyrir því? Afhverju ekki 180 eða 280? Og fyrst ríkið er reiðubúið að tapa peningum með því að gangast í ábyrgðir fyrir lánum, afhverju ekki bara að veita styrki?

                                                                 ***

Ríkisstjórnin fór ágætlega af stað í þessari krísu. Á það sérstaklega við um hlutastarfaleiðina, sem kom til framkvæmda nánast um leið og hún var kynnt fyrir rúmum mánuði síðan. Eftir það hefur því miður ekkert gerst — ekkert sem máli skiptir í stóra samhenginu. Á meðan eru stjórnendur fyrirtækja nú í Excel að reikna hversu mörgum þurfi að segja upp um mánaðamótin til að ná endum saman — það eru jú bara nokkrir dagar í þau. Sum fyrirtæki verða væntanlega orðin tæknilega gjaldþrota um mánaðamótin.

                                                                 ***

Það sorglega er að einhver þessara fyrirtækja eru vel rekin. Þau ráða einfaldlega ekki við þær hamfarir sem nú ganga yfir því eins og oft hefur verið sagt þá eru þetta hamfarir miklu frekar en hefðbundin kreppa.

                                                                 ***

Stjórnvöld þurfa að vakna og skoða hvað nágrannalöndin okkar eru að gera í stað þess að hafa áhyggjur af skuldastöðu ríkissjóðs. Sama hvað leið verður farin þá er alltaf einhver fórnarkostnaður. Menn virtust sætta sig við þetta þegar hlutastarfaleiðin var kynnt en síðan er bara eins og stigið hafi verið á bremsuna.

                                                                 ***

Síðan er það þríeykið, guð blessi það, en á það alfarið að vera í þeirra höndum hvort hagkerfið verður keyrt af stað á ný eða ekki. Með því er verið að velta alltof mikilli ábyrgð á þau og það er ósanngjarnt gagnvart þeim og okkur hinum.

                                                                 ***

Á endanum stöndum við nefnilega frammi fyrir risastórri siðferðislegri spurningu. Við erum búin að kollvarpa veröldinni eins og við þekkjum hana á síðustu vikum en ætlum við að gera það í langan tíma í viðbót? Ef svarið er já þá er það ekki síður dauðans alvara en hitt. Á einhverjum tímapunkti verðum við að svara þessari spurningu. Það getur skipt miklu máli hvenær það verður gert og það skiptir öllu máli hver rökin eru.

Týr er skoðanadálkur.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.