Við nálgumst nú enn einn topp hagsveiflunnar og því ekki úr vegi að staldra við og velta því fyrir okkur hvar við erum stödd. Hvernig hefur samfélagið þróast á þessu lengsta hagvaxtarskeiði Íslandssögunnar? Erum við sátt við heilbrigðismálin, húsnæðismálin, velferðina almennt, tekjuskiptinguna og stöðu launafólks? Til að varpa ljósi á þetta er áhugavert að draga upp nokkrar sviðsmyndir.

Heilbrigðismál

Enginn vafi er á því að þjóðin vill setja heilbrigðismálin í hæsta forgang og lítill vilji er til að auka einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni. Almenn samstaða er um að tryggja beri greiðan aðgang að þjónustu heilbrigðisstofnana og lyfjum án þess að efnahagur einstaklingsins ráði för. Í aðdraganda síðustu alþingiskosninga skrifuðu meira en 80.000 manns undir áskorun til stjórnmálamanna um að setja heilbrigðismálin í forgang. Hvernig stendur á því að heilbrigðisþjónustan er enn fjársvelt og kostnaður sjúklinga of mikill?

Öldrunarmál

Fyrir liggur að öldruðum á Íslandi mun fjölga hratt á næstu árum og augljóst að fjöldi þeirra sem þurfa á þjónustu hjúkrunarheimila að halda mun margfaldast. Þrátt fyrir það hreyfast þessi mál á hraða snigilsins, biðlistar eftir brýnni þjónustu lengjast stöðugt og áform um uppbyggingu á næstu árum eru langt frá því að mæta fyrirséðri þörf.

Húsnæðismál

Eftir tveggja áratuga baráttu tókst verkalýðshreyfingunni að koma aftur á laggirnar félagslegu húsnæðiskerfi með beinum framlögum ríkis og sveitarfélaga. En þrátt fyrir augljósan húsnæðisvanda fjölmargra og margra ára biðlista eftir öruggu húsnæði er ekki vilji til þess að setja nægilegan kraft í uppbyggingu almennra leiguíbúða. Þvert á móti er áfram þrengt að þessum hópi með því að rýra verðgildi húsnæðisbóta þannig að óvíst er hvort hægt verði að standa við fyrirheit um að húsnæðiskostnaður þeirra verði viðráðanlegur.

Ungt fólk og útlendingar

Íslenskt hagkerfi er algerlega háð því að fá hingað til lands vinnufúsar hendur erlendis frá. Jafnframt hefur ungt fólk sinnt mikilvægu hlutverki á vinnumarkaði samhliða námi. Réttindi þessara hópa eru þó oft fótum troðin á vinnumarkaði. Með samstarfsverkefni ASÍ og aðildarfélaganna undir heitinu ,,Einn réttur – ekkert svindl!‘‘ hefur verkalýðshreyfingin freistað þess að verja rétt þessara hópa og tryggja þeim umsamin laun og réttindi. Það má hins vegar alveg spyrja sig hvers vegna þetta viðgengst – hvers vegna telja sumir atvinnurekendur að þeir geti skapað sér ,,samkeppnisforskot‘‘ eða aukinn hagnað með því að svindla á fólki?

Ríkið ræðst að tekjulágum

Verkalýðshreyfingin hefur lagt á það áherslu á síðustu árum að bæta stöðu þeirra tekjulægstu með því að hækka lágmarkslaun umfram meðallaun. Á sama tíma hafa stjórnmálamenn tekið ávinninginn til baka með skerðingum á skattleysismörkum og lækkun barna- og húsnæðisbóta.

Atvinnuleysisbætur skertar

Atvinnuleysisbætur hafa frá upphafi verið tengdar lægstu launum en eftir að Alþingi klippti á bein tengsl þeirra við kjarasamninga hafa bæturnar sem hlutfall af lægstu launum lækkað verulega og eru nú einungis 78% og hafa aldrei verið lægri.

Fullorðinsfræðsla

Margir hafa ekki fengið tækifæri til þess að ljúka formlegu námi á framhaldsskólastigi. Þrátt fyrir að kostnaður við rekstur framhaldsskóla hafi hækkað gríðarlega undanfarin ár hefur Alþingi ekki aukið framlög til Fræðslusjóðs sem sinnir fullorðinsfræðslu sem neinu nemur og í reynd skorið framboð af vottuðu námi fyrir fullorðið fólk verulega niður. Þegar HB Grandi lokaði botnfiskvinnslu sinni á Akranesi eða mörg önnur fiskvinnslufyrirtæki vítt og breitt um landið blasti við gríðarleg endurmenntunarþörf en hvorki menntamálaráðherra né vinnumarkaðsráðherra brugðust þannig við heldur var fólkinu bent á að flytjast búferlum.

Störf framtíðarinnar

Ný tækni breytir vinnumarkaðnum á ógnarhraða og við getum velt því fyrir okkur hvort við erum í raun að undirbúa börnin okkar fyrir þau störf sem verða til á næstu árum. Erum við að gefa fullorðnu fólki á vinnumarkaði nauðsynleg tækifæri til þess að endurmennta sig til að geta mætt þessari framtíð?

Ljóst er að við höfum verk að vinna á ýmsum sviðum velferðar til að tryggja öllum réttláta hlutdeild í hagsældinni. Alþýðusambandið hefur um árabil krafist þess að tengt verði með markvissum hætti á milli þess sem við köllum félagslegur stöðugleiki og hins efnahagslega stöðugleika. Ef stjórnmálamenn og atvinnurekendur vilja gera sér von um að almenningur axli meiri ábyrgð á hinum efnahaglega stöðugleika verður félagslegur stöðugleiki að fylgja með í pakkanum. Almenningur í landinu á allan rétt á því að búa við öryggi í afkomu sinni, njóta almennrar velferðar og geta verið viss um að samfélagið aðstoði ef til alvarlegra áfalla kemur. Skilningsleysi á þessu gerir það að verkum að vantraustið vex sem aldrei fyrr.

Höfundur er forseti Alþýðusambands Íslands.