Félagsfræðingurinn ég er búinn að emja um af hlátri af atriði úr Áramótaskaupinu, þar sem tveir einstaklingar eru alveg búnir að missa alla félagsfærni. Hver tengir ekki við þetta atriði?

Ef við skoðum þetta í fræðilegu samhengi, þá hafa rannsóknir á föngum, einsetumönnum, hermönnum, geimförum, heimskautafólki og öðrum sem hafa eytt löngum tíma í einangrun bent til að félagsfærni sé eins og vöðvi sem rýrni vegna skorts á notkun. Fólk, sem er aðskilið frá samfélaginu, segir að það finni fyrir félagslegum kvíða, hvatvísi og óþoli þegar það snýr aftur að venjulegu lífi.

Sálfræðingar og taugafræðingar segja að svipað sé að gerast hjá okkur öllum núna í heimsfaraldrinum. Við erum lúmskt en óumdeilanlega að missa lipurð í félagslegum aðstæðum, hvort sem við erum meðvituð um það eða ekki. Merkin eru alls staðar.

Stephanie Capioppo, forstöðumaður Brain Dynamics Laboratory við Háskólann í Chicaco, bendir á að þegar við erum tekin burt frá öðrum, túlki heilinn okkar það sem lífshættu. Að vera einmana eða einangraður er eins mikið líffræðilegt merki og hungur eða þorsti. Og rétt eins og að borða ekki þegar þú ert sveltur eða drekka þegar þú ert ofþornaður, þá geta samskipti við aðra þegar þú ert einmana leitt til neikvæðra vitrænna og tilfinningalegra áhrifa. Annar fræðimaður, Craig Haney, sálfræðiprófessor við háskólann í Kaliforníu, hefur rannsakað áhrif einangrunar á vistmenn. Hann segir að fólki sem líði óþægilega með annað fólk sé svipað og þegar því sé neitað um eðlislæg félagsleg samskipti, sem við séum svo háð.

Jafnvel þó þú umgangist fjölskylduna í heimsfaraldrinum, geturðu samt verið einmana, þar sem þú færð kannski ekki þessi frjálslegu samskipti sem voru alltaf hluti af þínu lífi. Svo ferðu loksins út, hittir fólk á förnum vegi, í göngutúr, eða í vinnuna og áttar þig á að þú ert eins og kjáni í samskiptum.

Í einangrun, fer heilinn okkar í lifunarham, sem dempar getu okkar til að þekkja og bregðast við á viðeigandi hátt við næmi og margbreytileika sem felast í félagslegum aðstæðum. Í staðinn verðum við of vakandi og ofnæm, og tilbúin í átök. Við byrjum að finna til sjálfsmeðvitundar og forðumst samskipti í eigin persónu.

Lykilatriði til að stjórna þessari einangrunartilfinningu er að vera í samskiptum við fólk, með hvaða hætti sem mögulegt er. Og þegar hlutirnir fara að verða eðlilegir, verðum við að hafa þolinmæði, bæði gagnvart okkur sjálfum og öðrum.

Gefum hvort öðru séns þó við verðum eins og „kjánar" í samskiptum eftir alla þessa einveru.

Höfundur er BA í atvinnulífsfélagsfræði, MBA og meðeigandi Attentus.