*

þriðjudagur, 2. júní 2020
Óðinn
10. desember 2019 18:02

Horfin síld, lífeyriskerfið og níðskrif

Rök gegn afnámi tekjuskerðingar ellilífeyris eru að það myndi kosta ríkissjóð samtals um 62 milljarða króna.

Í kjölfar kreppunnar við hrun síldarstofnsins 1967 var gripið til þeirra efnahagsráðstafana, sem menn þá kunnu: gengisfellinga. Árin 1967 og 1968 var gengi íslensku krónunnar fellt samanlagt um helming. Fyrri gengisfellingin var í nóvember 1967. Þá var gengið fellt um 24,6%. Sú seinni var haustið 1968 og þá var það fellt um 35,2%. Fjármunir landsmanna rýrnuðu því svo að segja jafnmikið og síldaraflinn á þessum árum.

                                                                  ***

Greiðslur almannatryggingakerfisins voru ekki háar fyrir gengisfellingarnar en eftir þær nam ellilífeyrinn aðeins 17% af launum verkamanns!

                                                                  ***

Öllum var ljóst að við svo búið mætti ekki standa og nánast þjóðaröryggismál að koma lífeyrismálum í betra horf hjá hinni nýríku þjóð, sem á einni öld hafði komist frá því að vera fátækasta land Evrópu í að vera í 18. sæti á heimsvísu yfir landsframleiðslu á mann.

                                                                  ***

Árið 1969 sömdu aðilar almenna vinnumarkaðarins um að setja á stofn lífeyrissjóði með skylduaðild og skyldu greiðslur hefjast í ársbyrjun 1970. Ljóst var að kerfið myndi ekki gagnast þeim sem áttu styttra eftir af starfsævinni. Því fengu félagar verkalýðsfélaganna, sem höfðu verið virkir á vinnumarkaði í ákveðinn lágmarkstíma og fæddir fyrir 1914, sérstakar eftirlaunagreiðslur. Talið er að þetta sérákvæði hafi tvöfaldað ellilífeyri til þessa hóps sem hóf að taka eftirlaun í byrjun áttunda áratugarins.

                                                                  ***

Árið 1974 var gengið lengra í uppbyggingu lífeyriskerfisins og sett lög sem skylduðu alla launamenn og atvinnurekendur að greiða að lágmarki 10% iðgjald í lífeyrissjóð. Árið 1980 var lögunum enn breytt og sjálfstætt starfandi einstaklingar teknir inn í kerfið. Þar með var þó ekki öll sagan sögð. Ríkisskattstjóri túlkaði tekjuskattslögin þannig, að mótframlag sjálfstætt starfandi manna væri óheimilt að draga frá tekjum á sama tíma og annars konar fyrirtækjum var það heimilt. Þetta varð þess valdandi að þeir sem voru sjálfstætt starfandi — þá algengt rekstrarform hjá t.d. sérfræðilæknum, arkitektum, lögfræðingum, endurskoðendum, verkfræðingum — fóru þá leið að reikna sér lægra endurgjald fyrir vinnu sína en ella, en þar af leiðandi greiddu þeir einnig lægra framlag í lífeyrissjóð.

                                                                  ***

Auðvitað voru ekki rök fyrir þessari mismunun og óskiljanlegt að ráðherra málaflokksins eða Alþingi skyldi ekki leiðrétta þessa einkennilegu og skaðvænlegu túlkun skattyfirvalda. Síðar kom enda í ljós að lagatúlkun ríkisskattstjóra stóðst ekki en henni var hafnað í Hæstaréttardómi nr. 1996:4248. Þar sagði Hæstiréttur að það væri meginregla í skattarétti að öll gjöld, sem færu í að afla tekna, tryggja þær og halda þeim við, komi almennt til frádráttar frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Allar undantekningar frá þeirri reglu yrðu að vera skýrar og ótvíræðar.

                                                                  ***

Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, skrifaði grein í Morgunblaðið í febrúar, þar sem hún sagði tekjutengingu bóta mun meiri hér á landi en í samanburðarríkjunum. Skoðun Þóreyjar, og þá væntanlega stjórnar landssamtakanna, var sú að það ætti að minnka tekjutengingar. Í greininni sagði Þórey:

„Tekjuskerðing almannatrygginga gagnvart eldri borgurum og öryrkjum er alls ekki sjálfsögð og því síður að hún teljist vera einhvers konar samfélagslögmál sem verði ekki brotið frekar en sjálft náttúrulögmálið. Tekjuskerðingunni var komið á með pólitískri ákvörðun og henni verður ekki breytt eða hún afnumin nema með pólitískri ákvörðun.”

                                                                  ***

Óðinn saknar þess í grein Þóreyjar að þar eru engin rök færð fyrir því að minnka tekjutengingar. Samanburður við önnur lönd eru ekki rök, þó hann geti verið umhugsunarverður, en þá verður að hafa í huga að íslenska lífeyriskerfið er allt öðru vísi (og skynsamlegar) upp byggt en í samanburðarlöndunum. Það að 13 þúsund aldraðir fái ekki greiðslur frá Tryggingastofnun, eins og Þórey heldur fram í greininni, eru ekki heldur rök fyrir minni tekjutengingum.

                                                                  ***

Ólíkt eðli íslenska lífeyriskerfisins og samanburðarlandanna skiptir máli. Í öðrum löndum OECD eru gegnumstreymissjóðir reglan, með þeirri afleiðingu að nú stefnir í hrein óefni í mörgum þróuðum ríkjum. Magnþrungnar breytingar hafa orðið á lýðfræðilegri samsetningu þjóðanna — nýrri kynslóðir eru fámennari en fyrr, en minna slit á starfsævinni og framfarir í læknavísindum og umönnun gera það að verkum að fólk lifir mun lengur nú en fyrir nokkrum áratugum. Það tekur því lífeyri miklu lengur en fyrr. Þessi þróun í gegnumstreymiskerfunum, að æ færri standi undir lífeyrisgreiðslum til æ fleiri, ýtir lífeyriskerfunum þar jafnt og þétt fram að hengifluginu.

                                                                  ***

Öfugt við það sem gerist í flestum öðrum þróuðum hagkerfum er íslenska lífeyrissjóðakerfið nákvæmlega það: sjóðakerfi. Það byggist á eiginlegum sjóðum, sjóðmyndunarsjóðum (uppsöfnunarsjóðum). Það er því allt annars eðlis en gerist í samanburðarlöndunum og er mjög ónæmt fyrir breytingum á lýðfræðilegri samsetningu þjóðarinnar. Hins vegar er það nokkuð útsett fyrir breytingum á fjármagnsmarkaði. Lífeyrissjóðirnir eru auk þess samtryggingarsjóðir, svo iðgjöldin veita lífeyrisréttindi en ekki eiginlega eign. Í séreignarsjóðunum mynda menn hins vegar eigin eign með greiðslu iðgjalda. Gegnumstreymissjóðir eru þó ekki óþekktir á Íslandi, almannatryggingar byggja á þeirri aðferð og segja má að opinberu lífeyrissjóðirnir séu það óbeint á reikning skattborgara.

                                                                  ***

Því hefur verið haldið fram að hugmyndin með lífeyriskerfinu hafi ekki verið sú að ellilífeyrir frá ríkinu hyrfi. Það er rétt. En þá voru líka allt aðrar hugmyndir um framlög til lífeyrissjóða. Í upphafi voru þau aðeins 10% af dagvinnulaunum. Um áramótin verða þau orðin 15,5% af heildarlaunum. Það verður án efa leiðrétt fyrr en seinna. Ef launþegi greiðir alla starfsævina í lífeyrissjóð mun hann fá um 90% af launum sínum og 120-130% með 4% viðbótarsparnaði.

                                                                  ***

Rök gegn afnámi tekjuskerðingar eru hversu mikið það myndi kosta ríkissjóð. Það myndi kosta 42,4 milljarða króna. Þar á ofan bætast um 6 þúsund manns, sem eru orðin 67 ára, en hafa ekki fengið ákvarðaðan lífeyri hjá Tryggingastofnun. Í flestum tilfellum sækir fólk ekki um af því það á ekki rétt á neinum greiðslum. Væri tekjuskerðingin að fullu afnumin myndi það kosta um 20 milljarða króna til viðbótar. Samtals myndi þetta því kosta um 62 milljarða króna eða jafn mikið og að reka Landspítalann í fyrra. Það er ekkert klink eða sjálfsagt mál.

                                                                  ***

Önnur rök gegn afnámi tekjutengingar eru að þeir sem komnir eru á lífeyrisaldur eru langeignamesti hópurinn í landinu, búinn að nota starfsævina til þess að greiða upp skuldir af íbúðarhúsnæði, byggja upp eignir með atvinnurekstri eða fjárfestingum. Það er því von þó sumir spyrji hvers vegna ungt fólk eða á miðjum aldri eigi að greiða hærri skatta til tekjuhárra eða eignamikilla lífeyrisþega.

                                                                  ***

Mikilvægasta röksemdin fyrir tekjutengingu er sú ríkissjóður á ekki að aðstoða þá sem þurfa ekki á aðstoð að halda. Gleymum því ekki að ef tengingin yrði afnum yrði minna svigrún til að aðstoða þá sem aðstoðar þurfa.

                                                                  ***

Níðhöggur og Ratatoskur Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, var ósáttur við pistil Óðins fyrir tveimur vikum sem nefndist „Samherji og sameiginleg sök“. Í stuttu máli sagði Óðinn að ekki væri betur séð en að Samherji hafi greitt mútur í Namibíu. Hins vegar ættu menn að fara varlega í að dæma, bæði blaðamenn og dómarar hefðu gegnum árin gert mistök og því væri ótímabært fyrir nokkurn að fella dóma. Að auki rifjaði Óðinn upp glórulaus skrif siðfræðiprófessors norðan heiða. Það bar honum tæpast fagurt vitni, en þar ræddi eftir sem áður um hans eigin orð.

                                                                  ***

Hinn yfirvegaði ritstjóri Kjarnans tók sér stutta hvíld frá því að skrifa milljónasta leiðarann um það að ríkissjóður ætti að greiða honum laun í formi styrkja til fjölmiðla, til að skrifa leiðara. Ekki nægði að Tortóla Villi, Vilhjálmur Þorsteinsson fjárfestir, fyrrverandi gjaldkeri Samfylkingarinnar og annar aðaleigandi Kjarnans, væri með það verkefni. Í gaggi á Twitter sagði Þórður:

Óðinn í VB er með því ömurlegasta efni sem boðið er upp á í íslenskum fjölmiðlum. Hópur frekar mannfjandsamlegra, en peningaelskandi, lítilla kalla sem skrifa nafnlaust níð og sérhagsmunavarnir vikulega. Nýjasta útgáfan stendur verulega undir nafni.

                                                                  ***

Óðni þykir vænt um þessi orð. Það gleður hans gamla auga að sjá að bitrasti vinstriblaðamaður landsins hafi auðnast að finna sér enn eina og nýja ástæðu til þess að vera óánægður með veröldina. Óðinn elskar alla menn — mismikið þó — en hann elskar ekki peninga. Hins vegar er auðsæld honum að skapi, bæði meðal þjóðarinnar og þeirra einstaklinga sem landið byggja. Öfugt við Þórð Snæ sem hefur hugann meira við örbirgð og auð í annarra garði.

                                                                  ***

Það er ekki heldur svo að Óðinn hafi ástundað sérhagsmunagæslu. Í fyrrnefndum pistli var vörn Samherja ekki tekin á nokkurn hátt, heldur einmitt vikið að hinu almenna um réttargæslu og dómhörku í samfélaginu, sem mörg dæmi eru um að fornu og nýju að hafi leitt menn á gönur, ekki þjónað réttlætinu heldur beinlínis stuðlað að óréttlæti í nafni réttarríkisins og í krafti múgæsingar. Óðinn skilur því ekki frekar en oft áður hvað bitri blaðamaðurinn var að fara með þessu gaggi sínu.

Það væri því ágætt ef Þórður Snær benti á níðið í skrifum Óðins og skilgreindi kannski um leið hvað níð er í hans huga, hann virðist hafa sérþekkingu á því sviði. Lesendum til hægðarauka ætlar Óðinn þó að nefna dæmi um það úr frétt á mbl.is frá 27. nóvember 2007:

Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands hefur vísað frá máli, sem kært var til hennar vegna ummæla á bloggsíðu. Ástæða frávísunarinnar var sú, að kæran barst löngu eftir kærufrest. Samkvæmt upplýsingum frá Blaðamannafélaginu mun vera um að ræða fyrsta siðanefndarúrskurðinn, sem fjallar um einkablogg blaðamanns. Um var að ræða bloggfærslu á síðu, sem Þórður Snær Júlíusson, fyrrverandi blaðamaður Fréttablaðsins og núverandi blaðamaður 24 stunda, var skráður fyrir. Rannveig Rist, forstjóri Alcan á Íslandi, kærði til siðanefndarinnar eftirfarandi klausu, sem birtist á bloggsíðunni í febrúar á þessu ári: „Stundum get ég verið hamingjusamur. Og bersýnileg eiturlyfjaneysla Rannveigar Rist, álfrúarinnar, gleður mig óendanlega mikið. Eða ég gef mér að hún sé undir áhrifum hennar vegna því annars daðrar hún líklega við að vera þroskaheft.“ Undir sömu færslu er að finna mynd af Rannveigu skera sneið af tertu. Í myndatexta segir orðrétt: „Álfrúin sker sér sneið af contalgen tertu.“ Rannveig fór fram á undanþágu frá kærufresti enda hafi hún ekki vitað af umfjölluninni fyrr en 10. október. Siðanefnd hafnaði því að annað ætti við um birtingu á netinu en í hefðbundnum fjölmiðlum, enda væru flestir fjölmiðlar einnig aðgengilegir þar lengi eftir fyrstu birtingu. Siðanefndin tók hins vegar eftirfarandi fram: „Framangreind kærð ummæli fela í sér dómgreindarskort. Hins vegar telur siðanefndin að ummælin séu sett fram sem persónuleg skoðun eða tjáning kærða sem hann eigi lögverndaðan rétt til en beri einnig ábyrgð á. Verði hann að svara fyrir þau eftir atvikum, án þess að þau tengist beint störfum hans sem blaðamanns. Fjölmiðlar hljóti að hafa reglur sem taki á málum sem þessum, enda fer illa saman að skrifa hlutlægar fréttir á daginn um menn og málefni sem sami blaðamaður bloggar frjálslega um á kvöldin á netinu.“

Óðinn hefur engu við það að bæta.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.