*

föstudagur, 28. janúar 2022
Huginn og muninn
27. nóvember 2021 08:55

Hvenær ætlar KSÍ að fara að Vanda Sig?

Knattspyrnusamband Ísland virðist aldrei ætla að læra af fyrri mistökum sínum hvað áfengis- og samskiptamál varðar.

Haraldur Guðjónsson

Hvenær ætlar KSÍ að fara að vanda sig? Í vikunni batt sambandið enda á samstarf sitt við aðstoðarþjálfara karlalandsliðsins, Eið Smára Guðjohnsen. Mun brotthvarf Eiðs Smára tengjast gleðskap þar sem KSÍ bauð leikmönnum og þjálfurum og starfsliði upp á áfenga drykki eftir leik gegn Norður-Makedóníu.

Innan við eitt ár er síðan sambandið sagði Jóni Þór Haukssyni, þáverandi landsliðsþjálfara kvenna, upp störfum vegna atviks sem kom upp við fagnaðarlæti eftir að sæti í lokakeppni EM var í höfn, þar sem áfengi var einnig haft við hönd.

Hrafnarnir hefðu haldið að sambandið myndi í kjölfar þessa skrúfa fyrir áfengisneyslu í landsliðsverkefnum til að forðast atvik sem þessi, en svo var ekki. Þegar þjóðhetjan Lars Lagerback tók við landsliðinu á sínum tíma lagði hann áherslu á að gera umgjörð landsliðsins fagmannlegri og lagði m.a. áherslu á að áfengi ætti ekkert erindi í landsliðsferðir. Þau gildi Svíans virðast aftur á móti gleymd og grafin í dag, og verður ekki betur séð en að afturhvarf til fortíðar - er áfengisneysla í landsliðsferðum þótti ekki tiltökumál - hafi átt sér stað innan sambandsins.

Að auki má enn og aftur setja út á samskipti KSÍ við fjölmiðla í þessu máli sem og öðrum sem komið hafa upp undanfarið. Greint var frá brotthvarfi aðstoðarlandsliðsþjálfarans í fréttatilkynningu sem sett var í loftið laust fyrir miðnætti sl. þriðjudagskvöld.

Tímasetningin ein og sér vekur upp margar spurningar en í kjölfarið gekk fjölmiðlafólki erfiðlega að fá nokkurn starfsmann KSÍ til að skýra brotthvarfið með nánari hætti en að um væri að ræða persónuleg mál, eins og getið var um í tilkynningunni. Formaðurinn Vanda Sigurgeirsdóttir hefur ekki látið ná í sig og í samtali við RÚV sagði Ómar Smárason, samskiptastjóri KSÍ, að hún væri einfaldlega of upptekin til að svara fjölmiðlum.

Magnús Geir Eyjólfsson, fréttamaður RÚV, hitti naglann á höfuðið í Twitter-færslu þar sem hann spurði: „hvernig getur eitt batterí komið sér ítrekað í krísur og aldrei dregið nokkurn einasta lærdóm af?"

Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.