Um Ríkisendurskoðun gilda sérstök lög, nr. 46/2016. Þar segir í 13. gr. þar sem fjallað er um hæfniskröfur þeirra sem vinna verk fyrir ríkisendurskoðanda.

Ríkisendurskoðandi og þeir sem starfa hjá eða á vegum Ríkisendurskoðunar mega ekki annast endurskoðunar- og eftirlitsstörf samkvæmt lögum þessum:
a. hjá aðilum sem þeir tengjast með þeim hætti sem greinir í 1.–3. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga,
b. ef að öðru leyti eru fyrir hendi slíkar aðstæður að með réttu má draga í efa óhlutdrægni þeirra.

Ég í rauninni gegndi ákveðnum störfum strax við myndun þessarar ríkisstjórnar sem um ræðir vorið 2007.

***

Einn höfunda skýrslu ríkisendurskoðanda um Íslandsbankasöluna er Jón Þór Sturluson. Hann kom fyrir Landsdóm sem vitni 8. mars 2012. Sjálfur kynnti hann sig, aðspurður af saksóknara um störf hans sem aðstoðarmaður ráðherra og starfsferil í opinberri stjórnsýslu, á þennan veg.

„Ég í rauninni gegndi ákveðnum störfum strax við myndun þessarar ríkisstjórnar sem um ræðir vorið 2007. Hafði áður verið í bankaráði Seðlabankans og þar var svona liður í því að gegna trúnaðarstarfi fyrir Samfylkinguna að vera formanni hennar innan handar varðandi ráðgjöf um efnahagslega atriði. Ég var eins konar efnahagsráðgjafi Ingibjargar Sólrúnar frá því að ég settist í bankaráðið [innsk. 2005-2007].“

Haustið 2007 varð Jón Þór aðstoðarmaður Björgvins G. Sigurðssonar viðskiptaráðherra. Í rannsóknarskýrslu alþingis er fjallað um skoðun Össurar Skarphéðinssonar á trúnaðarsambandi Jóns Þórs og Ingibjargar Sólrúnar.

Sjálf hafði hún [innsk. Ingibjörg Sólrún] ákveðið að Össur mætti í sinn stað og Jón Þór Sturluson var á staðnum sem efnahagsráðgjafi Samfylkingarinnar. En hann var reyndar líka aðstoðarmaður viðskiptaráðherra. Að mati Össurar sýndi Jón Þór formanni Samfylkingarinnar meiri hollustu en viðskiptaráðherra. Jón Þór var til dæmis á fundi með hagfræðingunum Willem H. Buiter og Anne C. Sibert sumarið 2008 og deildi aðvörunarorðum þeirra með formanni Samfylkingarinnar en ekki með viðskiptaráðherra.

***

Það er rétt að veita mönnum tiltekinn skilning á því að þeir geti sinnt margvíslegum störfum eftir að afskiptum þeirra af stjórnmálum lýkur, þó í sjálfu sér viti maður ekki alltaf hvenær þeim lýkur þar sem margir er baksviðs í stjórnmálunum.

En Óðinn veltir fyrir sér hvort Jón Þór sýni enn Samfylkingunni, eða tilteknum aðilum eða hópum, trúnað líkt og Össur heldur fram í samtali við rannsóknarnefnd alþingis. Það er til dæmis ekkert launungarmál að Ingibjörg Sólrún er sérstakur aðdáandi Kristrúnar Frostadóttur, nýkjörins formanns Samfylkingarinnar.

***

Auðvitað ætlar Óðinn ekkert að fullyrða um að Jón Þór hafi ekki sinnt störfum sínum af heiðarleika fyrir Ríkisendurskoðanda. En það er umhugsunarefni hvort fyrri störf hans hafi valdið vanhæfi hans til að sinna þessu verkefni fyrir stofnunina.

Það var í það minnsta fróðlegt að heyra skoðun Kristrúnar Frostadóttur á því hvort Friðrik Sophusson lögfræðingur væri hæfur að hennar mati til að vinna sambærilegt verkefni fyrir Ríkisendurskoðun. Það er nefnilega líklega ekki til sá Íslendingur sem hefur meiri reynslu af sölu ríkiseigna á Íslandi.

Friðrik hætti í stjórnmálum árið 1998, eða fyrir 24 árum. Jón Þór Sturluson lét af starfi pólitísk aðstoðarmanns ráðherra árið 2009, eða fyrir 13 árum, og hætti þar með þátttöku í íslenskum stjórnmálum. Að minnsta kosti opinberlega.

Óðinn er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út 17. nóvember 2022.