*

fimmtudagur, 9. apríl 2020
Jóhannes Karl Sveinsson
1. febrúar 2020 13:43

Hvenær þarf að tilkynna markaðinum

Formleg staðfesting árshlutauppgjöra er ekki það tímamark sem ræður úrslitum, heldur getur það verið mun fyrr í ferlinu.

Kauphöll Íslands.

Ég skrifaði grein um sama efni fyrir nokkrum árum. Í henni var sagt frá dómi sem féll árið 2015 og snerist um á hvaða stigi samningaviðræðna Icelandair hefði verið skylt að birta almenningi upplýsingar um stöðu þeirra viðræðna.

Í mjög einfölduðu máli var talið að þegar stjórn félagsins hafði tekið ákvörðun um að ganga til „lokasamningaviðræðna“ við Boeing (um Max vélar) og Airbus á grunni tiltekins tilboðs beggja hefði málið verið komið á það stig að tilkynna hefði átt um það. Það hefði verið of seint að tilkynna þegar samningar voru loks í höfn. Fyrir þetta fékk Icelandair sekt hjá Fjármálaeftirlitinu.

Ýmsum hefur þótt þessi túlkun frekar ströng en hún á sér ákveðnar fyrirmyndir í dómaframkvæmd í Evrópurétti. Þótt dómnum hafi ekki verið áfrýjað til Hæstaréttar er niðurstaðan það sem hafa verður til marks um gildandi túlkun, a.m.k. þar til annað kemur í ljós.

Í desember sl. gekk annar dómur í Hæstarétti um sama málefni. Hann er áhugaverður og mikilvægur í samhengi við tímamarkið á tilkynningu, en ekki síður hvert inntak upplýsinga þurfi að vera til að teljast innherjaupplýsingar. Þá er tekin afstaða til samspils afkomuspár og breytinga í rekstri frá fyrri árum.

Í sem stystu máli atvikaðist það þannig að félagið sem í hlut átti birti ársfjórðungslega árshlutauppgjör. Stjórn fjallaði áður um þau og staðfesti samkvæmt fyrirfram ákveðinni birtingaráætlun.

Í þessu tilviki snerist málið um afkomu fyrstu þriggja mánaða ársins, en stjórnin fjallaði um árshlutareikninginn á fundi sínum 26. maí. Tilkynning var birt á þeim tímapunkti og sagði meðal annars í henni að EBIDTA hagnaður hefði aukist um rösk 66% frá fyrra ári. Á birtingardeginum og daginn eftir hækkaði gengi hluta í félaginu um 12% og viðskipti urðu með um 20% af útgefnu hlutafé.

Félagið hafði í febrúar þetta sama ár gefið út afkomuspá þar sem gert var ráð fyrir ákveðnum rekstrarbata frá fyrra ári, m.a. hækkun á EBIDTA afkomu alls ársins upp á rösklega 10%. Segja má að afkoma fyrsta ársfjórðungs hafi í krónum (evrum) rúmast innan þess bata sem spáð var. Hins vegar var hlutfallsbreytingin mun meiri.

Uppgjörsvinna hafði tekið nokkurn tíma og Fjármálaeftirlitið taldi að þegar fyrstu drög að árshlutareikningnum voru komin fram – sem var um viku áður en stjórnin fjallaði um – hefðu myndast innherjaupplýsingar sem skylt hefði verið að birta tafarlaust. Félagið var sektað um 50 milljónir.

En hvers vegna var rekstrarbatinn talinn vera innherjaupplýsingar? Það var fyrst og fremst vegna þess að um var að ræða mjög mikla breytingu frá fyrra ári. Ekki var talið skipta máli að félagið hafði sjálft spáð bata í rekstri og ekki var heldur fallist á rök um að upplýsingarnar hefðu ekki verið komnar í nægilega ákveðið og endanlegt form fyrr en eftir umfjöllun stjórnar. Vafalaust spilaði einnig inní að markaðurinn brást við tilkynningu félagsins með róttækum hætti.

Þetta mál fór fyrir héraðsdóm, Landsrétt og Hæstarétt. Á öllum dómsstigum var fallist á að Fjármálaeftirlitið hefði farið rétt að og öllum röksemdum um niðurfellingu eða lækkun sektar hafnað. Hæstiréttur sagði að í dómaframkvæmd Evrópudómstólsins hefði því verið slegið föstu að einstaka atburður eða aðstæður í þrepaskiptu ferli gæti eitt og sér falið í sér nægjanlega tilgreindar upplýsingar við skilgreiningu innherjaupplýsinga.

Þá sagði í dómi Hæstaréttar að drög að árshlutareikningi gætu ótvírætt talist atburður í þrepaskiptu ferli sem miði að samþykkt og birtingu hans. Þá hefðu upplýsingar í afkomuspá ekki haft sömu þýðingu við mat á tilvist innherjaupplýsinga og rauntölur úr rekstri. Umræddar upplýsingar hafi því 20. maí 2016 verið nægilega tilgreindar og líklegar einar og sér til að hafa marktæk áhrif á markaðsverð hlutabréfa.

Þessi dómur hefur talsverða þýðingu.

Félög, sem skyld eru til að birta innherjaupplýsingar, verða að kynna sér efni hans. Þau verða að vera vakandi yfir því í uppgjörsferlum sínum hvenær ætla má að veruleg frávik hafi orðið frá fyrri árum. Formleg staðfesting árshlutauppgjöra er ekki það tímamark sem ræður úrslitum, heldur getur það verið mun fyrr í ferlinu.

Einnig þarf að íhuga hvernig staðið er að gerð afkomuspár og hvort hana beri yfirhöfuð að gera. Í það minnsta telur Hæstiréttur að afkomuspá trompi ekki eða dragi úr þýðingu breytinga á raunafkomu félaga. Þær geti talist innherjaupplýsingar allt að einu.

Höfundur er lögmaður og flutti bæði dómsmálin fyrir Fjármálaeftirlitið.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.