Markaður með kolefniseiningar leysir ekki loftslagsvandann einn. Það þýðir þó ekki að hætta eigi algerlega við kolefnisjöfnun og að þátttaka á kolefnismarkaði sé grænþvottur. Ef nýtt hús lekur hættum við ekki að byggja heldur reynum að gera betur. Markaður með kolefniseiningar er ein af fáum aðferðum sem við höfum nú til að fjármagna náttúrulega kolefnisbindingu og varðveislu hennar í náttúrunni. Sá borgar sem mengar.

Viðurkennt er að kolefniseiningar eru aðeins eitt margra tóla í loftslagsbaráttunni. Reynslan sýnir að meirihluti fyrirtækja sem fjárfestir í kolefnisverkefnum fjárfestir einnig mikið í að draga úr losun sinni og notar kolefniseiningar einungis til að jafna á móti „óhjákvæmilegri“ losun. Með Skógarkolefni leggur Skógræktin áherslu á að fyrirtæki dragi fyrst úr losun en noti kolefniseiningar aðeins til að bæta upp fyrir losun sem þau geta ekki forðast. Þetta er í samræmi við Net-Zero Guidance frá Sameinuðu þjóðunum og Science-Based Targets Initiative.

Framleiðsla kolefniseininga eftir gæðastaðli eins og Skógarkolefni tryggir fyrirtækjum hágæða kolefniseiningar. Slíkar gæðaeiningar leiða til þess að raunmarkaðsverð myndast á kolefni sem skapar hvata fyrir fyrirtæki að draga úr losun eins fljótt og auðið er. Því hraðar sem fyrirtæki minnka sína losun því færri kolefniseiningar þurfa þau að lokum að kaupa.

Markaður með kolefniseiningar ber að sjálfsögðu aðeins árangur ef kolefniseiningar fela í sér raunbindingu eða minnkaða losun. Valkvæðir kolefnismarkaðir verða að glíma við það að kolefniseiningar eru mismunandi að gæðum. Mikilvægt er að fyrirtæki veiti þessu athygli og geri ríkar kröfur um gæði þeirra kolefniseininga sem þau kaupa. Mörg fyrirtæki framkvæma nú áreiðanleikakannanir á kolefnisverkefnum sem þau taka þátt í og mjög hefur fjölgað fyrirtækjum sem bjóða upp á slíka þjónustu. Þá hefur markaðurinn sjálfur frumkvæði að auknum gæðum með þátttöku í verkefnum eins og: 1) nýrri tækniforskrift Staðlaráðs um kolefnisjöfnun, ÍST TS 92 – Kolefnisjöfnun, 2) Nordic Dialogue on Voluntary Compensation - Harnessing voluntary carbon markets for climate ambition og 3) The Voluntary Carbon Markets Integrity Initiative.

Tækniframfarir gera nú kleift að meta gæði kolefnisverkefna nákvæmar en áður. Það auðveldar fyrirtækjum að finna raunverulegar, hágæða kolefniseiningar. Verð slíkra gæðaeininga fer nú hækkandi sem er eðlileg þróun á virkum markaði. Íslensk fyrirtæki eru almennt mjög meðvituð um samfélags- og umhverfisskyldur sínar og eru tilbúin að borga fyrir raunverulegan árangur sem staðlar eins og Skógarkolefni tryggja.

Allar frekari tafir á samstilltum alþjóðlegum aðgerðum minnka möguleika okkar á lífvænlegri framtíð.

Sú staðreynd að ekki eru allar kolefniseiningar „fullkomnar“ þýðir ekki að kolefniseiningar séu ónothæfar. Það er einfaldlega of seint að gera ekki neitt og hér er aðferð sem er tiltæk hér og nú. Sem stendur eru engar trúverðugar aðgerðir í gangi sem haldið geta hækkun hitastigs á heimsvísu undir 1,5°C. Vísindalegar sannanir eru ótvíræðar (sjá IPCC), loftslagsbreytingar ógna velferð mannkyns og annarra íbúa jarðarinnar. Allar frekari tafir á samstilltum alþjóðlegum aðgerðum minnka möguleika okkar á lífvænlegri framtíð. Við þurfum á öllum verkfærunum í kassanum að halda, þar á meðal kolefniseiningum.

Mikilvægt er því að tryggja virkan markað með kolefniseiningar á Íslandi. Annars líðst fyrirtækjum að gera ekkert í þeirri losun sem þau geta ekki skorið niður og bíða þess í stað eftir fullkominni lausn sem kemur kannski aldrei. Hér er tiltæk leið til að fjármagna náttúrulausnir meðan verkfræðilegar lausnir til kolefnisförgunar, sem eru enn á frumstigi, eru prófaðar, reyndar og skalaðar upp. Missum ekki af gullnu tækifæri til að endurheimta og rækta nýja skóga og skapa þannig auðlind fyrir komandi kynslóðir. Byrjum strax. Við megum engan tíma missa.

Fólk sem áttar sig á jákvæðum ávinningi kolefniseininga og þörfinni á hágæða kolefnisverkefnum sér að trúverðugleiki, gagnsæi og ábyrgð er aðalsmerki kolefnismarkaðarins. Fáar en háværar raddir eru tilbúnar að tala allar lausnir niður en hverjar eru þeirra lausnir? Þær fylgja sjaldnast sögunni.

„Það er aðeins ein leið til að forðast gagnrýni: Gerðu ekkert, segðu ekkert og vertu ekkert.“ – (Aristóteles).

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu, sem kom út fimmtudaginn 23. febrúar 2023.