*

laugardagur, 20. júlí 2019
Leiðari
1. desember 2016 14:17

Hver ber ábyrgðina?

Engu að síður er viðkvæðið einatt það, þegar opinbert eftirlit bregst, að gera kröfu um enn meira opinbert eftirlit.

epa

Kastljósþáttur vikunnar um slæman aðbúnað hænsnfugla á eggjabúi Brúneggja, þar sem einnig kom fram að framleiðslan væri ekki vistvæn, þvert á fullyrðingar framleiðandans, hefur eðlilega reitt margan neytandann til reiði. Reiðin er eðlileg, enda er ekki hægt að sjá annað en að framin hafi verið vörusvik. Þegar vara er sérstaklega markaðssett og seld á hærra verði en sambærileg vara, á þeim forsendum að framleiðsla hennar sé vistvæn og að aðbúnaður dýranna sé sérstaklega góður, þá eru það svik ef annað kemur í ljós. Líklega á eggjaframleiðandinn sér ekki viðreisnar von eftir umfjöllun síðustu daga og er erfitt að kenna í brjósti um hann.

Það sem vekur hins vegar sérstaka athygli er þáttur opinberra eftirlitsaðila í málinu. Í Kastljósþættinum kom fram að starfsfólk Matvælastofnunar (MAST) hefði um árabil talið að Brúnegg væri að blekkja neytendur með því að merkja egg sín sem vistvæn og telja fólki trú um að eggin komi frá frjálsum hænum, sem verpi í hreiður. Þvert á móti hafi komið í ljós að hænum var ekki sinnt, fuglarnir voru skítugir og jafnvel fiðurlausir. Þá voru dæmi um að þessi vistvænu egg hefðu stundum verið tínd upp af gólfi hænsnabúanna, þar sem finna mátti músa- og rottueitur.

Látum liggja á milli hluta hvort það hafi verið í verkahring MAST að athuga hvort fullyrðingar Brúneggja um vistvæna framleiðslu væru réttar. MAST ber hins vegar að tryggja að farið sé eftir ákvæðum laga og reglugerða hvað varðar framleiðslu á matvælum. Frá árinu 2007 hefur MAST gert fjölmargar athugasemdir við eggjabú Brúneggja og meðal annars beitt fyrirtækið dagsektum í heila 77 daga.

Brúnegg mun væntanlega verða gjaldþrota, nema til komi kraftaverk. Eigendur fyrirtækisins munu verða fyrir umtalsverðu fjárhagslegu tjóni svo ekki sé talað um hugsanleg dómsmál á hendur þeim eða fyrirtækinu. Handvömm MAST og annarra opinberra aðila, þar á meðal Landbúnaðarráðuneytisins, mun hins vegar ekki hafa nein áhrif þar á bæjum. Enginn mun missa vinnuna, enginn verður látinn greiða bætur og eftirmálar verða engir aðrir.

Þannig er það alltaf þegar opinbert eftirlit bregst. Þeir sem verða fyrir tjóninu, í þessu tilviki neytendur, geta ekki sótt rétt sinn til þeirra sem lagt hafa blessun sína yfir ótilhlýðilega hegðun. Það gerist ekki nú og það gerðist ekki þegar bankarnir féllu haustið 2008. Engu að síður er viðkvæðið einatt það, þegar opinbert eftirlit bregst, að gera kröfu um enn meira opinbert eftirlit.

Það sem Brúneggjamálið sýnir okkur er ekki það að eftirlit sé óþarft, eða jafnvel skaðlegt. Það sýnir hins vegar að hið opinbera er ekki endilega rétti aðilinn til að sinna þessu eftirliti. Hvaða skoðun sem fólk hefur á eftirliti í höndum einkaaðila þá hefur slíkt fyrirkomulag að minnsta kosti þann kost að ef eftirlitsaðilinn bregst er hægt að draga hann, starfsmenn hans og eigendur til ábyrgðar. Í því felst mikið aðhald, sem því miður skortir þegar hið opinbera á í hlut.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.