Týr var afar gagnrýninn á framboð Guðlaugs Þórs Þórðarsonar á framboð hans til formanns Sjálfstæðisflokksins líkt og lesendur eflaust muna, og þá sérstaklega stuðningsmenn Guðlaugs Þórs sem virtust lítt hrifnir og sökuðu sumir Tý um að vera lepp formannsins, Bjarna Benediktssonar. Stuðningsmenn hans virðast hafa gleymt því að Týr hefur í gegnum tíðina verið gagnrýninn á Bjarna. Týr var (og er) einfaldlega á þeirri skoðun að Guðlaugur Þór hefði ekkert fram að færa sem myndi bæta stöðu flokksins.

Nú þegar landsfundi er lokið verður áhugavert að fylgjast með framvindu innanflokkspólitíkurinnar. Í krafti eftiráspeki verður að segjast eins og er, að framboð Guðlaugs Þórs hafi þjónað flokknum vel. Fundurinn varð kraftmeiri og fjölmennari fyrir vikið og hlaut meiri athygli en ella. Fjölmargir fjölmiðlar töluðu um klofning innan flokksins en það er ekkert sem bendir til þess að flokkurinn standi klofinn eftir, og er það Guðlaugi Þór og hans stuðningsmönnum til hróss að þeir tóku tapinu flestir af reisn.

Þegar mótframboð Guðlaugs Þórs var kunngjört var Týr á þeirri skoðun að Guðlaugi Þór yrði ekki stætt við ríkisstjórnarborðið, myndi hann tapa. Guðrún Hafsteinsdóttir kæmi inn í hans stað og Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra sæti áfram. Nú þegar rykið er að setjast, þá blasir við að ráðherrakapallinn verður ekki svo einfaldur. Ef Bjarni færi þá leið yrði það sem vopn í höndum Guðlaugs Þórs og fylgisveina hans og gæti skapað háværa óeiningu innan flokksins. Það verður enda ekki litið fram hjá því að Guðlaugur Þór nýtur mikils stuðnings meðal flokksmanna, einkum í Reykjavík.

Jón Gunnarsson hefur aftur á móti reynst Bjarna traustur liðsmaður og staðið keikur í gegnum mikla úlfúð í tengslum við útlendingamálin. Sennilega væri Guðrúnu enginn greiði gerður með því að hefja ráðherraferil sinn í dómsmálaráðuneytinu, sérstaklega eins og staðan er nú. Jón er líklega best til þess fallinn að taka hitann á sig, enda á lokaspretti ferils síns og þarf ekki að hafa áhyggjur af því að útlendingamálin veiki hann pólitískt í framtíðinni.

Spurningin nú er hvort formaðurinn hafi hugrekki til þess að senda Guðlaug Þór á bekkinn.

Týr er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út 10. nóvember 2022.