*

miðvikudagur, 27. október 2021
Leiðari
13. september 2020 11:01

Hver fer með vaxtavaldið?

Lagatúlkun Neytendasamtakanna á skilmálum breytilegra vaxta myndi marka róttækar breytingar á fjármálakerfinu.

Lánakjör almennings hafa löngum verið hitamál hér á landi, enda óhætt að segja að ýmislegt hafi gengið á í þeim efnum síðustu hálfu öld eða svo. Útlánanafnvextir voru mestalla 20. öldina niðurnegldir í lögum, með þeim afleiðingum að raunvextir urðu oft og tíðum neikvæðir, og lánsfé – sem var því í raun gjafafé – pólitískt skammtað. Aðrir máttu láta sér svarta lánastarfsemi á mun hærri vöxtum duga, ef þeir gátu þá yfirhöfuð nálgast lán.

Óhætt er að segja að blað hafi verið brotið í hagsögu Íslands þegar breytilegir óverðtryggðir vextir Birtu lífeyrissjóðs náðu 2,1% nú í sumar, vel undir 12 mánaða verðbólgu, sem mælist um þessar mundir 3,2%. Í upphafi þessa mánaðar ákvað sjóðurinn svo að hætta að lána óverðtryggt.

Skýringuna á þessum neikvæðu raunvöxtum er að finna í reiknireglu Birtu, sem ákveðin var fyrir nokkrum árum – óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum skyldu bera stýrivexti að viðbættu 1,1 prósentustigs álagi – og þótti hæfileg á sínum tíma. Stýrivextir voru þá í kringum 5% og höfðu verið frá því að hrunverðbólgan hjaðnaði.

En svo féll Wow air, hagkerfið kólnaði hægt og bítandi, og þegar efnahagurinn lá laskaður og sleikti sárin kom heimsfaraldurinn og veitti góðærinu náðarhöggið. Stýrivöxtum var beitt sem aldrei fyrr og vaxtastigið sundraðist eftir flokkum.

Á meðan raunvextir ríkisskuldabréfa eru nú orðnir neikvæðir, hafa bankarnir veigrað sér við að fleyta mun lægri fjármögnunarkostnaði sínum áfram til fyrirtækja, sem mörg hver róa nú lífróður og eiga lítil sem engin veð til að bjóða hikandi lánveitendum. Vaxtalækkunin skilaði sér talsvert betur til húsnæðislána landsmanna, en þó ekki að öllu leyti.

Bankarnir – sem sumir hverjir hafa glímt við þungan rekstur og dræma arðsemi síðustu ár – héldu eftir hluta vaxtalækkananna í skjóli þess að þeir áskilja sér svo til óskorað vald til vaxtabreytinga í skilmálum húsnæðislána með breytilega vexti (sem í raun eru öll húsnæðislán bankanna, þar sem lengst er hægt að festa bæði verðtryggða og óverðtryggða vexti í fimm ár í senn).

Þessa skilmála telja Neytendasamtökin hins vegar ólöglega. Að þeirra mati standast lán ekki lög nema allar forsendur og formerki vaxtabreytinga séu skilmerkilega útlistuð í skilmálum lánanna, svo ekkert svigrúm verður eftir fyrir einhliða vaxtabreytingar bankanna. Þeir megi auðvitað breyta þeim kjörum sem bjóðast nýjum lántökum, en um leið og blekið þornar á skuldabréfinu skulu vextirnir liggja fyrir út lánstímann, hvort sem um fasta tölu eða reikniformúlu á borð við skilmála Birtu er að ræða.

Þetta kann í fljótu bragði að hljóma bæði sjálfsagt og smávægilegt. Hagfræðin kennir okkur jú að boðin vaxtakjör ráðist af markaðsvöxtum hverju sinni. Að taka vaxtaákvörðunarvald yfir einum stærsta eignaflokki landsins af bönkunum fæli hins vegar í sér grundvallarbreytingu á virkni hins íslenska fjármálamarkaðar.

Reynsla Birtu sýnir okkur að það er síður en svo að því hlaupið að finna öruggt og einfalt viðmið sem tryggir bönkunum hæfilega ávöxtun, án þess að mjólka heimilin um of, næstu 40 árin. Á móti kemur hins vegar að áhrif stýrivaxta á vaxtakjör almennings yrðu að öllum líkindum mun beinni og fyrirsjáanlegri. Það félli því að miklu leyti í skaut peningastefnunefndar að finna jafnvægi milli afkomu lánveitenda og heimilanna, en ólíkt lífeyrissjóðum eru bankar afar gíraðar stofnanir og því mun viðkvæmari fyrir vaxtamunabreytingum.

Ein hugsanleg leið framhjá hinni nýju lagatúlkun væri að veita aðeins húsnæðislán til nokkurra ára í senn, en stilla greiðsluferilinn þannig af að áratugi taki að greiða upp lánið, eins og tíðkast í nágrannalöndunum. Þannig neyðist lántaki til að endurfjármagna lánið reglulega, og bönkunum gefst því svigrúm til að endurhugsa kjörin.

Viðskiptablaðið fagnar því aukna gagnsæi og skilvirkari miðlun peningastefnunnar sem breytingin hefði í för með sér, en mælist þó til þess að afleiðingar slíkrar grundvallarbreytingar á íslenskum fjármálamarkaði verði skoðaðar ofan í kjölinn.

Með yfirtöku Seðlabankans á Fjármálaeftirlitinu um síðustu áramót varð til valdamesta stofnun landsins að margra mati. Ef nú á að brýna enn frekar á honum klærnar á kostnað sjálfsákvörðunarvalds bankakerfisins er eins gott að næsta hæfnisnefnd Seðlabankastjóra velji vel.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.