*

laugardagur, 5. desember 2020
Huginn og muninn
12. september 2020 10:02

Hver tekur við Viðskiptaráði?

Framkvæmdastjórastaða auglýst í kjölfar töluverða breytinga á starfamannahaldi Viðskiptaráðs Íslands.

Ásta S. Fjeldsted var ráðinn framkvæmdastjóri Krónunnar í sumar.
Haraldur Guðjónsson

Töluverðar breytingar hafa orðið hjá Viðskiptaráði Íslands á þessu ári. Í febrúar urðu formannsskipti þegar Katrín Olga Jóhannesdóttir hætti og Ari Fenger, forstjóri og einn eigenda 1912, sem rekur Nathan & Olsen, Ekruna og Emmessís, tók við. Katrín Olga hafði setið sem formaður í fjögur ár en hún var fyrsta konan til að gegna stöðunni.

Nokkrum mánuðum seinna, eða í maí, yfirgaf Védís Hervör Árnadóttir Viðskiptaráð. Hún fór þó ekki mjög langt því hún tók við stöðu miðlunarstjóra Samtaka atvinnulífsins, sem er með skrifstofur í Húsi atvinnulífsins í Borgartúni 35 líkt og Viðskiptaráð. Védís Hervör hafði starfað hjá ráðinu í fjögur ár þegar hún færði sig til SA.

Í júlí bárust síðan stórar fréttir þegar tilkynnt var að framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, Ásta S. Fjeldsted, myndi taka við af Grétu Maríu Grétarsdóttur, sem framkvæmdastjóri Krónunnar. Hafði Ásta gegn starfi framkvæmdastjóra síðan í byrjun árs 2017 þegar hún tók við af Frosta Ólafssyni.

Viðskiptaráð Íslands auglýsti á sunnudaginn eftir nýjum framkvæmdastjóra. „Leitað er að öflugum einstaklingi til krefjandi stjórnunar- og leiðtogastarfa þar sem reynir á samskiptahæfni, frumkvæði og forystuhæfileika,“ segir í auglýsingu á vefsíðu ráðsins en umsóknarfrestur er til 18. september.

Eins og alþjóð veit eru hrafnarnir forvitnir að eðlisfari og þykir fátt skemmtilegra en að fá slúðrið beint í æð. Í ljósi atvinnuástandsins má gera ráð fyrir því að heill haugur af frambærilegu fólki muni sækja um starfið. Hrafnarnir hafa heyrt nokkur. Svanhildur Hólm Valsdóttir, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, hefur verið nefnd í eyru hrafnanna. Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups, hefur einnig verið nefnd sem og Sigþrúður Ármann hjá Exedra og stjórnarmaður í Verðbréfamiðstöð Íslands.

Auk þessa hafa hrafnarnir heyrt talað um Björn Brynjúlf Björnsson í þessu samhengi en hann gegndi áður starfi aðstoðarframkvæmdastjóra Viðskiptaráðs. Ekki má gleyma Konráð S. Guðjónssyni, núverandi aðstoðarframkvæmdastjóra.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Stikkorð: Viðskiptaráð Íslands
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.