*

miðvikudagur, 19. janúar 2022
Ásdís Auðunsdóttir
11. júní 2021 08:33

Hver þorir?

„Það er stór ákvörðun að bjóða sig fram til stjórnmálastarfa. Með því að rétta upp hönd setur viðkomandi sjálfan sig og skoðanir sínar í dóm þjóðarinnar..“

Haraldur Guðjónsson

Það er sumarilmur í loftinu. Það fer ekki framhjá nokkrum manni, ekki frekar en kosningaskýið sem verður þéttara eftir því sem vikurnar færa okkur nær komandi alþingiskosningum.

Það er stór ákvörðun að bjóða sig fram til stjórnmálastarfa. Með því að rétta upp hönd setur viðkomandi sjálfan sig og skoðanir sínar í dóm þjóðarinnar og það er næsta víst að viðtökurnar verða ekki ljúfar.

Einhvern tímann virðist það hafa orðið viðurkennt viðhorf hjá stórum hópi að þeir sem bjóða sig fram til stjórnmálastarfa gera það í einhvers konar annarlegum tilgangi. Skotleyfið er því skýrt og stjórnmálamenn geta lítið gert til þess að skýla sér fyrir óvæginni umræðunni. Við það bætist að umræður um erfið þjóðfélagsmál verða sífellt einsleitari og óaðgengilegri. Fylkingar verða til þar sem skoðanir eru flokkaðar svartar eða hvítar og þátttakendur góðir eða slæmir. Ekkert rými fyrir grá svæði, enginn tími fyrir sjónarmið heildarinnar og lítil þolinmæði fyrir djúpum greiningum. Afleiðingin er að fólk veigrar sér við því að taka þátt í erfiðum umræðum og málin eru „útkljáð" í stuttum Twitter-færslum með undirliggjandi hæðnistón.

Hvort tveggja er hættuleg þróun. Það skiptir öllu að okkar öflugasta fólk, breiður hópur sérfræðinga með hugsjónir, vilji bjóða fram krafta sína í stjórnmálum. Fólk sem hræðist ekki erfiðu málin og er tilbúið að hlusta á sjónarmið allra. Það er varla óvarlegt að ætla að margir telja kröftum sínum betur varið utan brennandi sviðsljóssins sem oft virðist gera lítinn greinarmun á harðsvíruðum glæpamönnum og stjórnmálamönnum.

Leyfum okkur að minnsta kosti að trúa því að fólk bjóði sig fram af því að það vill hafa jákvæð áhrif á samfélagið. Hvetjum öflugt fólk til þátttöku, kjósum þau sem við treystum best og komum fram af virðingu við hina. 

Pistlahöfundur er verkefnastjóri.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.