Ef þú, lesandi góður, ákvaðst að halda áfram og gefa þessum pistli séns á grundvelli metnaðarfullrar fyrirsagnar þá þakka ég þér fyrir, og bið þig að hafa þolinmæði enn um stund. Ég hef að vísu enga patentlausn á þessu mikilvæga viðfangsefni. Svo sannarlega held ég að þörf sé á samstilltu átaki til að bjarga heiminum. Að honum steðja margvíslegar ógnir en það er reyndar ekkert nýtt. Í gegnum söguna hafa oft steðjað að mannkyni ógnir, á seinni tímum stafar því helst ógn af sjálfu sér og þannig er staðan í dag. Við stöndum frammi fyrir raunverulegri hættu á því að lífsskilyrði stórs hluta jarðarbúa verði með öllu óbærileg vegna hlýnunar jarðar, sem leiðir til hækkunar á yfirborði sjávar, náttúruhamfara og hækkunar á hitastigi á stórum svæðum á jörðinni.

Það er eðlilegt að maður velti fyrir sér spurningunni hvernig bregðumst við við þessu, nú þegar flestir hugsandi menn eru sammála um þessa stöðu og gera sér grein fyrir því hvað muni gerast að óbreyttu. Það blasir við að hér þarf að eiga sér stað breyting á hugarfari okkar sjálfra, hugmyndum okkar um það hvernig við lifum lífinu, hvernig við tökum ákvarðanir og hvernig við hegðum okkur í samspili við náttúruna. Vandinn er að það er mjög erfitt að fá fólk til að skipta um skoðun og breyta hátterni sínu. Eðli mannsins er ágætlega kortlagt og segja má að kenningar um stjórnun, samskipti og samvinnu byggi meðal annars á því sem best er vitað um það hvernig við hugsum, störfum, vinnum saman og náum árangri.

Um tveggja áratuga skeið hef ég sinnt rannsóknum, kennslu og ráðgjöf á sviði verkefnastjórnunar. MPM námið við HR ætlar einmitt að standa fyrir málþingi þann 17. maí í samstarfi við Verkefnastjórnunarfélagið. Þar verður rætt hvað verkefnastjórnun geti gert til að bjarga heiminum. Ég hef svo sannarlega séð að þegar nauðsyn krefur, þegar við stöndum frammi fyrir erfiðum áskorunum, þá getum við tekið höndum saman og látið verkin tala. Þetta þekkja Íslendingar vel, frammi fyrir eldgosum, snjóflóðum og allskonar hamförum stöndum við saman, skipuleggjum aðgerðir og framkvæmum áætlanir. En mögulega er tilfinning okkar fyrir komandi hamförum vegna loftslagsáhrifanna ekki enn orðin nægilega sterk til að við bregðumst við. Kannski er það svo að við ýtum vandamálunum á undan okkur, okkur finnist þau of stór og of fjarlæg í tíma. Eitthvað segir mér samt að við séum óðum að vakna til vitundar um að handan við hornið séu hamfarir sem við getum afstýrt, ef við gerum breytingar á háttum okkar strax í dag.

Hvernig getum við náð samstöðu um aðgerðir og hvernig getum við hrint þeim í framkvæmd? Stjórnunarfræðin geta hjálpað hér til. Fyrir liggur ágæt þekking á því hvernig skapa má sameiginlega sýn á stöðu mála og nauðsynlegar aðgerðir. Ekki síður vitum við hvernig móta má áætlanir og hvernig hrinda má þeim í framkvæmd með markvissri eftirfylgni. Ég veit að ég dreg hér upp einfalda mynd, en þegar við stöndum frammi fyrir flóknum vandamálum er einmitt mikilvægt að sjá heildarmyndina, einfalda það sem einfalda má, og takast á við rót vandans í stað þess að plástra einkenni hans.

Mér finnst mest um vert að skilja að það er engin ein björgunaraðgerð í farvatninu, líkt og í bíómyndunum. Það verður ekki um að ræða harðsnúið teymi sérfræðinga sem ferðast að miðju jarðar til að breyta möndulsnúningi hennar. Þetta snýst ekki um hóp af hetjum sem fljúga geimflaug á loftstein, sem stefnir í átt til jarðar, og sprengja hann í tætlur. Það verður á endanum margt smátt sem gerir eitt stórt og verður okkur til bjargar. Breytingarnar snúa að okkur sjálfum sem einstaklingum, sem þátttakendum í teymum, sem starfsmönnum fyrirtækja og sem þegnum þjóðfélaga og heimsborgara. Sérhver ákvörðun okkar – stór og smá, sérhver athöfn og sérhvert verkefni verða að standast það próf að hafa jákvæð umhverfisleg áhrif, eða að minnsta kosti að auka ekki á vandann.

Ætli ég byrji ekki sjálfur á því að reyna að hjóla í vinnuna í sumar, gefa hvergi eftir í að flokka sorpið heima, og kannski ég hætti bara við fyrirhugaðan skottúr á tónleika Alison Krauss í New York í júní?

Höfundur er prófessor og forstöðumaður MPM náms við Háskólann í Reykjavík.