*

sunnudagur, 28. febrúar 2021
Margrét Edda Ragnarsdótt
1. desember 2020 08:20

Hvernig eflum við nýsköpun í fyrirtækjum?

Nýsköpun snýst um virkjun á hugviti og sköpunarkrafti sem hægt er að leysa úr læðingi með þekktum og reyndum aðferðum.

Prófessor sagði mér eitt sinn frá vegferð sem hún lagði af stað í með nemendum sínum í meistara- og doktorsnámi. Í upphafi komu prófessorinn og nemandinn sér saman um skilgreint verkefni. Þegar leið á verkefnið komu í ljós ný vandamál sem brann meira á að leysa og þá breyttist verkefnið og endaði fjarri upphaflegu markmiði.

Prófessorinn var ánægður þegar þetta var raunin því hún vissi að nemandinn hefði náð að virkja hugvit sitt og jafnframt að fylgja hugmyndinni eftir með verkefni, þetta fannst henni vera ómetanleg reynsla fyrir nemandann.

Eigandi framleiðslufyrirtækisins FastCap í Bandaríkjunum sagðist ekki ráða starfsfólk til að fara eftir skilgreindum ferlum eða verklagi, heldur til að bæta skilgreind ferli og verklag. Þetta ræðir eigandinn við væntanlega starfsmenn strax í fyrsta atvinnuviðtali. Áður en ég heimsótti þetta tiltekna fyrirtæki vissi ég ekki að til væri fyrirtæki sem innleiddi umbætur jafn hratt.

En hvað eiga ofangreindir aðilar sameiginlegt? Það sem þau eiga sameiginlegt er að þau hafa þróað og byggt upp umhverfi sem virkjar hugvit einstaklinga og hvetur til nýsköpunar.

En hvað er nýsköpun?

Í sinni einföldustu mynd er nýsköpun lausn á vandamáli. Lausnin getur annars vegar leitt af sér nýja vöru eða þjónustu eða hins vegar styttingu á ferli, meiri skilvirkni eða minni sóun.

Nýsköpun snýst um virkjun á hugviti og sköpunarkrafti sem hægt er að leysa úr læðingi hjá öllum einstaklingum með þekktum og reyndum aðferðum. Öll fyrirtæki geta því þróað skapandi einstaklinga innan sinna raða og stundað virka nýsköpun á hverjum degi með því að virkja hugvit og sköpunarkraft allra í fyrirtækinu. En hvernig förum við að?

Þrjú skref til að auka nýsköpun í fyrirtækjum

  • Þjálfun

Fyrsta skrefið er þjálfun, það er til fjöldinn allur af námskeiðum og leikjum sem ganga út á að virkja það hugvit og þann sköpunarkraft sem býr í okkur öllum, heilinn er vöðvi og ef við notum hann ekki þá rýrnar hann.

  • Umboð og tími 

Annað skref snýst um að gefa starfsfólki okkar umboð og tíma til að þróa nýjar hugmyndir og vera skapandi, sem dæmi getum við gefið þeim hálftíma á dag til að vinna að nýrri hugmynd eða lausn. En þetta var einmitt það sem William McKnight hjá bandaríska fyrirtækinu 3M gerði, hann gaf starfsfólki sínu svigrúm til að nota 15% af vinnutíma sínum til að láta hugann reika, þróa og prófa nýjar hugmyndir. 

  • Deila lausnum

Þriðja skrefið gengur út á að segja frá og deila lausnunum sem verða til og gera þær þannig að kveikju að enn fleiri hugmyndum. Ef þessi þrjú skref fá að ganga í hring höfum við búið til sjálfbært nýsköpunarferli.

Leysum sköpunarkraftinn úr læðingi hjá okkar starfsmönnum með því að skapa lifandi og frjótt nýsköpunarumhverfi, þannig getum við markvisst aukið virði fyrirtækisins, bætt ánægju starfsfólks og lagt okkar af mörkum fyrir nýsköpunarlandið Ísland.

Höfundur er annar eigandi hjá ráðgjafafyrirtækinu Gemba.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.