*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Valur Þór Gunnarsson
13. júní 2021 13:35

Hvernig getur þitt fyrirtæki stutt við nýsköpun?

Mörg af farsælustu nýsköpunarfyrirtækjum landsins hafa orðið til þegar kreppir að og fyrirtæki þurfa að leita nýrra leiða.

Öflug vöruþróun byrjar gjarnan með vel skilgreindu viðfangsefni. Fyrir rúmum fjórum árum sagði ég upp góðu starfi hjá fyrirtæki í fjármálageiranum. Ásamt góðum hópi fólks setti ég á fót sprotafyrirtæki sem hefur síðan vaxið hratt, skapað ný störf og þekkingu. Við vorum heppin að hitta snemma á vegferðinni fyrirtæki með vandamál sem þurfti að leysa og pössuðu við okkar áherslur í vöruþróun. Það samstarf skapaði okkur fyrstu tekjurnar og jafnframt varð til samtal sem gerði alla vöruþróun mun markvissari.

Ísland örlítill, en mikilvægur heimamarkaður

Það sem reynist mörgum fyrirtækjum hér á landi stærsta hindrunin í nýsköpun er hvað heimamarkaðurinn okkar er smár. Það er engin tilviljun að streymisveitan Spotify varð til í Svíþjóð en ekki í Danmörku hvað þá á Íslandi. Svíþjóð hefur langa hefð fyrir aðgengi að stafrænni þekkingu og innviðum og er jafnframt með stærsta heimamarkað á Norðurlöndum eða 10 milljónir íbúa, sem jafngildir tvöföldum íbúafjölda Danmerkur og 27-földum íbúafjölda okkar.

Ísland hefur tekið ákveðið stökk fram á við í rafrænum innviðum undanfarin tvö ár og skiptir þar miklu máli sú vinna sem unnin hefur verið af Stafrænu Íslandi þar sem stafrænir innviðir landsins hafa fengið yfirhalningu. Tækniþróunarsjóður hefur gegnt mikilvægu hlutverki í stuðningi við nýsköpun, einkum á frumstigum þegar varan er enn í þróun. Ríkisstjórnin hefur hækkað endurgreiðslu vegna rannsókna og þróunar í 35% og skattaafslátt vegna fjárfestingar í nýsköpun í 75%, eitthvað sem aðallega nýtist stærri fyrirtækjum sem komin eru lengra.

Nýsköpun er drifin áfram af raunverulegum viðskiptavinum

Mörg af farsælustu nýsköpunarfyrirtækjum landsins hafa orðið til þegar kreppir að og fyrirtæki þurfa að leita nýrra leiða. Slíkt gerðist við fjármálakreppuna fyrir rúmum áratug og aftur í faraldrinum sem nú ríður yfir. Þrátt fyrir góðan vilja reynist venjulegum fyrirtækjum erfitt að stunda nýsköpun í hefðbundnu „níu til fimm“ vinnuumhverfi sínu því þau þurfa fyrst og fremst að sinna eigin grunnrekstri. Það er einnig mikilvægt að halda fókus á sína kjarnastarfsemi, vera best á sínu sviði og eyða ekki tíma í að finna upp hjólið. Að fjárfesta í sprotum krefst einnig sérþekkingar, auk þess sem slíkt myndi flokkast sem áhættusöm fjárfesting. En það er til mun einfaldari og ódýrari leið til að eiga samstarf við nýsköpunarfyrirtæki.

„Öfugt pitch“

Flestir hafa heyrt um „pitch“ viðburði þar sem fyrirtæki kynna lausnir sínar með eins konar söluræðu. Öfugt „pitch“ snýst um að fyrirtæki halda kynningu á þeim vandamálum og áskorunum sem þau glíma við með það að markmiði að skapa samstarf um lausnir með nýsköpunarfyrirtækinu. Fersk augu utan frá geta komið með nýja nálgun, og nýsköpunarfyrirtæki geta oftar en ekki verið sveigjanleg og unnið hratt að frumgerðum sem prófa má með litlum tilkostnaði.

Verslið við nýsköpunarfyrirtæki

Nýsköpunarfyrirtæki á fyrri stigum þurfa að einbeita sér að sinni kjarnavöruþróun. Fyrirtæki geta boðið þeim stuðning með því að útvega húsnæði, tengslanet og sérfræðiráðgjöf ýmiss konar. En að mínu mati er langbesta leiðin til að styðja við nýsköpun einfaldlega sú að stofna til viðskipta við nýsköpunarfyrirtækin og hugsa um þau sem eins konar nýsköpunardeild innan fyrirtækisins. Með því losnar fyrirtækið við áhættuna af því að glata fókus eða hætta fjármagni, en ná markmiðum um þá vöruþróun eða nýsköpun sem það stefnir að. Verkefnin þurfa hvorki að vera stór, flókin né áhættusöm á fyrstu stigum. Vel skilgreint 6-12 mánaða „pilot verkefni“ getur verið nóg til að láta reyna á samstarfið og skapa virði fyrir báða aðila. Stundum kallað win-win á slæmri íslensku.

Höfundur er meðstofnandi og framkvæmdastjóri Taktikal ehf.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.