Ísland er ríkt af endurnýjanlegum náttúruauðlindum og byggjast grunnatvinnuvegir þjóðarinnar að miklu leyti á nýtingu náttúruauðlinda. Það er okkur því sem þjóð gríðarlega mikilvægt að rétt sé staðið að nýtingu þeirra, svo og að sátt sé um aðferðarfræðina við nýtinguna og almenna stefnu sem tekin verður í málum sem varða nýtingu orkuauðlinda. Ljóst er að miklir hagsmunir eru í húfi og ef til vill eðlilegt að skiptar skoðanir séu um þá stefnu sem taka skuli og hvar stíga eigi niður fæti fyrst. Sitt sýnist hverjum og háværar raddir ryðja sér fram, oftar en ekki auðkennanlegar á því fyrir hvaða hagsmunum er mælt.

Lengd nýtingarsamninga

Samkvæmt núgildandi lögum er hámarkstími tímabundins framsals á nýtingu auðlinda í eigu ríkis, sveitarfélaga og félaga sem alfarið eru í eigu þeirra, 65 ár. Því hefur verið hreyft í umræðunni að sá tími sé of langur og að réttara sé að gera nýtingarsamninga um afnot til skemmri tíma með það að markmiði að unnt verði að bregðast við breyttum forsendum í framtíðinni. Meirihluti stýrihóps um mótun heildstæðrar orkustefndu fyrir Ísland nefndi í þessu skyni að hóflegur tími gæti talist 25-30 ár. Í niðurstöðum nefndar um fyrirkomulag leigu á vatns- og jarðhitaréttindum í eigu ríkisins var tekið fram að almennt væri rétt að miða við styttri leyfistíma en hinu lögbundna hámarki nemur og voru 40-50 ár nefnd í því sambandi. Fylgismenn þess að miðað sé við það hámarks tímamark sem tilgreint er í núgildandi löggjöf benda á að um sé að ræða mjög fjárfestingafrekt svið þar sem miklir fjármunir eru í húfi. Eðlilegt sé að fjárfestar hafi tíma til að endurheimta fjárfestingu sína en slíkt getur reynst illmögulegt séu samningar gerðir til skamms tíma.

Þegar tekin er ákvörðun um lengd nýtingarsamninga vegast á hagsmunir eiganda auðlindarinnar annars vegar og handhafa nýtingarréttarins hins vegar. Gríðarlega mikilvægt er að sá nýtingartími, sem miðað verður við í íslenskum lögum, taki nægilegt tillit til hagsmuna þess sem er handhafi nýtingarréttarins. Nýtingu á orkuauðlindum fylgja að jafnaði umfangsmiklar fjárfestingar og það hlýtur að vera markmið löggjafar á sviði orkumála að gera einkaaðilum kleift, og jafnvel að hvetja einkaaðila til, að fjárfesta í mannvirkjum til nýtingar orkuauðlinda, þótt slíkri nýtingu verði að setja sterkan ramma. Lengd nýtingarsamninga skiptir höfuðmáli í þessu sambandi og getur haft töluvert um það að segja hvort fjárfestar sjái yfir höfuð hag sinn í því að líta til verkefna á þessu sviði.

Orkuverð hér á landi er lágt samanborið við markaði í öðrum löndum en kostnaður við byggingu mannvirkja og framkvæmdir er hár. Þetta eru atriði sem líta þarf til og taka mið af þegar tekin er ákvörðun um lengd nýtingarsamninga. Lengd samninga um nýtingarrétt þarf að geta verið nógu langur til að aðili sem hefur nýtingarrétt sjái hag sinn í því að leggjast í slíka fjárfestingu.

Eitt af því sem einnig skiptir miklu máli er hvað gerist við lok umsamins nýtingartíma. Á aðili að eiga sjálfkrafa forgangsrétt til áframhaldandi nýtingar eftir að tímabundnum nýtingarsamningi lýkur? Á fráfarandi nýtingaraðili rétt á endurgjaldi fyrir þær fasteignir og þann búnað sem eftir standa við lok nýtingartímans? Skiptir í því skyni máli hvort annar aðili hlýtur nýtingarsamning eða hvort ríkið taki að sér nýtingu auðlindarinnar? Allt eru þetta spurningar sem svara þarf þegar stefna er mótuð í málum varðandi nýtingu orkuauðlinda.

Til greina getur komið að setja á fót kerfi sem felur í sér greiðslu tryggingargjalds af hálfu handhafa nýtingarréttar, sem hann fær endurgreitt við lok nýtingartímans ef ástand auðlindarinnar og mannvirkja er í viðunandi ásigkomulagi. Með þessu ætti að skapast hvati hjá handhöfum nýtingarréttar að huga að viðhaldi og endurnýjun mannvirkja og búnaðar og koma í veg fyrir óeðlilega rýrnun verðmæta þegar líða fer að lokum samningstímans. Væri þannig komið í veg fyrir hinn svokallaða leigjandavanda sem lýsir sér einna helst í því að hvatinn til að huga endurbótum og viðhaldi minnkar eftir því sem líður á leigutímann sjái leigjandinn þess ekki kost að endurheimta þá fjármuni sem hann hefur lagt í endurbæturnar og viðhaldið.

Töluverðs misskilnings virðist gæta hér á landi um að langur leigutími auðlindar leiði til eða megi jafna við eignarhald viðkomandi leigutaka á þeirri auðlind sem um ræðir. Með leigu er að sjálfsögðu gengið mun skemur en með framsali eignaréttar. Leigusamningur er að jafnaði tímabundin ráðstöfun þótt samið sé um leigu til langs tíma, jafnvel til margra áratuga í senn. Mikilvægt er að kveðið sé á um það með skýrum hætti hvað verði um afnotaréttinn þegar samningur aðila rennur sitt skeið og mælir fátt með sjálfkrafa endurnýjun leigutíma að tilteknum skilyrðum uppfylltum, enda verður að játa eiganda auðlindar visst svigrúm til að taka mið af breyttum aðstæðum. Eðlilegra er að kveðið sé á um að innan hæfilegs frests fyrir lok leigutíma geti aðilar tekið upp samningaviðræður um áframhaldandi leigu ef áhugi er fyrir slíku. Gera verður þær kröfur að fyrir liggi með nægilegum fyrirvara fyrir lok leigutíma hvort nýr samningur verði gerður við fyrri leigutaka eða hvort auðlindin verði boðin öðrum.

Um aðkomu erlendra fjárfesta

Samkvæmt ákvæðum laga nr. 34/1991 um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri eru vissar takmarkanir settar fyrir eignarhaldi erlendra aðila á íslenskum orkufyrirtækjum. Í meginatriðum er núverandi lagaumhverfi byggt upp á þann hátt að íslenskir ríkisborgarar og aðrir íslenskir aðilar mega einir eiga virkjunarréttindi vatnsfalla og jarðhita önnur en til heimilisnota. Það sama á við um fyrirtæki sem stunda orkuvinnslu og orkudreifingu. Með lagabreytingum árið 2006 var kveðið á um að eignarhald fyrirtækja á framangreindum vettvangi væri einnig heimil einstaklingum sem búsettir eru í öðru aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES), öðru aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) eða Færeyjum og lögaðilum heimilisföstum í framangreindum ríkjum. Því er ljóst að reistar eru nokkrar skorður við því að erlendir aðilar utan EES geti lagt til fjármagn til framkvæmda við virkjanir, enda þótt mikil þörf sé á fjármagni til að ráðast í fyrirhugaðar framkvæmdir. Telja verður að aðkoma erlendra aðila að fjárfestingum á sviði jarðvarmanýtingar sé heppileg, svo framarlega sem slík fjárfesting er gerð á réttum forsendum enda geta slíkar fjárfestingar haft afar jákvæðar hliðarverkanir í för með sér fyrir íslenskt atvinnulíf, auk þess sem aðdráttarafl landsins sem fjárfestingarkosts getur aukist verulega ef vel tekst til.

Af umræðu í samfélaginu vegna fjárfestinga erlendra aðila í atvinnustarfsemi hér á landi, hugsanlegum kaupum þeirra á fasteignum svo ekki sé minnst á tilfæringar erlendra aðila á sviði orkumála hér á landi er ljóst að viðvörunarbjöllur hljóma í eyrum allmargra þegar til skoðunar kemur hvort rétt sé að opna landið og þessa fjárfestingarkosti fyrir erlendum fjárfestum. Það er vitanlega alveg jafn ljóst að ef taka á af skarið og hleypa erlendum fjárfestum í ríkari mæli inn á markað með jafn mikla möguleika og jarðvarmamarkaðurinn hér á landi þurfa reglur að vera skýrar og fyrirsjáanlegar fyrir alla aðila á markaði. Þá er og mikilvægt að reglur séu gagnsæjar og hugsanlegar breytingar séu vel kynntar fyrir hagsmunaaðilum þannig að aðilar sem fyrir eru viti og geti vitað í tíma hvaða breytingar séu í farvatninu og hvað þær feli í sér fyrir stöðu þeirra. Kemur þá ekki síst til skoðunar hvað gerist þegar nýtingasamningur rennur sitt skeið og fjallað var um hér að framan.

Tvö atriði virðist einhverra hluta vegna vera samtengd allri umræðu um fjárfestingar erlendra aðila hér á landi. Í fyrsta lagi sú hugmynd að aðkoma erlendra fjárfesta að verkefnum hér á landi leiði til framkvæmda á vettvangi stóriðju og í öðru lagi að til umtalsverðs rasks á náttúrunni þurfi að koma til að unnt sé að nýta þá góðu kosti sem eru til ráðstöfunar hér. Hvort tveggja er rangt og gefur til kynna að þörf sé á opnari umræðu um þau tækifæri sem fjárfesting erlendra aðila hér á landi gæti haft í för með sér.

Stærsta spurningin í þessu tilliti er hvort Íslendingar séu reiðubúnir til að bjóða heim valmöguleikanum á frekari aðkomu erlendra aðila á íslenska jarðvarmaorkumarkaðinum, markaði sem vafalítið á eftir að vaxa fiskur um hrygg á næstu árum og áratugum, enda hvetur alþjóðasamfélagið stöðugt til nýtingar á endurnýjanlegri orku í stað þess að notast við aðra orkugjafa sem ekki eru jafn æskilegir út frá sjónarmiðum um sjálfbærni og umhverfisvernd. Þá er stöðugt verið að kynna nýja tækni til sögunnar við vinnslu endurnýjanlegra orkugjafa sem eykur enn á aðdráttarafl slíkra orkugjafa sem svar við orkuþörfum heimsbyggðarinnar til frambúðar.

Við teljum að í þeirri endurskoðun sem íslensk auðlindastefna gengur í gegnum um þessar mundir, sé mikilvægt að taka til skoðunar þau atriði sem hér voru nefnd. Augu samfélagsins þurfa einnig að opnast fyrir því að skynsamleg nýting orkuauðlinda til hæfilega langs tíma og með fyrirsjáanlegum hætti er okkur afar mikilvæg, hvort sem íslenskir eða erlendir aðilar standa að slíkri nýtingu.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 4. janúar 2012. Áskrifendur geta nálgast blaðið í heild hér að ofan undir liðnum tölublöð.