Það vakti athygli þegar nýtt stjórnarráð var kynnt í byrjun desember 2021 að sami ráðherrann á að sjá um orku- og umhverfismál. Þessi tilhögun þykir sérlega áhugaverð þar sem verið er að tengja saman tvo málaflokka í sama ráðuneytinu sem hafa þótt ósamrýmanlegir, verndun náttúrunnar og orkuvinnsla með virkjun náttúruauðlinda. Það sem mér þótti áhugavert er að baki þessari tilhögun er skilningurinn á að við lausn margra verkefna erum við stöðugt að leiða saman tvö eða fleiri ólík markmið og finna lausnir sem ganga upp fyrir öll markmiðin.

Þetta leiðir hugann að hvaða eiginleikar eru það sem við þurfum að þroska og ýta undir í námi, þjálfun og starfi sem gerir okkur kleift að takast á við þau verkefni sem eru á borðum okkar í dag. Tökum sem dæmi sjálfbærni og framlag fyrirtækja til sjálfbærni á sama tíma og að hingað til hefur nánast eini mælikvarði á velgengni verið fjárhagsleg arðsemi til hluthafa. Annað dæmi er nýting tækninnar t.d. gervigreindar á lausn verkefna og hvar siðferðileg mörk liggja í nýtingu á móti hugsanlegum gróða. Af nægu er að taka og í daglegu amstri er fjöldi verkefna sem fela í sér að við erum að sætta ólík markmið.

Í tæknigeiranum er mikil vöntun á starfsmönnum á öllum stigum með tækniþekkingu og reynslu til að sinna öllum þeim tækifærum sem við stöndum frammi fyrir í dag. Mikilvægi þess að hlúa að og auka þekkingu í STEM greinunum er gríðarlegt ef Ísland ætlar að vera alvöru nýsköpunarland og skapa áhugaverða og lífvænlega framtíð fyrir næstu kynslóðir. En við þurfum fleira til en tækniþekkinguna eina.

Ég átti samtal við forstjóra erlends tæknifyrirtækis þar sem umræðuefnið var hvað við stöndum frammi fyrir ótrúlega áhugaverðum verkefnum og tækifærum. Við stöldruðum við mannauðinn og veltum fyrir okkur hvaða eiginleika þarf til að leysa flókin verkefni og sækja tækifærin. Fyrir utan menntun, þjálfun og reynslu þá vorum við sammála að mikilvægur eiginleiki, en ekki algengur, er að geta tengt. Að geta tengt það sem manni er næst við það sem aðrir eru að fást við. Að geta tengt lausnir við ólíkar aðstæður og mismunandi og ólík sjónarhorn. Að geta séð og skilið samhengi hlutanna og ekki vera fastur í sínu sílói.

Ég var svo heppin fyrir nokkrum árum að kynnast kenningum Dr. Bill Thorbert og Dr. Susanne Cook-Greuter um lóðrétta þróun (e. vertical development). Samkvæmt þeirra kenningum göngum við mennirnir í gegnum mörg ferli lóðréttar þróunar. Stigin eru allt frá því að við erum sjálfhverf eins og ungabörn þar til komið er á stig Alkemistans þar sem full meðvitund er um samhengi hlutanna. Skilningur er á að lífið sé fullt af þversögnum og hæfni er til staðar til að leysa úr flóknum málum og halda í einstaklingseðlið. Þarna eru mörg stig á milli. Því miður eru einstaklingar og hópar sem ekki ná að þróast og festast í stigum þar sem sjóndeildarhringurinn er þröngur og þannig takmarkar möguleikana til betra lífs. Aðrir ná að tileinka sér viðhorf og eiginleika sem einkenna efri stigin og geta leyst úr flóknum viðfangsefnum og gripið tækifæri sem aðrir ekki sjá.

Af hverju er ég að bera þetta upp hér? Jú, með hliðsjón af framansögðu tel ég okkur standa frammi fyrir miklu tækifæri til að takast á við flókna framtíð og skilja næstu kynslóðir eftir með verkfæri í höndunum sem gerir þeim kleift að sigrast á öllum áskorunum sem framtíðin ber í skauti sér. Samhliða klassískri menntun og þjálfun höfum við tækifæri og verkfæri til að gera ungu kynslóðinni kleift að tileinka sér þá þætti sem til þurfa til að vera afl til nýsköpunar og lausna og hafa kjark og þor til að takast á við mótsagnarkennd verkefni.

Hvoru tveggja menntastofnanir og atvinnulífið hafa hlutverki að gegna í slíkri vegferð. Í menntakerfinu er víða verið að vinna í verkefnum þar sem ýtt er undir þætti eins og gagnrýna hugsun, frumkvæði, ímyndunarafl, fjölbreytni og sköpunarkraft.

Í atvinnulífinu er verið að leysa orku úr læðingi með því að innleiða annars konar skipulag en hefðbundið píramíðaskipulag. Dæmi er skipulag sem byggir á sjálfstjórnandi teymum sem oft á tíðum eru þverfagleg og geta þannig tengt og farið lengra með verkefnin. Annað dæmi eru störf sem byggja á skilgreiningu á verkefnum fremur en skilgreiningu í skipuriti. Í því samhengi er áhugavert að velta fyrir sér að unga kynslóðin er í auknum mæli að sækja í verkefnaskilgreind störf heldur en að sækjast eftir stöðum.

En betur má ef duga skal. Ég kalla eftir meðvituðu átaki menntakerfisins og atvinnulífsins til að veita ungu kynslóðunum þá umgjörð, þjálfun og tól sem gera þeim kleift að tengja og vera undir það búin að leysa flókin úrlausnarefni framtíðar.

Höfundur er framkvæmdastjóri Sensa.

Greinin birtist í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .